Fréttir
  • Leid_B_2__afangi

Óheimilt að taka tillit til umferðaröryggis

þess vegna er úrskurður ráðherra felldur úr gildi

22.10.2009

Í dómi Hæstaréttar um úrskurð umhverfisráðherra vegna vegalagningar á Vestfjarðavegi (60), Bjarkalundur – Eyri í Reykhólasveit er ekki fallist á rök Héraðsdóms í málinu en tekið undir niðurstöðuna.

Samkvæmt niðurstöðu Hæstaréttar fellst rétturinn á það „að umhverfisráðherra hafi verið óheimilt í úrskurði sínum 5. janúar 2007 um mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðs vegar áfrýjanda [Vegagerðarinnar] að taka tillit til umferðaröryggis.“

Í úrskurði sínum sem sneri við niðurstöðu Skipulagsstofnunar hafði umhverfisráðherra metið að aukið umferðaröryggi sem fælist í því að fara fyrirhugaða leið væri meira en svo að hin neikvæðu áhrif á umhverfið vægu það upp.

Hæstiréttur fellir því ekki dóm um vegalagninguna sem slíka heldur á málsmeðferðina og rök umhverfisráðherra. Vegagerðin hefur niðurstöðu dómsins til athugunar áður en næstu skref verða tekin. Til greina kemur að hefja umhverfismatsferlið að nýju til að bæta fyrir formgallana og uppfylla þannig kröfur laga um mat á umhverfisáhrifum.

Lesa má rökstuðning og niðurstöðu Hæstaréttar í dóminum.