Fréttir
  • Hæstiréttur

Ekki sama vegsvæði og veghelgunarsvæði

Vegagerðin vinnur mál fyrir Hæstarétti

18.5.2009

Um var að ræða ágreining vegna eignarnáms frá árinu 2006 vegna lagningar Hringvegar í landi Fremri- og Ytri-Kota í Norðurárdal í Skagafirði. Stefnendur héldu því fram að ávallt ætti að taka eignarnámi að lágmarki 60 m breitt veghelgunarsvæði stofnvega en Vegagerðin taldi aðeins þörf á að taka 40 m breitt vegsvæði eignarnámi eins og algengast er þegar um 2ja akreina stofnvegi er að ræða.

Matsnefnd eignarnámsbóta vísaði til 33. gr. þágildandi vegalaga og úrskurðaði bætur fyrir 60 m breitt vegsvæði. Hæstiréttur hafnaði því með þeim rökum að því hefði ekki verið hnekkt að vegsvæði innan veggirðinga í landi umræddrar jarðar væri að jafnaði innan við 40 m breitt.

Landeigendur gætu nýtt land sitt allt að þeim mörkum og af þeim sökum ekki tilefni til að ætla að eignarnámið tæki til 60 m breiðs vegsvæðis þrátt fyrir að sækja þurfi um leyfi Vegagerðarinnar fyrir hvers kyns mannvirkjum á veghelgunarsvæði. Jafnframt var vísað til þess, að eldri vegur, sem að hluta til er nýttur sem reið- og rekstrarleið í samræmi við ákvæði framkvæmdleyfis sveitarfélags, hefði ekki í för með sér sambærilega kvöð og vegsvæði þjóðvegar.

Í þessum dómi kemur skýrt fram sá munur sem er á vegsvæði og veghelgunarsvæði þjóðvega. Með veghelgunarsvæði er átt við það land meðfram vegum, þar sem skylt er að fá leyfi Vegagerðarinnar fyrir hverskyns mannvirkjum, og er ýmist 60 m breitt (30+30) ef um stofnvegi er að ræða, eða 30 m breitt (15+15) ef um aðra vegi er að ræða.

Vegsvæðið er hins vegar land sem nauðsynlegt er vegarins vegna, til að hægt sé að halda honum við og hafa af honum sem fyllst not, eins og það er nú orðað í 8. tll. 3. gr. vegalaga nr. 80/2007. Vegagerðinni er ekki skylt að bæta að fullu allt veghelgunarsvæði þjóðvega heldur aðeins það land sem telst til vegsvæðis þjóðvegarins.

Með þessum dómi er eytt réttaróvissu að þessu leyti sem hlotist hefur af úrskurðum matsnefndar eignarnámsbóta en stefnubreyting varð hjá nefndinni á árinu 2005 hvað þetta varðar. Þetta mál var sláandi að því leyti að vegsvæðið í landi Kota er óvenju mjótt á köflum svo að eftir er tekið þannig að sú niðurstaða að bæta 60 m var mjög óeðlileg.

Dómur Hæstaréttar.