Fréttir
  • Umferðin gekk hægt framhjá framkvæmdasvæðinu.
  • Teikning sem sýnir framkvæmdasvæðið.
  • Þversvið af undirgöngum fyrir gangandi og hjólandi.
  • Frá framkvæmdum við undirgöngin í sumar.
  • Hærri og lengri hljóðveggir voru reistir.
  • Framkvæmdin fór fram í mikilli nálægð við þunga umferð.
  • Frá framkvæmdum við undirgöngin í sumar.
  • Frá framkvæmdum við undirgöngin í sumar.

Framkvæmdir við undirgöng og gatnamót í Garðabæ

Stórbætt umferðaröryggi og greiðara umferðarflæði

21.9.2021

Framkvæmdir í Garðabæ sem hófust í júlí 2020 munu stórauka umferðaröryggi. Þær fela í sér breikkun og endurbætur á gatnamótum Hafnarfjarðarvegar við Vífilsstaðaveg og Lyngás, undirgöng undir Hafnarfjarðarveg fyrir gangandi og hjólandi við Hraunsholtslæk, breikkun og endurbætur á Vífilsstaðavegi milli Hafnarfjarðarvegar og Litlatúns og gerð hringtorgs við Litlatún.

„Það var mjög aðkallandi að fara í þessar framkvæmdir til að auka umferðaröryggi og bæta umferðarflæði,“ segir Einar Már Magnússon verkefnastjóri á framkvæmdadeild Vegagerðarinnar sem hefur haldið utan um verkið; Hafnarfjarðarvegur (40) Vífilsstaðavegur (að Litlatúni) – Lyngás. Endurbætur og undirgöng.

Einar segir að þó hugmyndir séu uppi í samgöngusáttmála að Hafnarfjarðarvegur fari í stokk í gegnum Garðabæ í framtíðinni hafi ekki verið hægt að bíða með þessar framkvæmdir út frá öryggissjónarmiðum.

Verkið skiptist í nokkra verkhluta. Fyrst má nefna gerð nýs hringtorgs við Flataskóla sem kemur í stað ljósastýrðra gatnamóta en að sögn Einars mun það hægja á umferð en auka afköst. „Ný umferðarljós hafa verið sett upp við vegamót Hafnarfjarðarvegar og Vífilsstaðavegar en þau ljós eru þannig að allir umferðarstraumar eru varðir sem minnkar líkur á árekstrum á gatnamótunum,“ segir Einar og bendir á slys hafi verið algeng á þessum stað. Sama fyrirkomulag verður á umferðarljósum á mótum Hafnarfjarðarvegar og Lyngáss.

Akreinum á Hafnarfjarðarvegi er fjölgað og beygjureinum breytt og fjölgað. Tvöföld vinstri beygja verður af Hafnarfjarðarvegi inn á Vífilsstaðaveg til austurs, tvöföld vinstri beygja verður af Vífilsstaðavegi inn á Hafnarfjarðarveg bæði til norðurs og suðurs, tvöföld vinstri beygja verður af Lyngási inn á Hafnarfjarðarveg og hægri beygja af Lækjarfit í framhjáhlaupi.

Gerð verður sérrein fyrir strætó með Hafnarfjarðarvegi að austanverðu frá Aktu Taktu norður fyrir gatnamótin við Vífilsstaðaveg.

Verktakinn, PK Verk, hófst handa sumarið 2020 en það ár var lokið við framkvæmdir á Vífilsstaðavegi og byrjað á breytingum við vegamót Vífilsstaðavegar og Hafnarfjarðarvegar. Vorið 2021, eftir stutt vetrarhlé var haldið áfram við vegamótin og í byrjun sumars var umferð sett á hliðarveg framhjá undirgöngum. Umferð var síðan hleypt yfir göngin um miðjan ágúst.

Undirgöngin undir Hafnarfjarðarveg á móts við íþróttasvæði Stjörnunnar er stærsta einstaka umferðaröryggisaðgerðin fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur, í þessu verki. „Þessi undirgöng munu tengja saman gönguleið skólabarna og annarra gangandi og hjólandi í hverfunum sitt hvoru megin við Hafnarfjarðarveginn,“ segir Einar. Undirgöngin eru gerð úr forsteyptum einingum, heildarbreidd þeirra er 7,0 m og heildarlengd tæplega 34 m.
„Öðru megin í undirgöngunum er gert ráð fyrir gangandi og hjólandi en hinumegin rennur Hraunholtslækur sem áður rann í gegnum rör undir veginn,“ segir Einar en  líklegt er að undirgöngin verði tekin í gagnið í október eða nóvember á þessu ári.

Göngin voru unnin í tveimur áföngum þannig að halda mætti umferð um Hafnarfjarðarveg á tveimur akreinum í hvora átt á framkvæmdatíma. Einar segir umferðina hafa gengið ágætlega en fremur hægt enda umferðarþunginn mikill á þessum stað. „Framhjáhlaupið var ágætlega útfært en umferðin var hæg í gegnum framkvæmdasvæðið bæði í fyrra og í ár.“ Hann segir verkið allt fremur flókið og sein unnið. „Við erum í fyrsta lagi að vinna í miklum umferðarþunga og ekki í boði að loka veginum á meðan framkvæmdir standa yfir. Hér er lítið pláss til að athafna sig og mikið af lögnum í jörðu,“ útskýrir Einar en verkið er samstarfsverkefni Vegagerðarinnar, Garðabæjar og veitufyrirtækja enda felst hluti af verkinu í að færa lagnir og leggja nýjar fyrir veitustofnanir á borð við Veitur ohf., Gagnaveitu Reykjavíkur, Mílu, HS Veitur, Vatnsveitu Garðabæjar og Fráveitu Garðabæjar.

Samhliða öllu þessu verða gerðir nýir göngustígar sem tengja mannvirkin við núverandi stígakerfi. Einnig þarf að setja upp hljóðveggi með Hafnarfjarðarvegi milli Vífilsstaðavegar og Lyngáss. Hljóðveggirnir verða lengri en þeir eldri og hærri.

Gert er ráð fyrir að verkinu öllu verði lokið haustið 2021.

 

Þessi grein birtist í 5. tbl. Framkvæmdafrétta.  Rafræna útgáfu má finna hér.   Áskrift að Framkvæmdafréttum er án endurgjalds og hægt er að skrá sig fyrir áskrift með því að senda póst á sogi@vegagerdin.is.