Fréttir
  • Um 130 gestir sátu ráðstefnuna.
  • Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar bauð fólk velkomið.
  • Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra ávarpaði ráðstefnuna.
  • Guðrún Þóra Garðarsdóttir verkfræðingur á hönnunardeild fór yfir sögu brúarsmíði á Íslandi.
  • Hreinn Haraldsson fyrrverandi vegamálastjóri sagði sögu brúarvinnuflokka Vegagerðarinnar.
  • Guðmundur Valur Guðmundsson framkvæmdastjóri þróunarsviðs greindi frá stöðu einbreiðra brúa.
  • Anne Moloney brúarverkfræðingur hjá danska fyrirtækinu Ramboll sagði frá hönnun nýju Storstrom-brúarinnar.
  • Hjálmur Sigurðsson frá Ístaki fjallaði um áskoranir verktaka í brúargerð.
  • Reynir Georgsson fjallaði um brúna yfir Þorskafjörð.
  • Magnús Arason frá EFLU fjallaði um Öldu, brú yfir Fossvog.
  • Keit Brownlie arkitekt hjá BEAM Architects fjallaði um Öldu, brú yfir Fossvog.
  • Martin Knight brúararkítekt flutti fyrirlesturinn Together we are stronger - collaborations in bridge design.
  • Valur Birgisson verkefnastjóri á framkvæmdadeild sagði frá því hvernig viðhaldi brúa er háttað.
  • Magnús Tumi Guðmundsson prófessor við Háskóla Íslands fjallaði um Jökulhlaup á Íslandi tengd eldvirkni og jarðhita.
  • Ólafur Sveinn Haraldsson forstöðumaður rannsókna hjá Vegagerðinni greindi frá nokkrum af þeim brúarrannsóknum sem rannsóknasjóður Vegagerðarinnar hefur styrkt undanfarin ár.
  • Anna Hulda Ólafsdóttir frá Veðurstofunni fjallaði um aðlögun að loftslagsbreytingum á Íslandi.
  • Einar Óskarsson verkfræðingur á hönnunardeild fjallaði um nýja Ölfusárbrú.
  • Guðmundur Valur Guðmundsson framkvæmdastjóri þróunarsviðs rýndi inn í framtíðina í lok ráðstefnunnar.
  • Um 130 gestir sátu ráðstefnuna.
  • Um 130 gestir sátu ráðstefnuna.
  • Um 130 gestir sátu ráðstefnuna.
  • Um 130 gestir sátu ráðstefnuna.
  • Mikill áhugi var á ráðstefnunni og þétt setið.

Vel sótt brúarráðstefna

4.5.2023

Mikill áhugi var fyrir brúarráðstefnu Vegagerðarinnar, Byggjum brýr, sem haldin var fimmtudaginn 26. apríl síðastliðinn. Um 130 manns sóttu ráðstefnuna sem haldin var á Hótel Reykjavík Grand. Góður rómur var gerður að erindunum enda bæði fróðleg og skemmtileg þar sem litið var bæði til fortíðar og framtíðar í brúargerð á Íslandi.

Ráðstefnan hófst á því að Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, bauð gesti ráðstefnunnar velkomna. Þá ávarpaði Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra ráðstefnugesti. Hann sagði meðal annars mikilvægt að víkka fjárhagsrammann þegar kemur að endurnýjun og viðhaldi brúa. Því sé nauðsynlegt að hækka fjárfestingastigið hjá hinu opinbera.

Ráðstefnan hófst á sögulegum nótum. Guðrún Þóra Garðarsdóttir, brúarhönnuður á hönnunardeild Vegagerðarinnar, flutti erindið Brýr fyrr og nú, þar sem hún fór stuttlega yfir brúarsögu landsins og sagði frá nokkrum sögulegum brúm sem Vegagerðin hefur gert upp af miklum myndarskap.

Hreinn Haraldsson, fyrrverandi vegamálastjóri, flutti næst erindi um brúarvinnuflokka Vegagerðarinnar en saga þeirra er orðin ríflega 100 ára löng. Hann sagði rökin fyrir því að Vegagerðin haldi úti slíkum vinnuflokkum vera að nauðsynlegt þyki að stofnunin ráði yfir ákveðinni verkþekkingu til að geta samið við verkfræðistofur og verktaka. Þá séu flokkarnir hluti af viðbragðskerfi samfélagsins vegna náttúruhamfara. Hreinn rifjaði upp þrjú af verkefnum brúarvinnuflokka í kjölfar flóða þar sem brýr skemmdust eða eyðilögðust. Það voru Gígjukvísl á Skeiðarársandi 1974, Múlakvísl á Mýrdalssandi 1996 og Steinavötn í Suðursveit 2017.  Brúarvinnuflokkarnir unnu þrekvirki við að koma á samgöngum aftur á mettíma með byggingu bráðabirgðabrúa.

Einbreiðar brýr voru nokkuð til umræðu, eða þörfin fyrir að fækka þeim. Guðmundur Valur Guðmundsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Vegagerðarinnar, hélt tvö erindi á ráðstefnunni. Annars vegar um einbreiðar brýr í fortíð og nútíð og hins vegar lauk hann ráðstefnunni á því að horfa til framtíðar varðandi hönnun og byggingu brúa, kolefnisspor í brúargerð og hvaða verkefni eru framundan í brúargerð.

Þrír erlendir fyrirlesarar tóku þátt í ráðstefnunni. Fyrst á mælendaskrá var Anne Moloney, brúarverkfræðingur hjá danska fyrirtækinu Ramboll. Hún fjallaði um hönnun og byggingu nýrrar Storstrøm-brúar milli dönsku eyjanna Falster and Masnedø. Einnig fjallaði hún um það viðamikla verkefni sem snýst um að fjarlægja gömlu Storstrøm-brúna sem ekki er hlaupið að miðað við þær miklu umhverfiskröfur sem gerðar eru í dag.

Hjálmur Sigurðsson, framkvæmdastjóri mannvirkja hjá Ístaki, fjallaði um áskoranir verktaka í brúargerð. Hann tók sem dæmi þær hremmingar sem Ístak hefur lent í við byggingu brúar yfir Stóru-Laxá en tafir á aðföngum vegna Covid, mikil kuldatíð og krapaflóð í ánni gerði mönnum erfitt fyrir. Þannig þurfti að rjúfa veginn að brúnni í talsverðan tíma auk þess sem ákveðið var að byggja yfir alla brúna til að geta klárað steypuvinnu. Sannarlega ævintýralegar lýsingar.

Reynir Georgsson á umsjónardeild Vestursvæðis Vegagerðarinnar fjallaði um byggingu brúar yfir Þorskafjörð sem nú er á lokametrunum. Hann minnti á að verkefnin takmarkist ekki alltaf við brúna eina heldur sé brúarsmíðin hluti af stærra verkefni. Einnig ræddi hann hversu mikil áhersla sé lögð í dag á verndun umhverfis við hönnun og byggingu brúa.

Þeir Magnús Arason frá EFLU verkfræðistofu og Keith Brownlie frá BEAM arkitektum sögðu frá hönnun Öldu, brúar yfir Fossvog, en hönnunartillaga þeirra vann í hönnunarsamkeppni um Fossvogsbrú. Skemmtilegt var að fá innsýn inn í grunnhugmyndina að hönnun brúarinnar.

Martin Knight, stofnandi og eigandi arkitektastofunnar Knight Architects, flutti fyrirlesturinn Together we are stronger. Hann minnti á mikilvægi þess að verktakar og arkítektar vinni sameiginlega að því að hanna og byggja brýr sem ekki séu aðeins hagnýtar heldur einnig fallegar og nýtist fjölþættum þörfum samfélagsins.

Þó skemmilegast sé að byggja nýjar brýr er ekki síður mikilvægt að halda þeim við. Valur Birgisson, verkefnastjóri á framkvæmdadeild Vegagerðarinnar, fjallaði um viðhald brúa og hvernig því er háttað. Verkefnið er viðamikið enda 1186 brýr á vegakerfinu öllu. Hann skoraði á yfirvöld að veita meiri fjármunum til viðhalds brúa enda fer verkefnið aðeins stækkandi á næstu árum þegar mikill fjöldi brúa sem byggður var á sjötta áratugnum nálgast loka líftíma sinn.

Náttúruöflin hafa mikil áhrif á brúarhönnun, brúarbyggingu og -viðhald. Magnús Tumi Guðmundsson prófessor fjallaði um baráttu Íslendinga við náttúruöflin í erindi sínu; Jökulhlaup á Íslandi tengd eldvirkni og jarðhita. Magnús Tumi fjallaði á mjög líflegan og skemmtilegan hátt um þetta alvarlega viðfangsefni.

Ólafur Sveinn Haraldsson, forstöðumaður rannsókna hjá Vegagerðinni, fjallaði um rannsóknasjóð Vegagerðarinnar og áhugaverð verkefni tengd brúm sem sjóðurinn hefur styrkt á síðustu árum.

Anna Hulda Ólafsdóttir, yfirmaður skrifstofu loftslagsþjónustu og aðlögunar hjá Veðurstofu Íslands, fjallaði um aðlögun að loftslagsbreytingum á Íslandi sem er mikilvægt málefni á öllum sviðum í dag.

Nýrrar Ölfusárbrúar er beðið með mikilli eftirvæntingu. Einar Óskarsson, verkfræðingur á hönnunardeild Vegagerðarinnar, fór yfir forsöguna, helstu áskoranir og lausnir við hönnun brúarinnar.

Gestir ráðstefnunnar voru sáttir í dagskrárlok enda margs vísari um brýr og allt þeim tengdum.

 

Hér að neðan má finna þær glærukynningar af ráðstefnunni sem fékkst leyfi til að birta.

Brýr fyrr og nú. Guðrún Þóra Garðarsdóttir brúarverkfræðingur, Vegagerðin.

Þegar brúin var byggð á 96 klukkustundum - Brúarvinnuflokkar Vegagerðarinnar. Hreinn Haraldsson, fyrrverandi vegamálastjóri.

Einbreiðar brýr í fortíð og nútíð. Guðmundur Valur Guðmundsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs, Vegagerðin.

Áskoranir verktaka. Hjálmur Þorsteinn Sigurðsson, framkvæmdastjóri mannvirkja, Ístak.

Brú yfir Þorskafjörð - ekki bara brú. G. Reynir Georgsson, sérfræðingur á umsjónardeild Vestursvæðis, Vegagerðin.

Alda - ný brú yfir Fossvog. Magnús Arason byggingarverkfræðingur, EFLA og Keith Brownlie arkitekt, BEAM Architects.

Together we are stronger - collaborations in bridge design. Martin Knight brúararkitekt, Knight Architects. (Texti með myndunum birtist ef farið er með músina í efsta horn til vinstri á glærunum)

Viðhald brúa - staða og stefnumótun. Valur Birgisson, verkefnastjóri á framkvæmdadeild, Vegagerðin.

Jökulhlaup á Íslandi tengd eldvirkni og jarðhita - lærdómur sögunnar, framtíðarhorfur og hættumat innan verkefnisins GOSVÁ. Magnús Tumi Guðmundsson prófessor, Háskóli Íslands.

Nýsköpun og þróun innan og utan Vegagerðarinnar. Ólafur Sveinn Haraldsson, forstöðumaður rannsókna, Vegagerðin.

Aðlögun að loftlagsbreytingum á Íslandi. Anna Hulda Ólafsdóttir, skrifstofustjóri loftslagsþjónustu og aðlögunar, Veðurstofan.

Nýja Ölfusárbrúin - Stiklað á stóru um forsöguna, helstu áskoranir og lausnir. Einar Óskarsson brúarverkfræðingur, Vegagerðin.

Hvað ber framtíðin í skauti sér? Guðmundur Valur Guðmundsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs, Vegagerðin.