Fréttir
  • Nýleg mynd af Örnólfsdalsbrú

Vegagerðin varðveitir elstu hengibrú landsins

yfir Örnólfsdalsá í Borgarfirði

4.6.2008

Yfir Örnólfsdalsá í Borgarfirði stendur enn hengibrú sem var byggð árið 1899 og er því elsta uppistandandi hengibrú landsins.

Hún hefur lítið viðhald fengið en nýtur þess að þjóðleiðin norður í land færðist frá henni. Því var snemma lítil umferð yfir hana og loks lá enginn vegur að henni. Í stað þess að vegfarendur færu um Dragháls upp úr Hvalfirði var þjóðvegurinn lagður vestan við Hafnarfjall.

Svipaðar brýr voru byggðar á þessum árum á fimm öðrum stöðum, yfir Ölfusá, Þjórsá, Jökulsá í Öxarfirði, Sogið og Hörgá.

Nú hefur verið ákveðið að varðveita brúna í þessari mynd fyrir minjasafn Vegagerðarinnar og þarf að endurnýja hana að miklu leyti í því skyni.

Þann 2. júni var auglýst útboð á stálsmíði vegna brúarinnar, útboðið verður opnað 18. júní. Brúin er 33 m löng. Stálið í brúna var smíðað í Kaupmannahöfn.