Fréttir
  • Umferðin hlutfallsleg breyting
  • Umferðin uppsafnað
  • Umferðin með spá út árið
  • Umferðin eftir mánuðum
  • Umferðin eftir vikudögum

Umferðin eykst mikið en er samt minni en fyrir tveimur árum

umferðin á Hringvegi eykst í júní um ríflega sex prósent

13.7.2021

Umferðin á Hringveginum í júní jókst um rúm sex prósent frá því í sama mánuði í fyrra. Umferðin er eigi að síður ríflega þremur prósentum minni en hún var árið 2019 í þeim sama mánuði. Útlit er fyrir að umferðin í ár aukist um átt til níu prósent sem myndi samt ekki duga til að jafna umferðina árið 2019.

Milli mánaða
Umferð um Hringveginn, yfir 16 lykilteljara Vegagerðarinnar, í júní sl.  reyndist rúmlega 6% meiri en í sama mánuði á síðasta ári. Þrátt fyrir þessa miklu aukningu varð umferðin, engu að síður, rúmlega 3% minni en í sama mánuði árið 2019, sem er umferðarmesti júnímánuður frá upphafi mælinga.

Aukning varð á öllum landssvæðum og einstaka talningarstöðum.  Mest jókst umferð um Austurland eða um rúmlega 37% en minnst um höfuðborgarsvæðið eða um 2,5%. 

Af einstaka talningarstöðum er það helst að frétta að umferð jókst mest um talningarsnið í Lóni, á Austfjörðum, eða um tæplega 143%, sem er mesta breyting á milli mánaða sem sést hefur í umræddum mælisniðum.  

Samanburðartafla










Umferð frá áramótum
Nú hefur umferð aukist um tæp 11%, frá áramótum, fyrir umrædd mælisnið.  Mest hefur umferð aukist um Norður- og Austurland eða um tæplega 20%.

Umferð vikudaga
Þegar horft er á vikudaga hefur umferðin aukist í öllum vikudögum það sem af er ári, borið saman við sama tímabil á síðasta ári. Mest hefur umferð aukist á sunnudögum, eða um rúmlega 16% en minnst á fimmtudögum eða um 6,5%.

Horfur út árið 2021
Nú eru horfur til þess að umferð í ár geti aukist um 8 – 9% miðað við síðasta ár.  Þetta þætti veruleg aukning í venjulegu árferði en þar sem umferð dróst mikið saman á síðasta ári dugar slík aukning ekki til að vinna upp þann samdrátt og yrði hún enn um 6 – 7% minni en hún var árið 2019.