Fréttir
  • Framkvæmdasvæði á Dynjandisheiði.

Vestfjarðavegur (60) um Dynjandisheiði, 2. áfangi

12,6 km kafli boðinn út

2.6.2022

Vegagerðin býður út verkið Vestfjarðavegur (60) um Dynjandisheiði, 2. áfangi. Verkið felst í nýbyggingu Vestfjarðarvegar á um 12,6 km kafla, frá Norðdalsá, norðan Bíldudalsgatnamóta, og liggur um hæstu hluta Dynjandisheiðar og norður fyrir sýslumörk.
Vegurinn er að mestu leyti byggður í nýju vegstæði en að hluta til í núverandi vegstæði.

Inn í verkinu er einnig gerð námuvegar að námu í Trölladals og gerð tveggja áningarstaða.

Helstu magntölur eru:
- Bergskering í vegsvæði 495.200 m3
- Bergskering í námu 22.600 m3
- Fyllingar úr skeringum 509.400 m3
- Fláafleygar úr skeringum 220.500 m3
- Ræsalögn 1.250 m
- Styrktarlag 57.500 m3
- Burðarlag 24.000 m3
- Klæðing 106.400 m2
- Vegrið 1.660 m

Gert er ráð fyrir að verkinu verði að fullu lokið um miðjan júlí 2024.

Verkið er hluti af stærri framkvæmd sem hefur staðið yfir undanfarin ár. Tvö verkefni kláruðust í fyrra. Nýr kafli um Dynjandisvog var opnaður í október 2021 og í nóvember það ár var opnaður nýr kafli um Pennusneiðing, Bíldudalsgatnamót og að Norðdalsá en lagt verður slitlag á þann kafla í sumar.