Fréttir
  • NVF34 ráðstefna 2007

Burðarþolshönnun og niðurbrotsmódel vega

Ráðstefna haldin á Grand Hótel Reykjavík 22. og 23. mars 2007

20.3.2007

Fyrirlesarar á ráðstefnunni eru í fremstu röð sérfræðinga í heiminum á sviði vega- og gatnahönnunar og niðurbroti vega. Ráðstefnan er haldin af Vegagerðinni, Norræna vegtæknisambandinu (NVF), Tækninefnd 34 og nefnd um rannsóknir og þróun á sviði vegagerðar á Norðurlöndunum (NordFoU).

NVF34 vinnur að því að bera saman og meta mismunandi hönnunaraðferðir sem nú eru við hafðar á Norðurlöndunum. Nefnd NordFoU um niðurbrotsmódel, vinnur að því að aðlaga núverandi niðurbrotmódel og/eða þróa slík verkfæri og hafa vegagerðirnar á Norðurlöndum ákveðið að leggja 800 þúsund evrur í verkefnið á næstu þremur árum. Unnin hefur verið stöðuskýrsla um notkun niðurbrotsmódela á Norðurlöndum og ráðstefnan er hluti af þessu verkefni.

Fyrirlesarar á ráðstefnunni eru í fremstu röð sérfræðinga í heiminum á sviði vega- og gatnahönnunar og niðurbroti vega. Fyrst mun Sigurður Erlingsson og Saba Rabbira Garba fara almennt yfir fræðilega hönnun og niðurbrotsmódel. Sérfræðingar norrænu vegagerðanna munu síðan kynna þær aðferðir sem notaðar eru á Norðurlöndunum. Farið verður ítarlega í nýja bandaríska hönnunarmódelið „Design Guide" og sömuleiðis hönnunarforrit sem notað er af vegagerðinni í Minnesota, Mn/Pave. Carl Monismith og Per Ullidtz kynna hönnunaraðferðir sem verið er að þróa fyrir CalTrans í Kaliforníu og Björn Birgisson mun kynna nýja hönnunaraðferð sem byggir á nýrri nálgun aðstæðna og hefur m.a. verið tekin upp af vegagerðinni í Flórída. Andrew Collop mun segja frá enskum hönnunaraðferðum og þróun á þessu sviði. Pierre Hornych fer fyrir hópi sem vinnur að nýju hönnunarmódeli í Frakklandi og mun hann segja frá því sem er verið að gera hjá LCPC, sem er ein stærsta rannsóknarstofnunum á sviði samgöngutækni og umhverfismála í Evrópu.

Heimaverkefni fyrirlesara

Áhersla verður lögð á umræðuþáttinn og hafa sérfræðingarnir m.a. fengið verkefni þar sem þeir eiga að hanna vegi fyrir þrjá umferðarflokka áður en þeir mæta á ráðstefnuna. Ætlunin er að bera saman niðurstöðurnar frá hinum mismunandi aðferðum. Einnig voru þeir beðnir um að meta áhrif aukinnar þungaumferðar á líftíma veganna sem þeir hanna og verður fróðlegt að skoða það í ljósi breytinga sem hafa orðið á þungaflutningum um þjóðvegi hér á landi.

Nánari upplýsingar og skráning á vef NVF 34