Fréttir
  • Lokun frá Fagrafossi og inn að Laka.
  • Varnargarður við Holtsá undir Eyjafjöllum skemmdist vegna vatnavaxta.
  • Varnargarður við Holtsá undir Eyjafjöllum skemmdist vegna vatnavaxta.
  • Bílar festust í pytti á veginum inn í Þakgil. Búið er að laga veginn.
  • Drullupyttur á leið í Þakgil.
  • Efni var keyrt í pytt á veginum inn í Þakgil.
  • Ræsi áður en komið er að Fagrafossi.
  • Húsbíll fór á hliðina við Reynisfjall.
  • Ferðamenn í Vík aðstoðaðir.

Lokanir vegna veðurs og vatnaskemmda

Gul og appelsínugul viðvörun um land allt

21.9.2021

Veðrið hefur valdið nokkrum usla á landinu í dag. Loka hefur þurft Hringvegi vegna veðurs, vegir hafa skemmst í vatnavöxtum og dæmi um að húsbílar og járnplötur fjúki. Að sögn Ágústs Freys Bjartmarssonar yfirverkstjóra á þjónustustöð Vegagerðarinnar í Vík er best að halda sig heimavið ef hægt er.

Hér eru nokkur dæmi um afleiðingar óveðursins í dag:

  • Hringvegi (1) undir Eyjafjöllum var lokað vegna veðurs. Lokað var í austurátt frá Hvolsvelli en þar var fólki ráðlagt frá því að vera á ferð.
  • Lokað var frá Kirkjubæjarklaustri að Höfn vegna veðurs.
  • Fróðárheiði var lokuð vegna veðurs.
  • Húsbíll fauk út af veginum fyrir ofan Vík í Mýrdal, undir Reynisfjalli. Vegna veðurs var veginum undir Reynisfjalli lokað.
  • Járnplötur fuku af húsum í Vík og fólki ráðlagt að vera ekki á ferðinni.
  • Hvalnesskriður voru lokaðar vegna veðurs.
  • Vegurinn inn í Laka var lokaður vegna vatnaskemmda. Djúpar skorur mynduðust á veginum og hann er því ófær. Landverðir fóru um svæðið í gær til að athuga með mannaferðir en enginn var þar á ferð. Viðgerð hefst þegar veður leyfir.
  • Lokað var inn í Landmannalaugar en skriða féll á veginn og hann því ófær. Fólk varað við að vera á þessum slóðum.
  • Þá skemmdist varnargarður við Holtsá undir Eyjafjöllum vegna vatnavaxta, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurlandi. Starfsmenn Vegagerðarinnar komu strax á staðinn til að meta skemmdirnar og viðgerðir hófust um leið. Einnig var unnið að því að koma í veg fyrir að vatn flæddi yfir veginn.
  • Vegurinn inn í Þakgil varð fyrir nokkrum skemmdum vegna vatnsviðris um síðastliðna helgi. Djúp hjólför mynduðust í veginum með þeim afleiðingum að bílar festust þar. Búið er að gera við veginn svo hann er orðinn greiðfær á ný.
  • Vegurinn inn í Emstrur að Fjallabaki syðra skemmdist vegna vatnavaxta og var með öllu ófær um tíma. Búið er að laga veginn svo hann er fær á ný en búast má við meiri viðgerðum á næstunni.