Fréttir
  • Vinna við Suðurlandsveg

Umræða um málefni Vegagerðarinnar

Að gefnu tilefni

4.6.2021

Nokkur umræða hefur átt stað í fjölmiðlum undanfarið um málefni er snúa að Vegagerðinni og hefur gætt nokkurs misskilnings sem nauðsynlegt er að færa til rétts vegar. Umræðan hófst með greinaskrifum Jón Gunnarssonar alþingismanns í Morgunblaðinu 1.6.2021.

Suðurlandsvegur

Því er haldið fram að innan fárra ára verði nauðsynlegt að byggja 2+2 veg á milli Hveragerðis og Selfoss þar sem nú er unnið að gerð 2+1 vegar.

Það er afar hæpið að innan fárra ára þurfi að gera 2+2 veg þar sem meðaltalsumferð á dag á Suðurlandsvegi er um 10.400 ökutæki. Miðað er við að umferðarrýmd 2+1 vegar sé allt að 15.000 bílar á dag, því þyrfti umferð að aukast um 50% til að þörf væri á 2+2 vegi. Vegurinn er byggður þannig að undirbygging vegarins er gerð með 2+2 veg í huga. Tiltölulega einfalt er þá að gera veginn að 2+2. Tvö hringtorg eru á kaflanum sem þjóna vel tilgangi sínum og tryggja flæði ólíkra umferðarstrauma sem mætast. Það var mat Vegagerðarinnar að skynsamlegra væri að framkvæma verkið þannig í áföngum til þess að hægt væri að komast lengra fyrir það fjármagn sem til ráðstöfunar var og auka þannig umferðaröryggi á lengri köflum.

Áætluð frestun á stofnkostnaði með því að fresta mislægum vegamótum og fjórðu akreininni er um 3-5 milljarðar kr.  Miðað við fjárveitingar á samgönguáætlun á undanförnum árum væri því ólíklegt að breikkun Hringvegar á Kjalarnesi væri komið til framkvæmda ásamt því að hvorki breikkun Hringvegar í Mosfellsbæ og/eða breikkun Hringvegar frá Vesturlandsvegi að Bæjarhálsi hefðu verið tekin í notkun árið 2020.

Forsendur varðandi gjaldtöku í tengslum við samvinnuverkefni í vegagerð lágu ekki fyrir fyrr en sumarið 2020 þegar lög um samvinnuverkefni voru samþykkt.  Auknum kostnaði við möguleg mislæg vegamót yrði þá mætt með hærri veggjöldum í stað þess að þurfa aukin framlög af samgönguáætlun.  Það má nefna að Vegagerðin er nú með til skoðunar að byggja mislæg vegamót austan og vestan við Selfoss í samráði við sveitarfélögin á svæðinu, Árborg og Flóahrepp. 

Áfangaskipting

Því er haldið fram að það hefði mátt spara 20% á 2. og 3. áfanga með því að bjóða þá áfanga út saman. Þetta er ekki rökstutt á neinn hátt. Því stærri sem verk eru því færri verktakar á Íslandi hafa getu til að bjóða í verkið. Því hefði þetta hugsanlega leitt til þess að jafnvel einungis einn verktaki gæti boðið í verkið. Þessi áfangaskipting er auk þess sett fram í samgönguáætlun Alþingis og með því að bjóða áfangana út saman hefði fjármagn þurft að koma frá öðrum verkum sem hefðu þurft að bíða eins og nefnt er að ofan. Þetta gæti einnig leitt til mikillar fákeppni á verktakamarkaði sem er skattgreiðendum ekki til hagsbóta.

Þegar fyrsti áfangi breikkunar milli Hveragerðis og Selfoss var boðinn út lá ekki fyrir tryggð fjármögnun á 2. áfanga og því ekki hægt að hafa það verk stærra.

Útboð vegna 2. áfanga Hringvegar í mars 2020 og sem nú er í framkvæmd er stærsta útboðsverk Vegagerðarinnar að undanskildum jarðgöngum á síðustu 10 árum. Verkið er flókið með mörgum verkþáttum, brúm, undirgöngum, lögnum o.s.frv. Ákveðið var að bjóða út tiltölulega stórt verk þar sem öflugur verktaki hefur möguleika á að skipuleggja sig vel og nýta sína stærð og verkþekkingu til að fá fram hagkvæmni í verkið. Raunin er enda sú að líklegt er að verktakinn ljúki verkinu á skemmri tíma en áætlað var í upphafi. Verktakamarkaðurinn á Íslandi er ekki stór og fyrir verk af þessari stærð eru einungis 3-5 verktakar á landinu sem hafa reynslu af sambærilegum verkum. Vegagerðin hefur sætt gagnrýni fyrir að útboðsverkin séu of stór frekar en of lítil.  Mikilvægast er hverju sinni að horfa til hvers verks fyrir sig og vega og meta hvert heppilegasta útboðsformið er með hliðsjón af verkefninu sem liggur fyrir, staðsetningu svo og aðstæðum á verktakamarkaði.

Hringtorg Esjumelum

Hringtorgið á Esjumelum var nefnt í umræðunni, að það hafi kostað um 500 m.kr. en að mislæg vegamót hefði verið hægt að byggja fyrir 7-800 m.kr.  Ekki var vísað til neinnar athugunar á því hvað mislæg vegamót á þessum stað hefðu kostað en leiða má að því líkum að mislæg vegamót hefðu kostað mun meira. Mislæg vegamót á þessum stað eru ekki á skipulagi og er því fyrirliggjandi að verulegar tafir hefðu orðið á framkvæmdum við að taka inn slíka breytingu. Hringtorg  hentar vel við þessi vegamót við núverandi aðstæður og annar vel þeirri umferð sem um þau fer. Lengi hefur verið gert ráð fyrir Sundabraut og við tilkomu hennar er ólíklegt að fara þurfi í byggingu mislægra vegamóta á Vesturlandsvegi um Mosfellsbæ og við Esjumela - um fyrirsjáanlega framtíð.

Verkefnið var samstarfsverkefni Vegagerðarinnar, Reykjavíkurborgar og veitna. Heildarkostnaður var um 500 m.kr. með undirgöngum og færslu lagna.

Undirgöng: Kjalarnes og Garðabær

Undirgöng á Kjalarnesi hafa verið í umræðunni og svo önnur  í Garðabæ. Spurt er hvort ekki hafi verið hægt að nota sömu steypumótin, sem nefnt var að kosti 10 m.kr., við báðar framkvæmdir. Staðreyndin er sú að þessi undirgöng gegna ólíkum hlutverkum og þversnið þeirra því ólík. Undirgöngin í Garðabæ eru ætluð fyrir mun meiri umferð hjólandi og gangandi og tengir saman tvö stór hverfi í sveitarfélaginu. Þar er einnig lækur sem þarf að brúa. Þannig hefði skapast aukinn kostnaður við að byggja stærri undirgöng en þörf er fyrir á öðrum staðnum sem hefði því ekki sparað fé, heldur hefði kostnaður líklega orðið meiri en ella. Það má alveg taka undir að æskilegt væri að hægt væri að staðla sem mest þversnið undirganga af þessu tagi þannig að framleiðendur gætu útbúið sér slík mót og átt á lager. Til þess væri æskilegt að horfa til lengri tíma við ákvörðun hinna ýmsu framkvæmda en oft eru ákvarðanir við framkvæmdir sem þessar oft teknar með skömmum fyrirvara og því lítill möguleiki á samræmingu.

Samkeppni fái þrifist

Vegagerðin metur jafnt og þétt hagkvæmni í útboðsferlum með hliðsjón af verktakamarkaðnum og öðrum markaðsaðstæðum með það að markmiði að þróa markaðinn þannig að samkeppni fái þrifist meðal verktaka sem er liður í því að auka hagkvæmni í verkum.  Eins er stöðugt unnið að því að skoða nýjar lausnir í bæði vega og brúargerð og meta hagkvæmni þeirra.