Fréttir
  • Reykjavesviti

Saga Reykjanesvita og sjóslysa á Reykjanesi

Vegagerðin lánar muni á sýningu í vélahúsi Reykjanesvita

15.10.2021

Sögu Reykjanesvita og sjóslysa á Reykjanesi eru gerð góð skil á sýningu í vélahúsinu í Reykjanesvita. Vegagerðin lánaði muni sem tengjast vitasögu Íslands til sýningarinnar. Þar á meðal er fágætt Íslandskort með öllum vitum á landinu. Að sýningunni standa Hollvinasamtök um Reykjanesvita og nágrennis og Byggðasafn Reykjanesbæjar.

Sýningin verður opnuð síðdegis 15. október.

„Vegagerðin leigir okkur vélahúsið sem kallast Radíóviti sem var í notkun frá árinu 1936 til 1992.. Á sýningunni er farið yfir sögu Reykjanesvita, sem nær allt aftur til ársins 1878, og einnig sagt frá vitavörðunum, sem gegndu afar mikilvægu starfi. Mikil áhersla er lögð á sjóslysasögu Íslands. Heill veggur er tileinkaður þeim sem fórust í sjó á árunum 1900-2000 til að heiðra minningu þeirra. Þetta voru yfir 3500 manns og nöfn þeirra eru rituð á vegginn,“ segir Hallur Gunnarsson, formaður Hollvinasamtaka um Reykjanesvita og nágrennis.

Stefnan er að byggja þjónustuhús í nágrenni við vitann og leggja gönguleiðir um svæðið í samstarfi við Reykjanes jarðvang. „Þarna er mikið af merkum minjum, sem vert er að varðveita,“ segir Hallur.

Fyrstu viti landsins

Reykjanesviti á sér merka sögu. Fyrsti ljósviti á landinu var byggður á Valahnúk á Reykjanesi árið 1878 og var hann tekinn í notkun í 1. desember sama ár. Þegar siglingar tóku að aukast, sem og skipaferðir meðfram ströndum landsins, jókst þörfin á að fá ljósmerki og vita til að leiðbeina sæfarendum. Bygging Reykjanesvita þótti því mikil framfaraskref í vita- og hafnarmálum landsins á þessum tíma.

Alexander Rothe verkfræðingur hannaði vitann og hafði yfirumsjón með verkinu á byggingarstað. Hann sé einnig um að setja upp ljóstæki vitans. Vitinn var áttstrendur turn en undirstaða og veggir voru hlaðin úr tilhöggnu, kalklímdu grjóti. Til að verja glerið fyrir áflugi farfugla var sett upp stór grind og vírnet í kringum ljóskerið.

Um tuttugu ára skeið var Reykjanesviti eini vitinn á Íslandi. Fyrsti vitavörðurinn hét Arnbjörn Ólafsson.

Nýr viti byggður

Árið 1905  var svo komið að jarðskjálftar og brim höfðu brotið svo mikið úr Valahnúk að hætta var talin á að Reykjanesviti félli í hafið. Var því ákveðið að reisa nýjan vita. Á árunum 1907-1908 var byggður nýr viti á Bæjarfelli á Reykjanesi. Gamli vitinn var felldur með sprengingu þann 16. apríl 1908. Alþingi veitti fé til byggingar vitans til að flýta fyrir framkvæmdum.

Vitinn er byggður úr tilhöggnu grjóti og steinsteypu. Þeir Frederik Kiørboe arkitekt og Thorvald Krabbe verkfræðingur teiknuðu vitann. Framkvæmum lauk á Þorláksmessu 1907 og kveikt var á vitanum 20. mars 1908 í fyrsta sinn. Reykjanesviti er sívalskur, kónískur 20 m turn. Með undirstöðu er heildarhæðin 26,7 m. Ytra byrði er úr tilhöggnu grjóti en innra byrði er úr steinsteypu. Fastri búsetu vitavarðar var hætt árið 1999. Reykjanesviti er enn í fullri notkun.