Fréttir
  • Grunnafjörður, hugsanleg veglína Hringvegar

Þverun Grunnafjarðar

greinargerð um helstu umhverfisáhrif

7.7.2009

Vegagerðin er að endurskoða og meta mögulega framtíðarlegu Hringvegar á milli Hvalfjarganga og Borgarness m.a. með tilliti til umferðaröryggis, umferðarrýmdar, fjölda akreina og staðsetningu og útfærslu vegamóta. Ljóst er að þörf er á miklum endurbótum á Hringveginum á þessum kafla.

Einn kostur er að færa legu Hringvegar vestur fyrir Akrafjall og yfir Grunnafjörð. Sú útfærsla styttir leiðina á milli Akraness og Borgarness um rúma 7 km og Hringveginn um tæpan km.

Meginniðurstaða greinargerðarinnar er að brú breyti sjávarföllum óverulega, að nýr Hringvegur um Grunnafjörð sé raunhæfur kostur.

Greinargerð um helstu umhverfisáhrif af þverun Grunnafjarðar

Árið 2007 var aðalskipulag Leirár- og Melahrepps 2002 – 2014 og aðalskipulag Skilmannahrepps 2002 – 2014 staðfest af umhverfisráðherra. Sá hluti aðalskipulaganna sem sneri að veglagningu yfir ósa Grunnafjarðar var þó ekki staðfestur. Þá ákvörðun byggði ráðherra meðal annars á áliti Umhverfisstofnunnar (2006).

Í álitinu kom fram að Grunnafjörður er friðland og eitt mikilvægasta votlendissvæði Íslands, eitt af þremur Ramsarsvæðum landsins og að með veglagningu yfir ósa Grunnafjarðar væri svæðið skorið í sundur með stórfelldri truflun fyrir fuglalíf. Enn fremur yrðu vatnsskipti trufluð með framkvæmdinni með þeim afleiðingum að breyting yrði á seltu og lífríki leirusvæðanna í Grunnafirði.

Í kjölfar ákvörðunar umhverfisráðherra ákvað Vegagerðin að afla frekari upplýsinga um möguleg umhverfisáhrif veglagningar yfir Grunnafjörð. Tilgangur þeirra vinnu er að leggja mat á helstu umhverfisáhrif af þessari veglagningu m.a. með hliðsjón af áliti Umhverfisstofnunar. Í greinargerðinni er svarað þeirri spurningu hvort það geti verið ásættanlegt m.t.t. umhverfisáhrifa að ráðast í vegagerð sem brúar Grunnafjörð.

Til þess að geta svarað þeirri spurningu hefur Vegagerðin meðal annars látið vinna athuganir á leirum, fuglalífi og fornminjum, auk þess að afla frekari upplýsinga um veðurfar og vatnafar á svæðinu. Í þessari vinnu hefur verið leitað álits Umhverfisstofnunar, Hvalfjarðarsveitar og Náttúrufræðistofnunar Íslands.

Vegagerðin er að endurskoða og meta mögulega framtíðarlegu Hringvegar á milli Hvalfjarganga og Borgarness m.a. með tilliti til umferðaröryggis, umferðarrýmdar, fjölda akreina og staðsetningu og útfærslu vegamóta. Ljóst er að þörf er á miklum endurbótum á Hringveginum á þessum kafla. Uppbygging núverandi vegstæðis er ýmsum vandkvæðum háð, m.a. sökum þess að núverandi lega er á köflum ekki góð, lítils landrýmis, fjölda tenginga og nálægðar við byggð.

Hluti endurskoðunar Vegagerðarinnar felst þar af leiðandi í að skoða möguleika á að færa legu Hringvegar. Einn kostur er að færa legu Hringvegar vestur fyrir Akrafjall og yfir Grunnafjörð. Sú útfærsla styttir leiðina á milli Akraness og Borgarness um 7.180 metra og Hringveginn um 720 metra (Vegagerðin 2008). Auk þess er lega lands og landrými á þeirri leið ákjósanleg fyrir mögulega tvöföldun vegarins.

Þessi leið felur í sér mun færri tengingar en núverandi veglína, sem er mikilvægt þegar litið er til umferðaröryggis. Ef þessi leið yrði valin væri einnig hægt að nýta núverandi Hringveg sem hluta af „innansveitar“ vegakerfi.

Þar sem Grunnafjörður er mjög mikilvægur út frá umhverfissjónarnmiðum ákvað Vegagerðin að ráðast í grunnrannsóknir á umhverfisþáttum fjarðarins til að fá úr því skorið hvort lagning Hringvegar yfir Grunnafjörð sé raunhæfur kostur m.t.t. mögulegra umhverfisáhrifa. Um leið er verið að svara þeirri spurningu hvort að vegur yfir Grunnafjörð sé raunhæfur kostur til frekari skoðunar þegar litið er til framtíðarlegu Hringvegar á milli Hvalfjarðarganga og Borgarness.