Fréttir
  • Áningarstaðir

Nokkrar staðreyndir í tilefni mótmæla

Vegagerðin sinnir umferðareftirliti þar á meðal vegna akstur- og hvíldartíma ökumanna

1.4.2008

Í umræðu undanfarinna daga hefur því meðal annars verið haldið fram að sektir Vegagerðarinnar séu of háar. Í þessu tilfelli má benda á að umferðareftirlit Vegagerðarinnar vinnur eftir umferðarlögum og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Skýrslur vegna meintra brota ökumanna eru sendar viðkomandi lögregluembætti sem ákvarðar frekari málsmeðferð, s.s. hvort ökumanni er boðið að ljúka málinum með greiðslu sektar eða hvort brotið sé það alvarlegt að ákæra þurfi. Varðandi ákvörðum sektarupphæðar hverju sinni er stuðst við reglugerð nr. 930/2006 um sektir og önnur viðurlög vegna brota á umferðarlögum og reglum settum samkæmt þeim. Reglugerð þessi var gefin út af Samgöngumálaráðuneytinu 31. október 2006.

Ennfremur sinnir Vegagerðin tilteknu eftirliti í umboði ríkisskattstjóra. Þar á það sama við og fyrr, komi fram við eftirlit meint brot þá skrifa eftirlitsmenn skýrslur sem sendar eru sem tilkynningar til ríkisskattstjóra til frekari úrvinnslu. Það eru svo embætti ríkisskattstjóra sem ákvarðar og ákveður viðurlög við þeim brotum upp hafa komið án afskipta Vegagerðarinnar.

Önnur fullyrðing snýr að áningastöðum og því haldið fram að úti á landi sé hvergi gert ráð fyrir því að ökumenn þurfi að stöðva og hvíla sig. Þjónustudeild Vegagerðarinnar hefur tekið saman kort sem sýnir alla mögulega áningar og eftirlitsstaði á landinu og kemur kannski á óvart hvað þeir leynast víða.

Þá hefur því verið haldið fram að þær reglur sem hér á landi væru í gildi varðandi aksturs- og hvíldartíma ökumanna væru mun strangari en allsstaðar annarsstaðar í Evrópu. Þetta er alrangt. Sömu reglugerðir eiga að gilda á öllu EES-svæðinu. Það má þó færa rök fyrir því að hér gildi vægari reglur en annarsstaðar. Þann 15. mars 2006 tók í gildi ný reglugerð um aksturs- og hvíldartíma á EES-svæðinu nr. 561/2006. Í þeirri reglugerð eru nokkrar breytingar sem eru þrengri en í þeirri eldri, nr. 3820/2005. Þessi nýja reglugerð hefur ekki enn tekið gildi hér á landi og má því segja að hér séu vægari reglur en annarsstaðar. Þá er einnig rétt að benda á að ákveðin frávik eru og hafa verið viðhöfð við úrvinnslu mála hvað varðar aksturs- og hvíldartíma og fullyrðingar um harðræði hvað það varðar fá ekki staðist.

Umræddar reglur um aksturs- og hvíldartíma ökumanna hafa verið í gildi hér á landi frá því 1995 og hafa lítið breyst á þessum tíma.

Sja einnig: verkefni umferðareftirlits, markmið, lög og reglugerðir