Fréttir
  • Covid Umferðin á Hb vikuleg 43
  • Covid umferðin það sem af er ári 26.10.20

Minni umferð en í fyrra en meiri en í síðustu viku

Umferðin á höfuðborgarsvæðinu á tímum kórónaveirunnar

26.10.2020

Örlítill umferðarkippur varð í viku 43 miðað við vikuna þar á undan eða 3,1% aukning á höfuðborgarsvæðinu.  Hins vegar reyndist umferðin í nýliðinni viku 19,5% minni en í sömu viku á síðasta ári.  Þetta er heldur minni samdráttur en varð í viku 42, sbr. eldri frétt þarf um.

Eins og oftast áður leiðir snið á Hafnarfjarðarvegi við Kópavogslæk samdráttinn en þar mældist tæplega 28% samdráttur en minnst dróst umferð saman á Reykjanesbraut eða um tæp 15%.

Vegagerðin birtir nú vikulega umferðartölur af höfuðborgarsvæðinu sem vísbendingu um áhrif sóttvarnarregla og mismunandi samkomutakmarkana.
Áberandi er að umferðin dregst minna saman í yfirstandandi bylgju faraldursins miðað við fyrstu bylgjuna í vor.

Dýrafjarðargöng

Þessu ótengt vill umferðardeild Vegagerðarinnar koma á framfæri að 25. okt sl., eða þann sólarhring sem Dýrafjarðargöng voru opnuð reyndist umferðin um göngin vera 827 ökutæki, sem verður að teljast all nokkur fjöldi, þar sem fjöldi ökutækja yfir Hrafnseyrarheiði var 150 (ökutæki/sólarhring) að meðaltali árið 2019.  Umferðin mun leita jafnvægis á næstu dögum en það verður forvitnilegt að sjá hversu mikil aukningin verður, þegar frá líður, og hvort að umferðin um Ísafjarðardjúp dragist saman í kjölfarið.