Fréttir
  • Framkvæmdirnar eiga eftir að auka umferðaröryggi þeirra sem ferðast um veginn.
  • Unnið er að breikkun Hringvegar (1) um Kjalarnes.
  • Unnið er að því að tvöfalda veginn.
  • Lagðir verða göngu-, hjóla- og reiðstígar og byggð fimm undirgöng.

Kaflaskil við Kjalarnes - Aukið umferðaröryggi á Vesturlandsvegi

Nýtt myndband um framkvæmdirnar komið í loftið

16.6.2022

Framkvæmdir vegna tvöföldunar Hringvegar (1) um Kjalarnes eru vel á veg komnar. Um er að ræða 9 km kafla, frá Kollafirði upp að Grundarhverfi í norður. Í nýju myndbandi Vegagerðarinnar er farið yfir framkvæmdirnar og sýnt hvar vegurinn mun liggja. Þar kemur fram að vegtengingum verður fækkað umtalsvert og gerðir verða hliðarvegir og reiðstígar, auk stíga fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur – allt með umferðaröryggi í fyrirrúmi.

„Á Kjalarnesi erum við að breikka Hringveginn (1). Hann er núna einn plús einn vegur en unnið er að því að tvöfalda veginn og þar verða aðskildar akstursstefnur. Helsta markmiðið er að bæta umferðaröryggi,“ segir Anna Elín Jóhannsdóttir, verkefnastjóri hjá Vegagerðinni, í myndbandinu.

Í daglegu tali er þessi kafli Hringvegarins (1) kallaður Vesturlandsvegur en yfir sumartímann fara að meðaltali 12 þúsund bílar um hann á degi hverjum.

Í myndbandinu er einnig rætt við Olgu Ellen Þorsteinsdóttur, formann íbúasamtaka Kjalarness, sem fagnar þessum framkvæmdum. Að hennar sögn hafa vegfarendur oft verið hræddir við að fara inn á Vesturlandsveginn, ekki síst á háannatíma þegar umferð er mikil og hröð. „Þessar framkvæmdir eiga eftir að auka umferðaröryggi íbúa á Kjalarnesi og allra þeirra sem ferðast um veginn,“ segir Olga Ellen.

Þá er viðtal við Þröst Sivertsen, staðarstjóra Ístaks, sem tekur í sama streng. „Þegar bílar mætast eru ekki nema örfáir metrar á milli þeirra, þannig að ekki þarf mikil til að það verði slys,“ segir hann, en Ístak vinnur við að tvöfalda veginn frá Kollafirði og upp að Grundarhverfi í norður.

„Á sama tíma er verið að byggja sveitavegi eða hliðarvegi, sem munu sinna umferð á svæðunum í kring,“ segir Þröstur.

Samhliða þessum framkvæmdum er unnið við að leggja nýja háspennustrengi, ásamt hitaveitulögnum og vatnsveitulögnum til að auka rekstraröryggi allra veitukerfanna. Það verkefni er í höndum Veitna.

Í máli Sigurðar Rúnars Birgissonar, verkefnisstjóra hjá Veitum, kemur fram að reynt sé að halda rekstrartruflunum í lágmarki þannig að notendur taki sem minnst eftir þeim.

„Helstu áskoranir Veitna er að fólk og fyrirtæki hafi vatn í krönunum, heitt vatn í ofnunum og rafmagn til að kveikja á sjónvarpinu,“ segir Sigurður Rúnar í myndbandinu.

Verkið er samstarfsverkefni Vegagerðarinnar, Reykjavíkurborgar, Veitna og Gagnaveitu Reykjavíkur. Verkinu tilheyra einnig ræsi, regnvatnslagnir, veglýsing, lagnir fyrir upplýsingakerfi Vegagerðarinnar og breytingar á lögnum veitufyrirtækja.

Hér má sjá myndbandið: 

https://www.youtube.com/watch?v=Nb3nn_L03tk