Fréttir
  • Þann 21. maí 2021 voru akkúrat 50 ár síðan Jóhann stein sín fyrstu spor sem Vegagerðarmaður.
  • Hjónin Magnús Guðmundsson og Sigurmunda Guðmundsdóttir árið 1970 á leiðinni á ball í Trékyllisvík.
  • Jóhann við Aveling Super 700 veghefil. Með Jóhanni á myndinni er Þorbjörn Valur Þórðarson frá Hólmavík.
  • Á níunda áratugnum var farinn tengivegur frá Steingrímsfjarðarheiði og yfir á Þorskafjarðarheiði og niður í Langadal í Djúpi. Stundum þurfti að draga flutningabílana yfir heiðina.
  • Vinnuskúrarnir voru fluttir á verkstað og oft þurfti að fara um vonda vegi og óbrúaðar ár.
  • Hefilstjóranámskeið í júní 1998. Jói í skottinu og við hlið hans Guðmundur Finnur.
  • Jói í fullum skrúða við Suðurlandsveg.
  • Jói kynnir heimsókn sína til Ameríku á svæðisfundi Suðursvæðis 2017.
  • Afrétting undir klæðingu í Ísafjarðardjúpi 25. 7. 1998. Í vegöxl má sjá krossviðsplötu með upplýsingum til hefilstjórans um þverhallann eins og Jóhann lýsir.
  • Kristen og Jói á árshátíð Vegagerðarinnar 2007.
  • Heiðursmennirnir Jói Skúla og Arnar E. Ragnarsson við vígslu Reykjanesbrautar 2008. Á milli þeirra er dóttir Jóa, Karen Elizabeth skæravörður.
  • Með samstarfsfélögum sínum á þjónustustöðinni í Hafnarfirði.
  • Jóhann og Kristen stunda hestamennsku og hlakka til að eiga meiri tíma í sportið nú þegar Jói er hættur að vinna.

List að vera hefilstjóri

Viðtal við Jóhann B. Skúlason fyrrverandi yfirverkstjóra.

15.7.2021

Jóhann B. Skúlason yfirverkstjóri á þjónustustöð Vegagerðarinnar í Hafnarfirði lét af störfum 21. maí síðastliðinn en þá voru upp á dag fimmtíu ár síðan hann steig sín fyrstu skref sem Vegagerðarmaður.

„Það eru þrjár ástæður fyrir því að ég ákvað að hætta núna. Ég er að verða 67 ára í júní, 21. maí eru akkúrat 50 ár síðan ég byrjaði hjá Vegagerðinni og í þriðja lagi eru tímamót hjá Vegagerðinni núna með sameiningu þriggja starfsstöðva á einn stað í Garðabæ. Mér fannst flott að nýr maður tæki við á nýjum stað,“ segir Jóhann eða Jói eins og hann er ávallt kallaður og leggur á borð marmaraköku og funheitt kaffi á kaffistofunni á þjónustustöðinni í Hafnarfirði.

Við byrjum á að rifja upp æskuna. Foreldrar Jóa voru Skúli Bjarnason og Kristbjörg Guðmundsdóttir, verkafólk á Drangsnesi en Jói er fæddur og upp alinn á Drangsnesi og bjó þar með foreldrum sínum og eldri systur, Margréti. „Það var yndislegt að alast upp á Drangsnesi þar sem maður lék sér úti alla daga,“ segir Jói sem fór frá fimm, sex ára aldri í sveit á sumrin. „Ég var alltaf í sveit hjá afa og ömmu á bænum Bæ II um 5 km frá Drangsnesi. Mér leið svakalega vel í sveitinni enda hafði ég mikinn áhuga á sveitastörfum og hefði vel getað hugsað mér að verða bóndi. Það var varla hægt að láta mig lesa fyrir próf og klára skólann á vorin því hugurinn var kominn í sauðburðinn hjá afa og ömmu í Bæ. Tækjadella kom fljótlega í ljós og aðeins sex eða sjö ára var Jói farinn að reyna sig við dráttarvélina á bænum og um tíu ára gamall var hann farinn að aka afa sínum inn á Drangsnes enda var sá ekki með bílpróf. „Reyndar lögðum við bílnum alltaf við bæjarmörkin og löbbuðum þaðan. Afi vildi ekki láta fréttast að afabarnið væri að aka með hann,“ segir Jói glettinn.

Dráttarvélareynslan kom að góðu gagni

Þegar Jói var sextán ára losnaði sumarstarf hjá Vegagerðinni. „Frændi minn hafði verið í þessu starfi en hann var að flytja með fjölskyldunni suður í Garð. Magnús Guðmundsson var þá rekstrarstjóri hjá Vegagerðinni á Drangsnesi. Pabbi vildi að ég sækti um starfið en þeir Magnús voru vinir og hann vissi að þar færi ábyrgur og góður maður. Ég sótti um en starfið var eftirsótt af strákunum í bænum.“ Það fór svo að Jói fékk starfið en síðar spurði hann Magnús hvað hefði orðið til þess. „Hann sagðist þá hafa séð til mín á dráttarvélinni í sveitinni og taldi að það kæmi sér vel í þessu starfi tippara,“ rifjar Jói upp.

En hvað gerir tippari? „Starfið fólst í að segja vörubílunum hvar þeir ættu að sturta, hreinsa grjót úr malarefninu og moka úr hlössunum því ekki var alltaf hefill á tipp. Þá var mikil vinna við að leggja ræsi sem oftast var unnin í höndum en þá voru notuð steinrör en ekki stálhólkar eins og nú er gert. Stikuvinnan var þó nokkur hluti af vinnunni en vegstikurnar voru úr tré og brotnuðu auðveldlega,“ segir Jói sem man vel sinn fyrsta vinnudag. „Vegurinn um Bassastaðabekki við bæinn Bassastaði var varla fær fyrir drulluslörkum og þennan dag átti að bera ofan í hann og gera veginn færan. Við Magnús fórum snemma morguns inn í Steingrímsfjörð að Selá en þar voru nokkrir vörubílar til að keyra efni í slörkin. Hefill á tipp átti að slétta úr hlössunum en hefilstjórinn forfallaðist svo það kom í minn hlut að handmoka úr hlössunum og ofan í hjólförin. Ég vildi standa mig þennan fyrsta dag í vinnunni og mokaði og mokaði. Ég man þetta svo vel,“ segir hann og hlær að minningunni.

Gamalt handbragð gleymist

Á þessum tímum var að hefjast mikil uppbygging á vegum á Ströndum. „Þeir voru gamlir, hlykkjóttir og niðurgrafnir með litlum burði. Það þótti mikið atriði að hækka þá upp úr landinu svo þeir væru betur færir yfir vetrarmánuðina. Svæðið sem við unnum á náði yfir mest alla Strandasýslu, frá Brú í Hrútafirði og norður í Árneshrepp. Í byrjun hafði Magnús aðstöðu á Drangsnesi þar til nýtt Vegagerðarhús var byggt á Hólmavík. Á vorin byrjuðum við á því að mála skúrana. Magnús vildi hafa þá vel málaða og snyrtilega þegar farið var með þá út í mörkina. Þetta voru eldhússkúr á hjólum og búr, hreinlætisskúr og fjórir, fimm svefnskúrar fyrir starfsfólk, og ekki má gleyma ljósavélarskúrnum,“ lýsir Jói og segir skúralífið hafa verið frábært. „Við fórum um alla sýsluna. Byrjuðum oft syðst í Hrútafirði, fórum í Bitrufjörð, Kollafjörð, Tungusveit og norður í Bjarnarfjörð en það var alltaf mest gaman að vera norður í Árneshreppi. Fólkið var svo ánægt að sjá okkur og þakklátt fyrir að fá vegabætur. Svo myndaðist sérstök stemning í hópnum þegar við vorum þar fyrir norðan,“ segir Jói og bætir við að það hafi líka verið gaman að fara í fyrsta snjómoksturinn í Árneshrepp á vorin.

Jói og samstarfsmenn voru yfirleitt í burtu viku í senn en fóru heim um helgar. Ef hópurinn var langt að heiman var stundum farið heim hálfsmánaðarlega. „Orð fór af því að óregla væri í skúrunum hjá sumum flokkum, en í skúrunum hjá Magnúsi var það alls ekki, þar viðgekkst ekkert fyllerí.“

Allir voru starfsmennirnir karlar fyrir utan ráðskonurnar en ráðskonan í flokki Magnúsar var eiginkona hans, Sigurmunda Guðmundsdóttir, en dóttir þeirra hjóna, Sigríður Birna, var henni til aðstoðar. „Sigurmunda var mjög góð ráðskona og í minningunni var alltaf veislumatur hjá henni. Kaffi og smurt brauð var á borðum klukkan sjö og um níu var hafragrautur og slátur og góður heimilismatur í hádeginu. Ég man sérstaklega eftir kjöthring með bræddu smjöri og kartöflumús sem mér fannst svo góður. Síðan miðdegiskaffi og sætabrauð, kvöldmatur og loks kaffisopi fyrir háttinn,“ lýsir Jói. Ef unnið var langt frá skúrunum útbjó Simma, eins og hún var alltaf kölluð, nestiskassa sem Magnús kom með færandi hendi út í mörkina.

„Ég og Guðmundur Björgvin, sonur Magnúsar, vorum góðir félagar og unnum mikið saman á tímabili til dæmis við stikuvinnu og að leggja ræsi í nýbyggingar. Á þessum tíma voru engir verktakar í veglagningum heldur aðeins starfsmenn Vegagerðarinnar, vörubílstjórar og vélamenn en auðvitað má segja að vörubílstjórar, ýtumenn og gröfumenn hafi verið verktakar. Eitt af verkefnum okkar Guðmundar var að hlaða svokallaða sniddukanta meðfram ræsisendum. Það snýst um að fara út í mýri með sérstaka skóflu og stinga snidduna á sérstakan hátt sem síðan var raðað við ræsisstútana og einnig við brúarvængi á nýjum brúm. Við Gummi vorum mjög góðir í þessu og vönduðum okkur því það var eftir því tekið ef sniddukantur var vel hlaðinn. Í dag er að mestu hlaðið grjóti í kringum ræsisenda og líklegt að handbragðið við snidduskurðinum sé að gleymast.“

Ekki hættulaust að moka snjó

Jói var í sumarvinnu hjá Vegagerðinni fyrstu árin en á veturna var hann í Reykjavík og vann hjá bílaumboði og í byggingarvinnu. Hann var einnig vélstjóri á rækjubáti frá Drangsnesi einn vetur. Hann fékk fasta vinnu hjá Vegagerðinni tvítugur að aldri og vann meðal annars við það á veturna að búa til vegstikur úr rekavið sem Magnús lét sækja norður í Kolbeinsvík. „Við þetta vann ég á Drangsnesi en fékk svo boð um að verða aðstoðarmaður Sigurðar Vilhjálmssonar, hefilstjóra á Hólmavík, við snjómokstur. Daginn fyrir mokstur fór ég til Hólmavíkur, oft á báti. Siggi Villa var frábær snjómokstursmaður og ég lærði mikið af honum. Þetta voru oft langir dagar en við mokuðum alveg inn í Hrútafjörð og einnig norður í Bjarnarfjörð og í Drangsnes.“

Eftir þetta, eða um 1975, fór Jói að taka í hefilinn á sumrin líka. „Það er mikil list að vera góður hefilstjóri og alls ekki fyrir alla. Þú þarft útsjónarsemi, vera flinkur og góður vélamaður,“ segir Jói sem fannst aðfarir hefilstjóra stundum skrítnar. „Það var rifinn upp sitthvor kanturinn og sett í röst á miðjum vegi og síðan var dreift úr röstinni með þverri tönn og þá urðu eftir grjótrastir á báðum köntum sem varð til þess að bílar sem voru að mætast lentu á þessu grjóti og skemmdust. Mér fannst þetta ekki gott og byrjaði því á að hreinsa grjótið út fyrir veginn á báðum köntum og fékk mjög góð viðbrögð við því enda er slík grjóthreinsun viðtekin venja í dag.“

Jói var vel liðinn hefilstjóri og vann sem slíkur næstu árin og mokaði snjó á veturna. „Fyrstu heflarnir voru litlir og þá var yfirleitt alltaf jarðýta með við snjómoksturinn. Svo fengum við stóran hefil, Avelin Super 700, og það breytti öllu.  Auk venjulegs afturhjóladrifs var hann með framhjóladrifi, yfir 20 tonn að þyngd með öllum græjum, alkeðjaður og mokaði allt. Þá þurfti aðeins jarðýtu á alerfiðustu köflunum,“ lýsir Jói. Hann segir það ekki hættulaust verk að moka snjó en vanir menn læri hratt hvar vegurinn liggur þó varla móti fyrir honum undir hvítri snjóbreiðunni. „Maður fær líka tilfinningu í gegnum hefilinn og finnur þegar tönnin eða framhjólin fer út af veginum.“

Nýtt Vegagerðarhús reis á Hólmavík og Jói gerðist nú flokksstjóri en hélt samt áfram að sinna hefilstjórastörfum. Á þessum tíma, 1984, var akvegur yfir Steingrímsfjarðarheiði tekinn í notkun, og mikilvægt verkefni að moka heiðina. Fyrst í stað var farinn tengivegur frá Steingrímsfjarðarheiði og yfir á Þorskafjarðarheiði og niður í Langadal í Djúpi. Það var oft erfitt enda vegurinn niðurgrafinn og stundum þurfti að draga flutningabílana sem voru á leið til Ísafjarðar á ruðningum yfir heiðina. Jói minnist sérstaklega einnar svaðilfarar.

„Ég var á heflinum og einnig var Pétur Halldórsson frá Hrófbergi með mér á jarðýtu við útmokstur en hann var mjög duglegur og seigur ýtumaður. Við vorum búnir að koma öllum flutningabílunum vestur af og niður í Langadal. Kristinn frá Dröngum hafði komið frá Ísafirði kvöldið áður á Willys jeppa og gist á Kirkjubóli og vildi fylgja mér eftir yfir heiðina. Veðrið versnaði til muna og þegar við komum upp að Högná var skollin á blindhríð svo ég sá ekki nema rétt fram á miðja grind á heflinum og alls ekki framtönnina á honum. Ég fór út og setti spotta í bílinn hjá Kristni því ég vildi ekki týna honum. Hann sagðist ekki sjá hefilinn þó að hann væri nánast upp við hann. Ég dólaði áfram ruðningana sem voru orðnir harðir eftir fyrri mokstra og hægt að keyra eftir þeim, horfði út um hliðargluggann á heflinum en í skjóli af vængnum myndaðist glufa í dimmuna þannig að ég sá hjólförin og þannig komumst við Kristinn í rólegheitunum yfir heiðina. Ég hoppaði stundum út til að tala við Kristinn en honum leist ekkert á þetta. „Heldurðu að við höfum þetta yfir“ sagði hann og ég fullvissaði hann um að við myndum gera það. Loks komumst við yfir heiðina en þar beið Pétur eftir okkur því hann vildi ekki fara niður fyrr en við Kristinn værum komnir á hreinan sjó, það tók okkur um fjóra tíma að fara þrjá kílómetra.“

Síðar var farið að moka Steingrímsfjarðarheiði með snjóblásara. „Blásarinn var á hjólaskóflu frá Strandaverki sem þeir Aðalbjörn Sverrisson og Ingimundur Pálsson frá Hólmavík áttu og var Alli eins og hann er kallaður aðal blásaramaðurinn á þessum árum, frábær vélamaður í alla staði og með þeim betri sem þekkjast. Við lentum oft í mjög slæmum veðrum á heiðinni og hægt að segja margar sögur af því en alltaf fór þetta nú vel hjá okkur.“

Með slitlagsflokknum

Á tíunda áratugnum var gert átak í því að leggja bundið slitlag á vegi. Þá fór Jói að hefla undir slitlag fyrir slitlagsflokkinn frá Reykjavík sem fór um allt land. Jói fór um alla Vestfirði, Dalina, Snæfellsnes, Borgarfjörð og suður í Hvalfjörð með slitlagsflokknum sem Eiður Sveinsson stjórnaði og síðar Páll Halldórsson á Selfossi. Í byrjun fékk hann skrifaðar leiðbeiningar á blöðum um ris og beygjuhalla og fleira. Jói sá strax að þetta fyrirkomulag var ómögulegt. „Það var engin leið að aka heflinum og lesa um leið af einhverjum blöðum. Ég kom með þá tillögu að settar yrðu upp merkingar á krossviðarplötur í vegkantinn með upplýsingum til hefilstjóra um halla. Þetta var gert og er ennþá þannig í dag.“

Ertu að gera grín?

Vegagerðin greiddi á þessum tíma starfsmönnum eftir afköstum að hluta. Þá voru stundaðar svokallaðar uppmælingar eða premíukerfi. Sigvaldi Fjeldsted í Búðardal var einn af þeim sem fór til að mæla menn út í mörkinni, hversu langan tíma tók að hefla hvern kílómetra. „Þegar Sigvaldi kom til að mæla mig var ég að hefla undir slitlag á Barðaströnd á tölvuhefli Vegagerðarinnar. Ég hafði það lag á að hefla mjög rólega og halda tönninni kyrri því ef of hratt var farið ruglaðist tölvan og tönnin fór að hoppa. Þegar ég var komin hálfa fyrstu ferðina stoppaði hann mig og spurði hvor ég væri að gera grín í honum, ég færi svo hægt. Ég sagði svo ekki vera, svona gerði ég þetta. Hann komst að því á endanum að ég var jafnvel fljótari með kílómetrann en hinir, því ég fór helmingi færri ferðir.“

Kynntist ástinni á Steingrímsfjarðarheiði

Jói varði ófáum stundum við að sjá um snjómokstur á Steingrímsfjarðarheiði. Einn snjómokstursdagur er honum þó minnisstæðastur. „Þetta var árið 1993. Magnús kallaði í mig frá Hólmavík, þá hafði kona stoppað hjá honum í áhaldahúsinu á Hólmavík og spurt hvort hún kæmist yfir heiðina. Við Alli vorum þá á leiðinni niður og ég sagði að hún kæmist yfir ef hún flýtti sér. Við vorum búnir að ganga frá vélunum og komnir niður í miðjan Staðardal þegar við mættum henni. Við heilsuðumst og hún spurði hvort hún kæmist yfir. Ég sagði; „já, ef þú tollir á veginum“, sem henni hefur líklega þótt heldur karlrembulegt tilsvar. Ég var svo kominn heim að borða kvöldmat þegar Ísafjarðarradíó hringdi og tilkynnti mér að hringt hafi verið úr sæluhúsinu á Steingrímsfjarðarheiði, en í þetta sæluhús fór ég í nánast hverjum snjómokstri og hringdi á Ísafjörð til að athuga hvort ekki væri í lagi með línuna, svo þau þekktu mig vel hjá Ísafjarðarradíói.“

Þarna voru björgunarsveitir ekki farnar að bjarga fólki í þessum aðstæðum og því var hringt í Vegagerðina. „Ég dreif mig í gallann og hélt af stað á sæmilega duglegum jeppa. Rétt áður en ég kom á háheiðina sá ég að bíll hafði farið út af en konan og unglingsstrákur sem var með í för höfðu beðið í bílnum eftir að hafa hringt úr sæluhúsinu. Þegar ég kom þarna að kom hún út, faðmaði mig og sagði þessa fallegu setningu; „Þú kemur eins og engill að bjarga mér“.“

Jói dró bílinn upp á veg og fylgdi honum yfir heiðina. Eftir þetta veifuðu þau hvoru öðru þegar þau mættust á heiðinni og smám saman jukust kynnin. Þau voru þá bæði að skilja við fyrri maka og neisti hafði kviknað.

Það fór svo að Jói elti Kristen Mary Swenson til Reykjavíkur og síðar giftust þau og eignuðust tvö börn, Daníel Frey sem nú er 26 ára og Karen Elizabeth 22 ára. Fyrir átti hann dótturina Hörpu sem hann ættleiddi frá fyrra sambandi og þá Ragnar Hafstein og Skúla. Kristen átti einnig strák, Jakob Má, frá fyrra sambandi svo í allt eru börnin sex og barnabörnin orðin sjö.

Miðlað af reynslunni

Jói flutti í bæinn haustið 1994. „Ég hélt ég myndi deyja, það var svo erfitt að þú getur ekki trúað því,“ segir Jói dramatískur en hann hafði þá átt heima á Hólmavík í tvo áratugi í húsi sem hann byggði sjálfur 22 ára gamall. „Þar þekkti ég hverja þúfu og alla vinina og vinnufélagana.“ Hann ákvað að slá varnagla ef honum yrði vistin óbærileg fyrir sunnan og gerði húsaskipti við vélstjóra á skipinu Hólmadrangi og fékk íbúðina hans í Hafnarfirði.

Ekki var vistin verri en það að Jói býr enn hér fyrir sunnan aldarfjórðungi síðar.

Lengi hafði gott orð farið af Jóa sem hefilstjóra og hafði hann meðal annars verið sendur vestur á firði að kenna mönnum að hefla. „Mér leist nú ekkert á að segja reyndum hefilstjórum til en lét mig hafa það,“ segir Jói glettinn en eftir að hann flutti í bæinn fékk hann það verkefni frá Birni Ólafssyni forstöðumanni þjónustudeildar að skrifa upp nýjar reglur varðandi heflun. „Ég notaði tækifæri þegar ég var sendur vestur á Patreksfjörð til að leiðbeina nýjum hefilstjóra sem var að taka við heflinum þar, ég tók myndir af öllum aðferðum í heflun.“

„Við Guðmundur Finnur Guðmundsson í Borgarnesi skrifuðum þessar reglur saman. Gummi hringdi til dæmis í flest alla hefilstjóra Vegagerðarinnar um allt land til að afla upplýsinga og svo bjuggum við til mjög góðan glærupakka sem við notuðum í mörg ár á hefilstjóranámskeiðum.“

Í febrúar 1995 gerðist Jóhann verkstjóri hjá Eyvindi Jónassyni rekstrarstjóra Reykjanesumdæmis með  aðsetur í Grafarvoginum og sá um merkjaflokkinn sem samanstóð af tveimur eldri mönnum á merkjabíl, þeim Jóhanni Sæmundssyni og Þorgrími Guðmundssyni. Í Grafarvognum voru líka margir aðrir vinnuflokkar Vegagerðarinnar sem og birgðadeildin. Jói tók einnig vetrarþjónustuvaktir og má segja að það hafi verið vísir að fyrstu vaktstöð Vegagerðarinnar.

Á hestabúgarði í Bandaríkjunum

Árið 1999 fékk Jói ársleyfi frá Vegagerðinni til að flytjast til Bandaríkjanna með eiginkonu og börnum á búgarð tengdamóður sinnar en þar var hún með um 130 íslenska hesta. „Tengdamamma var að stofna nýjan búgarð og bað okkur að vera hjá sér meðan hún væri að koma öllu af stað. Við fórum út í september með fjögur börn og komum okkur fyrir í Goldendale í Washingtonríki á sveitabænum Alfa Saga farm.“ Kirsten kona Jóa tamdi hesta alla daga og Jói var í girðinga- og byggingarvinnu á búgarðinum, passaði börnin og ók í skólann. „Þegar leið á vorið 2000 fórum við á sýningar um öll Bandaríkin og kynntum íslenska hestinn. Við seldum um þrjátíu hesta fyrir tengdamömmu þetta ár en fólk kom hvaðanæva að til að prófa og kaupa. „Ég bauð alltaf fólki inn í kaffi eins er venjan á íslenskum sveitabæ, en það tíðkaðist nú ekki þarna úti.“ Fjölskyldunni líkaði lífið vel og var farin að huga að því að festa rætur í Bandaríkjunum en hættu við því Íslandið togaði í þau.

Mikilvægast að allir komi heilir heim

Jói hélt áfram sínum störfum eftir að heim var komið en árið 2004 flutti Vegagerðin í Hafnarfjörð og urðu þá talsverðar breytingar. Nokkru áður hafði mörgum verið sagt upp enda ætlunin að bjóða út ýmsa vinnu sem áður hafði verið unnin hjá Vegagerðinni.

Það er svo árið 2010 sem Jóhann er gerður yfirverkstjóri á þjónustustöðinni en við það jókst skriffinnskan og ábyrgðin til muna. Nóg var að gera enda var hann á sama tíma gerður yfirmaður vaktstöðvarinnar sem var í Hafnarfirði þar til hún var flutt í Borgartún nokkrum árum síðar. „Árið 2011 fengum við allt höfuðborgarsvæðið í okkar þjónustu sem áður var á ábyrgð sveitarfélaga. Við sinntum þá þjónustu á öllum stofnæðum, sem eru ófáar; Miklabraut, Hringbraut, Sæbraut, Kringlumýrarbraut, Nýbýlavegur, Breiðholtsbraut, Hafnarfjarðarvegir, Stekkjabakki, Höfðabakki, Gullinbrú, Hallsvegur, Arnarnesvegur, Strandgata í Hafnarfirði og Vífilsstaðavegur. Árið 2018 bættust svo Hvalfjarðargöng við.“

Öryggi starfsmanna hefur verið Jóhanni hugleikið alla tíð, ekki síst eftir að hann varð yfirverkstjóri með mikil mannaforráð. „Ég hef verið að berjast fyrir bættum öryggisbúnaði í langan tíma, og finnst aldrei nóg gert í þeim málum. Það er mikil áskorun að allir komi heilir heim eftir vinnudaginn enda oft unnið í mikilli nálægð við hraða umferð. Sem betur fer hefur ekkert komið fyrir hjá okkur, og ég þakka fyrir það.“

Aftur til USA

Þegar Kristen ákvað að skella sér í nám til Bandaríkjanna haustið 2016 greip Jói það fegins hendi og fékk leyfi frá Vegagerðinni til að kynna sér Vegagerðina í Bandaríkjunum í þrjá mánuði en samtals dvaldi hann úti í sjö mánuði. Hann komst fyrst í samband við mann hjá Vegagerðinni í Olympia og var afar vel tekið. Hann hélt erindi um Vegagerðina á Íslandi og kynntist því hvernig Bandaríkjamenn fara að í vetrarþjónustu. Einna merkilegast fannst honum að sjá hvernig notaðir voru skriðdrekar til að skjóta í brekkur til að framkalla snjóflóð sem síðan var mokað burt af vegunum á nóttunni. „Síðan færði ég mig til Vancouver, syðst í Washingtonfylki, og með vegagerðarmönnum þar fór ég út á vegina og lærði margt. Helst þó það að vandamálin eru þau sömu og á Íslandi bara stærri og meiri; það vantar alltaf pening og mannskap.“

Jói sagði skemmtilegt og lærdómsríkt að fylgjast með vinnulaginu. „Þegar þeir voru í verkefnum merktu þeir mjög vel, voru með nokkra púðabíla (öryggisbíla til að verja vinnusvæðið). Síðan mættu þeir með mikinn mannskap, kláruðu í hvelli og létu sig svo hverfa.“

Jói hélt tvö erindi hjá þeim í Vancouver, annað um vetrarþjónustu og hitt um sumarstarfsemi Vegagerðarinnar. „Þeim fannst ýmislegt merkilegt að sjá og þá helst hvað við höfðum duglega snjómokstursbíla og einnig stikuvinnuna, hvernig við rekum niður stikufæturna og merkjarörin með glussahamri. Þeir aftur á móti nota staurabor, grafa holu, setja vinkiljárn ofaní og steypa síðan í holuna með hraðsteypu,“ lýsir Jói en stikuþvottavélin sem er notuð á Íslandi vakti einnig mikla athygli. Jói var mjög ánægður með dvölina hjá Vegagerðinni í Bandaríkjunum og þakklátur fyrir hvað þeir tóku honum vel.

Að Bandaríkjadvölinni lokinni kom Jói heim eins og nýsleginn túskildingur. „Nú fannst mér þessi verkefni hér heima ekkert mál miðað við það sem þeir voru að eiga við þarna úti.“

En nú er komið að kveðjustund. Þá er við hæfi að spyrja hvað hafi nú verið mest til bóta í vegagerð á þessari hálfu öld. „ Það er öll þessi uppbygging á nýjum vegum, að losna við malarvegina og fá bundið slitlag á þá. Að auka malbikið á stærri vegina út frá höfuðborginni. Aukin og betri vetrarþjónusta, aukin tækni og ekki síst meiri vakning um öryggi starfsmanna á vegum úti,“ segir Jói sem hefur þótt gaman og lærdómsríkt að vinna með starfsmönnum Vegagerðarinnar bæði á Ströndum og fyrir sunnan. „Ég hef einnig átt mjög góð samskipti við verktakana hér á svæðinu sem og starfsfólk sveitarfélaganna hér á stór höfuðborgarsvæðinu. Ég vil þakka sérstaklega samstarfsmönnum mínum í þjónustustöðinni í Hafnarfirði fyrir ánægjulegt samstarf á liðnum árum.“ 

En hvað tekur nú við?

„Ég ætla að demba mér í hestamennskuna og gera það sem mig langar til. Ég á hlut í jörð á Ströndum, Bæ II, rétt hjá Drangsnesi og nokkur prósent í Grímsey á Steingrímsfirði. Þar á ég frændfólk sem gaman væri að heimsækja meira,“ segir Jói sem hlakkar einna mest til hestaferða sumarsins.

Þessi grein birtist í 4. tbl. Framkvæmdafrétta. Rafræna útgáfu má finna hér.  Áskrift að Framkvæmdafréttum er án endurgjalds og hægt er að skrá sig fyrir áskrift með því að senda póst á sogi@vegagerdin.is.