Fréttir
  • Bláskeggsárbrú 100 ára

Bláskeggsárbrú 100 ára ¿ endurbætur í sumar

21.5.2007

Unnið verður að endurbótum og viðgerð á Bláskeggsárbrú í Hvalfirði í sumar. Vegagerðin samþykkti nýlega fyrir sitt leiti að hefja framkvæmdir við endurbætur. Reiknað er með að þær muni kosta 8 – 10 milljónir króna en fleiri koma að fjármögnun því Fornleifavernd og Hvalfjarðarsveit hafa lagt fram fé til verksins.

Bláskeggsárbrú er með steinsteyptum boga og er ein af fyrstu brúm þeirrar gerðar sem byggð var á Íslandi. Brúin var byggð árið 1907 og er því 100 ára gömul. Þór Magnússon þáverandi þjóðminjavörður lét setja brúna á skrá yfir friðlýstar fornleifar árið 1978 en brúin er eina mannvirki sinnar tegundar sem hefur verið friðlýst samkvæmt þjóðminjalögum.

Starfshópur vegna endurreisnar Bláskeggsárbrúar er að störfum en í honum sitja Kristinn Magnússon frá Fornleifavernd ríkisins og er hann formaður hópsins; Arnheiður Hjörleifsdóttir frá Hvalfjarðarsveit, fundaritari; og Jakob Hálfdanarson minjavörður vegminjasafns af Vegagerðarinnar hálfu. Nefndarmenn eru sammála um að brúna beri að færa til upprunalegs horfs og fjarlægja viðbót sem sett var á brúna í seinni heimsstyrjöldinni.

Um tíma var talið að Bláskeggsárbrú væri fyrsta járnbenta brúin en í ljós kom við rannsóknir að svo er ekki. Brúin var fyrst byggð 7 metra löng og 2,8 metra breið, steyptur bogi á undirstöðum úr hlöðnu grjóti. Boginn var fylltur jarðvegi til að halda jafnri hæð vegarins yfir brúna og utan á hann voru steyptar hliðar til að halda fyllingunni á sínum stað.

Í seinni heimsstyrjöldinni breikkuðu Bretar brúna til vesturs um 0,8 metra, en um var að ræða steypta viðbót við hlöðnu stöplana. Þá voru einnig settir stálboltar með timburgólfi ofan á jarðfyllinguna til að dreifa álaginu frá sívaxandi umferð. Brúin var í notkun allt til ársins 1951 þegar vegurinn var færður niður að sjó.

Viðbót Bretanna frá stríðsárunum er járnbundin en við rannsókn sumarið 2006 kom hins vegar í ljós að í eldri hlutanum er engin járnalögn.

Handrið hefur á sínum tíma verið á brúnni eins og sjá má af mynd úr safni Geirs Zöega, fyrsta vegamálastjóranum. Handriðið hefur verið smíðað úr rörum eða massívu stangarjárni. Það hefur verið um 8 metra langt og 1,2 metra hátt. Stöplar og vængir brúarinnar voru hlaðnir úr steinlímdri grjóthleðslu en ólímd hleðsla er fyrir ofan vængina upp í veghæð beggja vegna brúarinnar.

Mæla þarf brúna upp, fjarlægja timbur, stálbita og allt laust efni af brúnni. Fjarlægja þarf steyptu viðbótina frá stríðsárunum, endurhlaða síðan steinlímda vængi ef þeir eru ekki til staðar undir viðbótinni. Þá þarf að steypa bríkur utan á bogann beggja vegna og tengja á milli til að tryggja stöðugleika. Endurnýja þarf grjóthleðslur aftan við nýjar bríkur og ofan við vængi. Og að lokum þarf að smíða og ganga frá nýju handriði.

Reiknað er með að vinna hefjist fljótlega og að hægt verði að ljúka viðgerðum í sumar á 100 ára afmælinu.

Bláskeggsárbrú fyrir breikkun

Bláskeggsárbrú einsog hún leit út áður en Bretar breikkuðu hana