Fréttir
  • Lagfæring á merki rétt við Eyjafjarðarbraut vestri.
  • Kanttætari að störfum á Eyjafjarðarbraut eystri.
  • Snjómokstur í Hörgársveit
  • Greinar klipptar í Hörgársveit.
  • Krabbavinna við áhaldahús.
  • Gatnamót sópuð við Ólafsfjarðarveg
  • Hér er búið að klippa kant við veginn við Grenivík.

Klippir, sópar og slær

Fjölhæfur Unimog á Norðursvæði Vegagerðarinnar

13.1.2022

Vegagerðin á fjölmörg tæki sem nýtast í hin ýmsu verkefni, enda er starfsemin bæði margvísleg og viðamikil. Norðursvæði Vegagerðarinnar fékk nýjan Unimog í sína þjónustu á árinu, en það er fjölnota tæki sem nýtist meðal annars við að klippa gróður, sópa götur, moka snjó og þvo stikur.

Um áramót 2021 bættist Unimog við bílaflota Vegagerðarinnar, en um er að ræða þrjú hundruð hestafla bifreið með margvíslega notkunarmöguleika. Hvern og einn bíl er hægt að útbúa með ýmsum aukabúnaði, allt eftir því hver verkefnin eru.

„Segja má að Unimog sé sambyggður traktor og vörubíll sem nýtist vel, bæði fyrir vetrar- og sumarþjónustu Vegagerðarinnar. Frá því í haust hefur bíllinn verið í fullri vinnu allt frá Kópaskeri og vestur undir Blönduós,“ segir Heimir Gunnarsson, hjá þjónustudeild Norðursvæðis.

Þetta tiltekna eintak af Unimog er með krana og pall og getur því borið alls konar tæki og tól á milli staða. „Í vor fengum við kantsláttuvél og greinaklippur og í haust kom kanttætari og reyndist hann mjög vel. Í sumar notuðum við bílinn aðallega til að slá gróður í köntum, klippa runnagróður og sópa götur. Yfir veturinn kemur Unimog að góðu gagni við snjómokstur, en þá getum við ýmist sett snjótönn eða snjóblásturstæki á bílinn, eftir því sem við á hverju sinni,“ segir Heimir, en það kom honum á óvart hversu lipur bílinn er.

Hann vonast til að fá fleiri aukahluti á bílinn og segir að þar sé þvottavél efst á óskalistanum. „Með slíkri vél væri hægt að þvo vegastikur og umferðarmerki og jafnvel háþrýstiþvo jarðgöng. Hjá Vegagerðinni eru alltaf næg verkefni, svo bílinn fær sjaldan pásu,“ segir Heimir.

Þessi grein birtist í 7. tbl. Framkvæmdafrétta 2021.   Rafræna útgáfu má finna hér.    Áskrift að Framkvæmdafréttum er án endurgjalds og hægt er að skrá sig fyrir áskrift með því að senda póst á sogi@vegagerdin.is.