Fréttir
  • Graf um umferð

Stórfelldur samdráttur í umferð í júní

Samdrátturinn í heild nemur 8,7% milli júní mánaða og 4,6% frá áramótum

6.7.2010

Umferðin í júní 2010 á 16 völdum talningarstöðum dróst mikið saman miðað við sama mánuð fyrir ári síðan. Þannig er nærri 9 prósenta minni umferð núna í júni er fyrir ári og samdrátturinn í umferðinni þennan fyrri árshelming nemur 4,6 prósentum.

 

Umferðin minnkar á öllum talningarstöðunum 16 sem hefur ekki áður gerst á þessum árstíma. Útlit er því fyrir að umferðin í ár verði töluvert minni en í fyrra og svipuð eða jafnvel minni en hún var árið 2006.

 

Eins og sést á samanburðartöflunni er þetta mesti samdráttur í umferð milli ára fyrir sex fyrstu mánuði ársins frá því að Vegagerðin hóf að taka saman umferðartölur á þessum stöðum og einnig í fyrsta sinn sem samdrátturinn er á öllum landssvæðum bæði frá áramótum og svo milli júní-mánaða.

 

Samdrátturinn á Suðurlandi er það mikill að það jaðrar við að kallast hrun þar sem um er að ræða 17,5 prósenta minni umferð. (Tala leiðrétt, fyrri tala var aðeins hærri vegna reiknivillu, enda um órýndar tölur að ræða) Ekki er hægt að sjá í fljótu bragði hvað veldur þessum mikla samdrætti á Suðurlandi því ekki er að sjá að um leiðréttingu vegna mikillar aukningar árin á undan sé skýring, samanber töfluna hér að neðan. Hvort þetta kunni að tengjast eldgosinu á einhvern hátt er ekki gott að segja til um en það gæti verið einn af áhrifaþáttum.

 

 Samanburðartafla

 

Júní-mánuður gefur góða vísbendingu um hvernig sumarið muni koma út og sé tekið mark á því nú, stefnir í að sumarið verði það næst lakasta frá árinu 2005, þ.e. einungis umferðin árið 2005 var minni samanber meðfylgjandi graf um heildarakstur í hverjum mánuði.

Það er því nokkuð ljóst að miklar líkur eru á að minni umferð verði á landinu árið 2010 en árið 2009. Það er eiginlega bara spurning hvort umferðin verði meiri eða minni en árið 2006, samanber graf um heildarakstur frá janúar - júní og graf um uppsafnaðan akstur á 16 völdum vegköflum á Hringvegi.

 

Ath. umferðartölur fyrir árið 2010 eru órýndar, gætu því tekið breytingum við nánari skoðun Vegagerðarinnar þegar árið er gert upp.

Frekari upplýsingar gefur Friðleifur I Brynjarsson í fib@vegagerdin.iseða í síma 522-1809