Fréttir
  • umferdin.is er snjallsímavænn vefur.
  • umferdin.is
  • Færðarkortið verður nú þysjanlegt og mun auðveldara að nálgast allar upplýsingar.

Umferðin.is fær tilnefningu til UT-verðlauna Ský

Verðlaunað er fyrir framúrskarandi lausnir sem einfalda daglegt líf fólks

27.1.2023

Upplýsingavefur Vegagerðarinnar, umferdin.is , er tilnefndur til UT-verðlauna Ský í flokknum UT-Stafræna þjónustan 2022 . Í þeim flokki eru tilnefndar lausnir sem skara fram úr og einfalda daglegt líf fólks. Vefsíður, öpp og rafrænar þjónustur falla undir þennan flokk. Verðlaunin verða veitt á UT-messunni í Hörpu, föstudaginn 3. febrúar næstkomandi.

Nýr vefur Vegagerðarinnar - Umferdin.is var opnaður í október 2022. Vefurinn leysir af hólmi gamla lausn, færðarkort, sem áður var í boði á vegagerdin.is. Nýi vefurinn, umferdin.is, er gagnvirkur og á að auðvelda aðgengi vegfarenda að upplýsingum um færð á vegum. Vefurinn hefur nýja virkni, ný kort sem byggja á Mapbox kortalausn. Hann er sérstaklega hugsaður fyrir snjalltæki, er þysjanlegur og þægilegur í notkun. Vefurinn sýnir veðurupplýsingar, færðarupplýsingar, umferðartákn í rauntíma, hvernig vetrarþjónusta er á hverjum stað, vegaframkvæmdir, umferðartölur og þar fram eftir götunum.

Kolofon Hönnunarstofa og Greipur Gíslason unnu að umferdin.is í nánu samstarfi við Vegagerðina.  

Allar tilnefningar til UT-verðlauna Ský má finna hér https://www.sky.is/index.php/ut-verdlaunin/2894-2023-ut-verdlaun-sky-tilnefningar