Fréttir
  • Um 775 m.kr. var varið til sértækra aðgerða í umferðaröryggismálum árið 2021.
  • Ársskýrsla umferðaröryggisáætlunar 2021.

760 milljónum króna varið til sértækra umferðaröryggisaðgerða

Ný skýrsla um framkvæmd umferðaröryggisáætlunar 2021

20.9.2022

Ársskýrsla 2021 um framkvæmd umferðaröryggisáætlunar er komin á vefinn. Þar er að finna ýmsar áhugaverðar upplýsingar um sértækar aðgerðir sem snúa meðal annars að sjálfvirku hraðaeftirliti, kynningum og fræðslu til almennings og eyðingu svartbletta, umhverfi vega og uppsetningu vegriða. Þessar aðgerðir eiga að leiða til fækkunar slysa og lækkunar kostnaðar samfélagsins af umferðarslysum.

Skýrslan um framkvæmd umferðaröryggisáætlunar sem nú er lögð fram í sextánda sinn er unnin í samvinnu Vegagerðarinnar, Samgöngustofu, Ríkislögreglustjóra og innviðaráðuneytis. Í henni er gerð grein fyrir framkvæmd og árangri aðgerða en þær skiptast í fjóra flokka: Vegfarendur, vegakerfi, ökutæki og stefnumótun, rannsóknir og löggjöf.

Í heildina var 759,3 m.kr. varið í þessi verkefni árið 2021. Þar af lagði Vegagerðin til 684 m.kr. í verkefni sem tengjast sjálfvirku hraðaeftirliti, eyðingu svartbletta, lagfæringar á umhverfi vega og uppsetningu vegriða, til átaks vegna merkinga við einbreiðar brýr og gerð undirganga fyrir búfé og hvíldarsvæði við þjóðvegi.

Þess skal geta að stærri umferðaröryggisverkefni, svo sem aðskilnaður akstursstefna, eru ekki hluti af umferðaröryggisáætlun heldur felldar inn í stærri verkefni samgönguáætlunar. 

Meðal stærstu útgjaldaliða umferðaröryggisáætlunar 2021 má nefna að 23,1 m.kr. var varið í uppbyggingu sjálfvirks hraðaeftirlits, viðhaldi þess og reksturs, 15 m.kr. í úrvinnslu gagna úr sjálfvirkum löggæslumyndavélum, 48,5 m.kr. til auglýsinga, kynninga og fræðslu til almennings og 6,9 m.kr. í fræðslu til barna og ungmenna. Stærsti útgjaldaliðurinn er eyðing svartbletta, umhverfi vega og uppsetning vegriða fyrir 620 m.kr.

Hægt er að kynna sér einstök verkefni umferðaröryggisáætlunar hér.

Þess má geta að frá því að umferðaröryggisáætlun var fyrst lögð fram hefur umferðin breyst mikið samhliða auknum vegabótum og tækniþróun. Margar áherslur og aðgerðir í öryggisátt eru því nýjar og tengjast til dæmis snjalltækjanotkun, akstri erlendra ferðamanna, akstri undir áhrifum vímuefna og rafknúnum örflæðisfarartækjum á borð við rafhlaupahjól.