Fréttir
  • Fánaborg Vegagerðar

Úthlutun úr rannsóknasjóði Vegagerðarinnar 2010

vandasöm úthlutun vegna fjölda umsókna

1.3.2010

Nú er rannsóknaráð Vegagerðarinnar að leggja lokahönd á úthlutun rannsóknafjár fyrir árið 2010. Ráðinu er mikill vandi á höndum, þar sem alls bárust 228 umsóknir og var sótt um samtals 518 milljón krónur. Hins vegar eru ekki nema 139 milljón krónur til úthlutunar, sem vegna niðurskurðar er reyndar nokkru lægri upphæð en vera ætti samkvæmt vegalögum, en þau kveða á um að ár hvert skuli a.m.k. 1,5% af mörkuðum tekjustofnum vegagerðar varið til rannsókna. Miðað við áætlanir um markaða tekjustofna til vegagerðar í fjárlögum 2010, ætti upphæðin að vera töluvert hærri. Vegna þess að ekki er meira til skiptanna verður að synja mörgum styrkbeiðnum og í sumum tilvikum ákveðið að hætta að styrkja verkefni sem þegar voru hafin. Fjárskorturinn verður einnig til þess að ekki er hægt að styðja við mörg verkefni, sem þó hafa tilvísun til áhersluatriða, sem gefin voru út þegar auglýst var eftir umsóknum.

Umsækjendur munu fá skeyti um samþykkt eða synjun umsókna nú í fyrstu viku marsmánaðar 2010.