Fréttir
  • Norðausturvegur, Hófaskarðsleið um Borgarás

Norðausturvegur um Hófaskarðsleið, viðbót vegna breytinga á veglínu um Borgarás

13.10.2009

Þann 17. september 2009 tilkynnti Vegagerðin Skipulagsstofnun um breytingar á 1,8 km löngum kafla á nýrri veglínu Norðausturvegar, á kaflanum frá Klapparósi að Katastöðum. Ný lega vegarins var kölluð veglína 174 og er hún kynnt í greinargerð Vegagerðarinnar frá september 2009. Breytingar á veglínu Norðausturvegar eru allar innan rannsóknarsvæðis vegna mats á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar og telur Vegagerðin að um sé að ræða minniháttar breytingar á framkvæmdinni sem munu hjálpa til við að draga úr umhverfisáhrifum hennar miðað við veglínu 150. Breytingar á framkvæmdinni voru tilkynntar til Skipulagsstofnunar í samræmi við lög nr.106/2000 m.s.b., gr.6, viðauka 2, lið 13.a.


Vegna athugasemda frá fulltrúa Umhverfistofnunar um að skering í gegnum Borgarás samkvæmt veglínu 174 hafi talsverð sjónræn áhrif, hafa starfsmenn Vegagerðarinnar skoðað færslu á veglínu 174 um 40 m til norðurs. Sú veglína er nefnd veglína 175. Veglínan var færð er eins langt í norður og mögulegt er án þess að skerða öryggiskröfur Vegagerðarinnar. Miðað er við að skerða ekki lindir við Klapparós og að fyllingar nái ekki út í Klapparós, við stöð 500, austan við Borgarás. Með færslunni verður skeringin styttri og talsvert lægri að norðanverðu. Að sunnanverðu verður skeringin hæst 12 m, sem er svipað og í veglínu 174.


Telja má að sjónræn áhrif af vegi í gegnum Borgarás samkvæmt veglínu 175 verði eitthvað minni en af veglínu 174. Skarðið í gegnum ásinn verður minna áberandi séð frá austri og vestri. Háa skeringin sunnan við veginn mun þó sjást meira frá núverandi vegi þegar komið er frá Kópaskeri en samkvæmt veglínu 174. Þar sem hún verður hæst mun "hóllinn" norðan við veglínu 175 þó skyggja á og draga úr sjónrænum áhrifum. Eins og sést á myndum 10 og 11 í skýrslu Vegagerðarinnar frá september 2009, eru klettabelti í Borgarásnum. Mögulegt er að skeringin sunnan vegarins muni virka sem slíkt klettabelti að loknum framkvæmdum séð frá norðri. Ljóst er að með færslunni verða fyllingar beggja vegna Borgaráss eitthvað hærri.


Miðað verður við að skeringin sunnan við veginn standi brött en að norðan við veginn megi fletja skeringuna út og helst fylla yfir hana með jarðvegi og sá í hana. Á meðfylgjandi þversniðum er sýnd tillaga, -með bleikum línum, að því hvernig skeringin gæti litið út að loknum framkvæmdum. Endanleg útfærsla mun svo fara fram í samráði við Umhverfisstofnun.
Efnisþörf fyrir veglínu 175 er aðeins meiri en fyrir veglínu 174 vegna meiri fyllinga. Vegurinn er hannaður þannig að það fáist um 20 þús. m 3 af umframefni sem verður nýtt í veginn ofar í heiðinni ef efnisgæði leyfa.

Efnisþörfin er:
N. burðarlag 9.300 m 3
Fylling 43.500 m 3
Fláafleygur 17.800 m 3
Samtals 70.600 m 3


Skeringar eru 93.800 m 3 , þannig að umframefni er 23.200 m 3 . Hluti af því verður notað í efra burðarlag og klæðingu fyrir viðkomandi kafla en um 20.000 m 3 verða notaðir í nýjan Norðausturveg austar í Hólaheiði.


Vegagerðin hefur haft samráð við Umhverfisstofnun og sveitarfélagið Norðurþing vegna ofangreindra breytinga á áður kynntri veglínu Norðausturvegar um Hófaskarðsleið, breytingu um Borgarás, og hefur óskað eftir að Skipulagsstofnun taki einnig ákvörðun um matsskyldu veglínu 175 við ákvörðun stofnunarinnar um matsskyldu veglínu 174. Stefnt er að því að ákvörðun Skipulagsstofnunar liggi fyrir þann 21. október 2009.


Meðfylgjandi eru 9 teikningar, grunnmyndir, langsnið og þversnið