Fréttir
  • Leirvogstunga

Mislæg gatnamót á Hringvegi við Leirvogstungu

gatnamótin tengja Leirvogstungu og Tungumela

21.12.2007

Vegagerðin, og landeigendurnir Leirvogstunga ehf. og Ístak ehf. hafa samið um þverun Hringvegarins (Vesturlandsvegar) með mislægum gatnamótum á milli Leirvogstungu og Tungumela og tengingar við Vesturlandsveginn.

Miklar framkvæmdir standa yfir á þessu svæði með umtalsverðri umferð vörubíla þvert yfir Vesturlandsveginn. Í Leirvogstungu er að rísa íbúðahverfi sem tilheyrir Mosfellsbæ og á Tungumelum er að rísa hverfi sem er ætlað er fyrir margs konar atvinnustarfsemi. Mislæg gatnamót á þessum stað auka mjög umferðaröryggi og greiða fyrir umferð að og frá þessum hverfum og á milli þeirra.

Samningurinn felur það í sér að Vegagerðin samþykkir óskir landeigenda um tilteknar breytingar á Vesturlandsvegi og tengingar við hann. Vesturlandsvegi verður breytt á um 650 m kafla, og mislægt hringtorg byggt með að- og fráreinum sem tengjast munu gatnakerfi beggja vegna vegarins ásamt tveimur brúm yfir Hringveg.

Þátttaka landeigenda og verktaka í þessari framkvæmd leiðir til þess að verkið verður unnið fyrr en ella og kostnaður Vegagerðarinnar verður töluvert minni. Vegna framkvæmda landeigenda og verktaka beggja vegna Vesturlandsvegarins er þeim unnt að byggja mislægu gatnamótin á hagkvæmari hátt en ella. Samningsaðilarnir þrír skipta með sér kostnaði við þessa framkvæmd.