Fréttir
  • Fáskrúðsfjarðargöng

Viðbragðsáætlun í Fáskrúðsfjarðargöngum

30.1.2007

Laugardaginn 27. janúar var í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins frétt frá Austurlandi um að ekki væri til viðbragðsáætlun fyrir Fáskúðsfjarðargöng, meira en ári eftir opnun ganganna.

Eins og fram kom í fréttinni hafa verið til um töluverðan tíma drög að slíkri áætlun, en ekki hefur verið gengið frá henni formlega, eins og á auðvitað að gera. Ástæðan er sú að Brunamálastofnun á að fara yfir slíka áætlun og koma með ábendingar eða athugasemdir fyrir sitt leyti, sem hún og gerði á sínum tíma.

Hins vegar stóð útaf að ganga frá reglum um flutninga á eldsneyti, sem aðilar voru ekki á einu máli um, og því miður tók allt of langan tíma að leiða það til lykta. Það var hins vegar gert rétt fyrir jólin og eftir það er ekkert því til fyrirstöðu að ganga frá viðbragðsáætluninni formlega. Verður það gert nú alveg á næstunni. Eftir það þarf m.a. að láta fara fram þær æfingar sem tilskyldar eru samkvæmt viðbragðsáætluninni.

Taka verður fram að þótt áætlunin hafi ekki verið formlega frágengin hefur það ekki haft nein áhrif á öryggisbúnað ganganna, sem var að fullu frágenginn fyrir opnun. Bein boð eru frá neyðarsímum til Neyðarlínunnar, og margháttuð boð um bilanir eða annað sem sjálfvirkir skynjarar nema í göngunum eru sent sjálfvirkt með SMS skilaboðum til Lögreglu og vaktsíma Vegagerðarinnar.

Engar breytingar verða á efnisatriðum viðbragðsáætlunarinnar milli þeirra draga sem þegar liggja fyrir og þeirri sem verður formlega í gildi. Því er ekki hægt að segja að í raun sé neinn munur á öryggi vegfarenda við þá staðfestingu, frá því sem verið hefur. En auðvitað eiga þessi atriði að vera formlega frágengin og ber að harma hversu lengi hefur dregist að koma því í verk.