Fréttir
  • Ódýrar aðgerðir í Reykjavík

Ódýrar aðgerðir á vegakerfi höfuðborgarsvæðisins

Samkomulag Vegagerðarinnar og Reykjavíkurborgar

5.5.2009

Vegagerðin og Reykjavíkurborg hafa gert með sér samkomulag um ódýrar aðgerðir til að draga úr umferðartöfum og/eða auka öryggi í umferðarkerfi Reykjavíkurborgar.

Um mörg verk er að ræða svo sem að breyta umferðarljósastýringu úr 3 fösum í 4 á gatnamótum Kringlumýrarbrautar - Laugavegs - Suðurlandsbrautar og á gatnamótum Borgartúns og Kringlumýrarbrautar. rampar á Bústaðavegi og Kringlumýrarbraut verða lengdir og undiröng byggð. Einnig verða nokkrar framkvæmdir til að bæta aðstöðu strætó og auka forgang.

Samkomulagið: Reykjavíkurborg og Vegagerðin gera með sér eftirfarandi samkomulag um ýmis verkefni til að auka umferðaröryggi og greiða fyrir umferð í borginni. Reiknað er með að öll verkin verði unnin á árinu 2009. Einkum er um að ræða úrbætur á fjölförnum gatnamótum ásamt sérstökum aðgerðum til að greiða fyrir almenningssamgöngum, umferð gangandi og hjólandi vegfaranda ásamt umferðaröryggismálum. Heildarkostnaður við fyrirhugaðar framkvæmdir er áætlaður um 460 m.kr. Þar af er hluti Vegagerðarinnar áætlaður 320 m.kr og hluti Reykjavíkurborgar 140 m.kr.

Fyrir liggur frumhönnun verkefnanna, sjá greinargerðina Ódýrar aðgerðir á vegakerfi höfuðborgarsvæðisins

Gerður verður sérstakur samningur um endanleg kostnaðarskipti og umsjón verka, hvert fyrir sig eða nokkur saman, þegar verkhönnun liggur fyrir. Ákvarðanir varðandi verkhönnun, framkvæmdir og eftirlit verða teknar í samráði beggja aðila en Reykjavíkurborg mun leiða þá vinnu.