Fréttir
  • Annað snjóflóði var um 4 metrar á hæð og hitt um 2,5 m á hæð.
  • Frá Ólafsfjarðarvegi í morgun.
  • Vel gekk að ryðja veginn.

Tvö stór snjóflóð féllu á Ólafsfjarðarveg með 300 metra millibili

Vegurinn var lokaður vegna snjóflóðahættu

10.1.2023

Tvö snjóflóð féllu með um 300 metra millibili á Ólafsfjarðarveg norðan við Sauðanes, milli Dalvíkur og Ólafsfjarðar í gær eða nótt. Vegurinn var lokaður þegar snjóflóðin féllu. Annað flóðið var um 4 m á hæð og 80 m breitt og hitt um 2,5 m á hæð og 100 m á breidd. 

Grétar Ásgeirsson, verkstjóri hjá þjónustustöð Vegagerðarinnar á Akureyri, segir að vel hafi gengið að ryðja Ólafsfjarðarveg en umferð var hleypt á hann fyrir hádegið í dag.

 „Í gærmorgun féll lítið snjóflóð á Ólafsfjarðarveg en stoppaði í svokölluðum skáp. Bak við stálþil sem eru fyrir ofan veginn eru skápar sem taka við snjóflóðum upp að ákveðinni stærð. Í kjölfar þessa flóðs fengum við hjá Vegagerðinni skilaboð frá snjóflóðavakt Veðurstofunnar um að vegurinn væri kominn á stig 4, en þá er honum lokað vegna snjóflóðahættu,“ segir Grétar.

Snjóflóðin komu í ljós í morgun

Í morgun kom síðan í ljós að tvö snjóflóð til viðbótar höfðu fallið á veginn, annað hvort seinnipartinn í gær eða síðastliðna nótt. Að sögn Grétars var annað flóðið um 4 metra hátt og 80 m breitt og hitt um 2,5 m á hæð og um 100 m á breidd.

„Við vissum í raun ekki af þessum snjóflóðum fyrr en farið var að moka veginn klukkan fimm í morgun, en þá var búið að lækka hættustigið niður í 3. Verktakinn fór af stað frá Dalvík með snjóblásara og snjóruðningsbíl og bætti síðan við hjólaskóflu því það var svo mikill snjór. Unnið var við mokstur frá klukkan fimm í morgun og komið var í gegn til Ólafsfjarðar klukkan hálf ellefu,“ upplýsir Grétar.

Ekki lokað að ástæðulausu 

Spurður hvort það þurfi oft að loka Ólafsfjarðarvegi vegna snjóflóðahættu segir Grétar að svo sé. „Já, það kemur leiðinlega oft fyrir. Ég hef ekki tölu á hve oft við höfum þurft að loka undanfarnar vikur. En við erum auðvitað ekki að loka veginum að ástæðulausu og gott að enginn var þarna á ferð.“

Skúli Þormóðsson, flokksstjóri hjá þjónustustöð Vegagerðarinnar á Akureyri, tók myndirnar.  

Vegfarendur eru hvattir til að fylgjast með færð á vegum á upplýsingavef Vegagerðarinnar, umferdin.is