Fréttir
  • Hófaskarðsleið

Vinna hafin við Hófaskarðsleið

Norðausturvegur (85) – Hófaskarðsleið Katastaðir – Fremri-Háls

20.11.2007

Framkvæmdir eru hafnar við Norðausturveg um Hófaskarð. Um er að ræða nýbyggingu frá vegamótum núverandi Norðausturvegar skammt norðan við Klapparós í Núpasveit í Norðurþingi að núverandi Norðausturvegi á Fremri-Hálsi í Svalbarðshreppi.

Lengd vegarins er 30.6 km og liggur hann um lönd jarðanna Presthóla/Katastaða, Brekku og Grasgeira í Norðurþingi, og jarðanna Krossavíkur, Kollavíkur og Borga í Svalbarðshreppi. Nýr Norðausturvegur tengist nýverandi Norðausturvegi um 400 m norðan við Klapparós. Nýi vegurinn liggur frá áðurnefndum vegamótum til austurs, skammt norðan Katastaða og þaðan austur um Hólaheiði, 20,8 km leið að Ormarsá á Sléttu, og þaðan áfram skammt sunnan Krossavíkurselsvatns og upp á Hófaskarð.

Úr Hófaskarði sveigir vegurinn til suðurs og liggur á u.þ.b. 1 km kafla í sneiðingi framan í allbrattri fjallshlíð og þaðan um fremur mishæðótt landslag að núverandi Norðausturvegi á Fremri-Hálsi, skammt norðan Stóra-Viðarvatns. Fyrstu 2 km framhjá Katastöðum er vegstæðið í 10-20 m hæð yfir sjó, en hækkar á næsta 1 km nokkuð skarpt upp í 75 m y.s. Þar austan við fer landið jafnt hækkandi upp í 160 m y.s., þó með nokkrum undantekningum.

Á austanverðu Kötluvíðrahrauni tekur landið að halla lítillega austur af. Yfir Hófaskarð liggur vegurinn hæst eða í 215 m y.s. en austur úr skarðinu lækkar vegstæðið aftur og liggur eftir það í 140-180 m y.s. til enda útboðskaflans á Fremra-Hálsi.

Í tengslum við verkið verður ný 28 m löng brú yfir Ormarsá byggð. Um er að ræða 8,5 m breiða, steypta eftirspennta bitabrú í einu hafi. Þá verða 2 áningastaðir gerðir, annarsvegar austan Álftatjarnar og hinsvegar á austurbrún Hófaskarðs.

Áætluð efnisþörf fyrir verkið er um 1450 þús. m3.

Tilgangur framkvæmdarinnar er að styrkja samgöngur milli byggðakjarna á Norðausturlandi, að auka umferðaröryggi og stuðla að greiðari samgöngum á svæðinu með því að leggja veg með hönnunarhraða 90 km/klst. Jafnframt að lágmarka akstursfjarlægð á milli þéttbýliskjarna og stuðla þannig að myndun eins þjónustusvæðis sem nær til Kópaskers, Raufarhafnar og Þórshafnar. Almennt verður nýr vegur öruggari og greiðfærari en núverandi vegur, auk þess sem hann kemur til með að stytta vegalengdir verulega milli þéttbýlisstaða.

Núverandi vegalengdir milli þéttbýlisstaðanna eru mismunandi eftir því hvort farið er um Norðausturveg (85) eða veg um Öxarfjarðarheiði (867). Milli Kópaskers og Þórshafnar eru 117 km þegar farið er eftir Norðausturvegi um Melrakkasléttu, en 95 km ef farið er um Öxarfjarðarheiði. Sjá töflu hér fyrir neðan.

Verkið var boðið út í maí árið 2007 og eru framkvæmdir hafnar. Verktaki er Héraðsverk ehf. Áætluð verklok eru 1. nóvember 2009.

Matskýrsla, teikningar og önnur fylgigögn eru aðgengileg hér á vef Vegagerðarinnar

 

 

Húsavík-Þórshöfn (km)

Kópasker-Þórshöfn (km)

Núverandi Norðausturvegur um Sléttu (85)

212

117

Vegur um Öxarfjarðarheiði (867)

144

95

Nýr vegur, Hófaskarðsleið

159

71



 

hofaskardsleid

Vegagerð norðan við Stóra-Viðarvatn á Fremri-Hálsi (RJ 2007)


hofaskardsleid

Ræsagerð í Kjarnagili (RJ 2007)