Fréttir
  • Grímseyjarferjan

Engin óvissa um að Grímseyjarferja muni sigla

Yfirlýsing frá Vegagerðinni

4.9.2007

Að gefnu tilefni, vegna fréttar í Blaðinu í dag, er nauðsynlegt að fram komi að Grímseyjarferjan, sem er á síðustu stigum endurbóta, mun uppfylla skilyrði reglugerðar 666/2001 um farþegaskip á B-siglingaleið sem er skilgreiningin á siglingaleiðinni Dalvík – Grímsey.

Einnig mun skipið uppfylla ákvæði Evróputilskipunar EC 98/18 og hefur uppfyllt þau ákvæði löngu áður en ferjan var keypt til Íslands. Fram kemur í skýrslu Einar Hermannssonar skipaverkfræðings frá 19. nóvember 2004 að “Grundvallaratriði í sundurleitum skírteinum skipsins eru að skipið uppfyllir ákvæði EC 98/18 og þ.m. ísl. Reglugerðar nr. 666/2001 um farþegaskip á B-siglingaleiðum.” Síðar í sömu skýrslu segir: “Í skipinu voru samþykkt stöðugleikabók með upphafs- og lekastöðugleikaútreikningum fyrir skipið frá 2001 í kjölfar þess að skipskrani var endurnýjaður með stærri og nýrri krana. Stöðugleikabók er til frekari staðfestingar á því sem fram kemur í lið 6. að framan að skipið fullnægi kröfum í EC 98/18 um farþegasiglingar á B-hafsvæðum.”

Ári síðar, með tölvupósti 3. nóv., staðfestir Ólafur Briem fyrir hönd Siglingastofnunar að ferjan uppfylli skilyrði: “Að öllu samanlögðu tel ég að fyrirliggjandi upplýsingar séu trúverðugar og að ekki sé tilefni til þess að draga í efa að skipið fullnægi stöðugleikakröfum þó svo að ekki sé með öllu ljóst hvort það er við 72 tonna farmþunga við óbreytta djúpristu eða við 95 tonna farmþunga við aukna djúpristu.”

Þessu til viðbótar hefur farið fram skoðun á lekastöðugleika Grímseyjarferjunnar samhliða endurbótum á skipinu og að gefnum ákveðnum forsendum vegna breytinga stenst ferjan nú stöðugleikakönnun. Endanlega verður frá því gengið í lok endurbóta og ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að ferjan fái haffærniskírteini. Það er því engin óvissa um að ferjan muni sigla.