Fréttir
  • Lausn til nánari útfærslu
  • Úr matsskýrslu

Tillaga að útfærslu vegamóta Arnarnesvegar og Breiðholtsbrautar

Arnarnesvegur 3. áfangi ljósastýrð gatnamót

14.10.2020

Unnin hefur verið ný og breytt útfærsla á vegamótum Arnarnesvegar og Breiðholtsbrautar sem er frábrugðin þeirri lausn sem kynnt var í mati á umhverfisáhrifum. Tillagan felur í sér ljósastýrð vegamót sem þó taka mið af landfræðilegum aðstæðum en fallið yrði frá hugmyndum um fullbúin mislæg vegamót. Unnið verður áfram með sveitarfélögum að þessari lausn en þrýst er á breytingar t.d. af viðbragðsaðilum á höfuðborgarsvæðinu vegna neyðaraksturs. Stefnt er að útboði á næsta ári.

Myndirnar tvær hér til hliðar sýna annarsvegar þá útfærslu sem nú kemur til skoðunar, efri myndin, og hinsvegar þá hugmynd að lausn sem var lögð fram við gerð mats á umhverfisáhrifum, neðri myndin.

Arnarnesvegur (411) flokkast sem stofnvegur í umsjá Vegagerðarinnar. Matsskýrsla vegna Arnarnesvegar á milli Reykjanesbrautar og Breiðholtsbrautar er frá febrúar 2003 og úrskurður Skipulagsstofnunar um matið er frá því í júlí 2003.

Í úrskurðinum er fallist á lagningu fyrirhugaðs Arnarnesvegar milli Reykjanesbrautar og Breiðholtsbrautar. Skipulagsstofnun telur að framkvæmdin muni ekki hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif samkvæmt valkosti Vegagerðarinnar eins og hann var kynntur í matsskýrslu. Fallist var á framlagðar útfærslur vegamóta Breiðholtsbrautar og Arnarnesvegar. 

Fyrsti áfangi Arnarnesvegar var byggður á milli Fífuhvammsvegar og Rjúpnavegar, annar áfangi var opnaður árið 2016 og var frá Reykjanesbraut að Fífuhvammsvegi. Þriðji áfangi, sem nú er fyrirhugaður, er á milli Rjúpnavegar í Kópavogi að Breiðholtsbraut í Reykjavík og er um 1,3 km að lengd. Vegkaflinn er hluti af samkomulagi ríkisins við sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu um skipulag og fjármögnun uppbyggingar á á samgönguinnviðum, samgöngusáttmálanum.

Mikill þrýstingur er á þessa framkvæmd þar sem umferðartafir við núverandi vegamót  Arnarnes­vegar og Vatnsendahvarfs eru miklar og umferðaröryggi ekki ákjósanlegt. Í mars 2019 ritaði stjórn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins áskorun til samgönguráðherra þess efnis að hefja framkvæmdir sem fyrst og í umferðaröryggisáætlun Reykjavíkurborgar er lögð áhersla á lagfæringar á vegamótunum.

Vegagerðin hefur unnið náið með sveitarfélögunum Kópavogi og Reykjavík við undirbúning fyrirhugaðs áfanga Arnarnesvegar. Umtalsverður hæðarmunur á Breiðholtsbraut og aðliggjandi umhverfi takmarkar hvaða lausnir koma til greina. Lögð hefur verið áhersla á eftirfarandi þætti við val á útfærslu framkvæmdarinnar:
 

  • Að hún samræmist niðurstöðu um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar.
  • Að hún uppfylli veghönnunarreglur sem snúa að afköstum og umferðaröryggi.
  • Að hún samræmist áformum um stofnstígakerfi höfuðborgarsvæðisins og öðrum stígum samkvæmt áformum sveitarfélaganna.
  • Að hún samræmist eins og kostur er áætlunum beggja sveitarfélaga.
  • Að hún taki eins lítið rými og kostur er.
  • Að takmarka efnisflutninga.

Sú lausn sem sátt er um að vinna áfram felst í hringtorgi við Vatnsendahvarf, einni brú yfir Breiðholtsbraut fyrir akreinar og stíga, og tengingu við Breiðholtsbraut með umferðarljósum. Núverandi ljósastýrð vegamót við Vatnsendaveg verða felld niður en þó verða þar leyfðar hægribeygjur. Þessi lausn skapar aukið rými við skíðabrekku í Reykjavík miðað við þær lausnir sem samþykktar voru í mati á umhverfisáhrifum og tekur jafnframt minna rými norðan Breiðholtsbrautar. 

Munur á tillögunni nú og þeirri sem samþykkt var í matsferlinu er því að ekki er um fullbúin mislæg vegamót að ræða heldur ljósastýrð vegamót. Vegagerðin mun senda fyrirspurn um matsskyldu til Skipulagsstofnunar varðandi breytingu frá matsferli. Kópavogsbær og Reykjavíkurborg munu vinna sameiginlegt deiliskipulag fyrir vegsvæðið og jafnframt verður unnið að öðrum skipulagsáætlunum er varða framkvæmdina eða umhverfi hennar. Í skipulagsferli munu fara fram kynningar og samráð. Leitast verður við að bjóða út for- og verkhönnun framkvæmdarinnar á næstunni. Vegagerðin mun óska eftir framkvæmdaleyfi til beggja sveitarfélaga. Stefnt er að útboði framkvæmda árið 2021.

Í fylgiskjölum má finna: