Fréttir
  • Vegagerðin hefur víða komið upp áningarstöðum við vegi landsins

Framkvæmdir Vegagerðarinnar við Kerið í Grímsnesi

engin efnistaka af hálfu Vegagerðarinnar

18.7.2008

Vegagerðin varði á árunum 2001 og 2002 a.m.k. 2,5 milljónun króna til uppbyggingar áningarstaðar við Kerið í Grímsnesi til viðbótar við bílastæði sem þar hafði áður verið lagt. En um er meðal annars að ræða frágang á bílastæði, uppsetningu upplýsingaskiltis, frágang göngustíga og uppgræðsla.

Þetta fé er til viðbótar þeim fjórum milljónum króna sem Ferðamálaráð hefur lagt í þessa aðstöðu.

Vegagerðin hefur ekki tekið sérstaklega afstöðu til gjaldtöku við Kerið í Grímsnesi eða bann við því að langferðabifreiðar stöðvi á bílastæðinu. Hinsvegar hefur Vegagerðin almennt litið svo á að áningarstaðir Vegagerðarinnar og hvíldarstaðir séu öllum vegfarendum opnir þeim að kostnaðarlausu hvort sem áningarstaðirnir eru byggðir á einkalandi eða landi hins opinbera.

Vegna orða Óskars Magnússonar í Kastljósi í gær 17. júlí um efnistöku Vegagerðarinnar við Kerið er rétt að taka fram að engin efnistaka hefur átt sér stað af hálfu Vegagerðarinnar á þessu svæði, a.m.k. ekki svo lengi sem elstu menn muna. Hinsvegar lá gamla Biskupstugnabrautin þar til um 1970 um þann stað þar sem bílastæðið er nú. Þar var þá líka vísir að útafkeyrslu eða bílastæði enda hafa vegfarendur stoppað við Kerið frá því bílaumferð hófst á Suðurlandi.

Fréttatilkynning send fjölmiðlum 18. júlí