Fréttir
  • Umferð

Ökuhraði minnkar umtalsvert

samkvæmt mælingum Vegagerðarinnar undanfarin ár

23.11.2007

Ökuhraði á 10 stöðum á Hringveginum samkvæmt mælingum frá umferðagreinum Vegagerðarinnar hefur lækkað töluvert frá fyrri árum. Vegagerðin hefur mælt hraðann frá árinu 2004.

Meðalhraðinn á þessum tíu stöðum fer úr 97,0 km á klst árið 2004 í 94,1 km í sumar. Hér er um að ræða hraða bílanna en óháð annarri umferð, þ.e.a.s. hægar raðir eða stöðvun vegna umferðarslyss mælist ekki með.

Ef tekið er mið af þeim þeim hraða sem 85 prósent ökumanna halda sig innan við, þ.e.a.s. 15 prósent aka hraðar, þá fer hraðinn úr 108,6 km á klst árið 2004 í 104,2 km á klst. Ljóst er að hraði þeirra sem aka hraðast minnkar mest og hefur hraðinn því jafnast. Í báðum tilvikum er um umtalsverða lækkun á ökuhraðanum að ræða sbr. myndirnar hér fyrir neðan. Hafa ber þó í huga að þetta eru meðaltöl en eigi að síður góð vísbending um minnkandi ökuhraða.

Við þessa athugun voru valdir tíu umferðargreinar utan höfuðborgarsvæðisins í samráði við umferðardeild Vegagerðarinnar og um er að ræða tímabilið júní til september. Greina má svipaða tilhneigingu í tölum um vetrarumferð en þar sem ökuhraðinn á þeim árstíma tekur miklu meira mið af veðri og færð eru það ekki eins marktækar niðurstöður.

Líklegasta skýringin á þessari lækkun hraða er sérlega öflugt eftirlit lögreglu síðastliðið sumar og tilkoma sjálfvirkra hraðamyndavéla en hvorutveggja er liður í umferðaröryggisáætlun stjórnvalda. Hluta skýringarinnar má væntanlega einnig rekja til hærri sekta vegna hraðaksturs.

 

Sumar: Frjáls V85 á Hringvegi, 85% aka á þessum hraða eða minni, raðir og tafir ekki með: 

Hradatroun_hringvegi_04_07_V85_sumar

 

 

Sumar: Frjáls meðalhraði á Hringvegi, hraði allra nema raðir og tafir ekki með:

Hradatroun_hringvegi_04_07_Medal_sumar