Fréttir
  • Grímseyjarferjan Sæfari.

Sæfari siglir aftur frá og með 7. júní

Áætlunarsiglingar milli Grímseyjar og Dalvíkur hefjast á ný eftir viðhald og skoðun

1.6.2023

Grímseyjarferjan Sæfari hefur verið í slipp undanfarnar vikur og ef allt gengur að óskum er áætlað að siglingar hefjist aftur 7. júní milli Grímseyjar og Dalvíkur. 

Undanfarnar vikur hefur Grímseyjarferjan Sæfari verið í reglubundinni skoðun og viðhaldi sem nauðsynlegt er til að viðhalda haffæri skipsins. Nú í vor var kominn tími á umfangsmeira viðhald og ítarlegri skoðun en hefðbundin árleg skoðun, enda skipið orðið rúmlega 30 ára gamalt. Af ýmsum ástæðum hefur sú vinna tekið lengri tíma en gert var ráð fyrir í upphafi en þá var áætlað að hún tæki sex til átta vikur. Margir ófyrirséðir þættir spila þar inni, svo sem óhagstætt veður og mannekla.

Á meðan ferjan hefur verið í slipp hefur fiskiskipið Þorleifur sinnt afurða- og vöruflutningum til og frá Grímsey. Farþegaflutningum hefur verið sinnt með áætlunarflugi á vegum Norlandair, en flugferðum á milli lands og eyjar var fjölgað úr þremur í fjórar á viku og verða fjórar þar til siglingar hefjast á ný.