Fréttir
  • Nýjasta veglínan vestast á Hófaskarðsleið

Hófaskarðsleið í notkun næsta sumar

Skipulagsstofnun úrskurðar um nýjustu veglínuna

22.10.2009

Skipulagsstofnun hefur komist að þeirri niðurstöðu að ný útfærsla Vegagerðarinnar á veglínu vestast á Hófaskarðsleið sé ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Komi ekki til þess að úrskurðurinn verði kærður og framkvæmdaleyfi fæst má reikna með því að hægt verði að ljúka vegalagningu á nýrri veglínu og því sem eftir var upp á heiðinni um mitt næsta sumar.

Kynning á þessari framkvæmd er að finna hér á vef Vegagerðarinnar.

Lokið var við að undirbyggja mestan hluta Hófaskarðsleiðar í sumar utan tæplega tveggja kílómetra kafla vestast á leiðinni sem deilur hafa staðið um. Búið er einnig að leggja klæðingu á stóran hluta vegarins.

Birgir Guðmundsson svæðisstjóri á Norðaustursvæði segir að fljótlega verði hægt að hefja vinnu við verkið á ný þegar framkvæmdaleyfi fæst hjá sveitarfélaginu. En beðið verður með að hefja framkvæmdir a.m.k. þar til kærufrestur er útrunninn í seinni hluta nóvember mánaðar.

En verði úrskurður Skipulagsstofnunar kærður gæti málið tafist enn frekar. Birgir á þó ekki von á því að hægt verði að byrja af krafti fyrr en eftir áramót. Farið verði fram á það við verktakann að skeringum og undirbyggingu vegarins verði lokið það snemma að strax þegar tíðarfar leyfi í vor verði hægt að fara að leggja klæðingu á það sem eftir er og á nýju veglínuna, segir Birgir.

Þá verði mögulegt að taka veginn í notkun í júlí næsta sumar.