Fréttir
  • Sigurbjörg J. N. Helgadóttir mannauðsstjóri og Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri taka við vottunarskjalinu af Emil B. Karlssyni úttektarmanni Vottunar hf.
  • Merki jafnlaunavottunar.

Vegagerðin hlýtur jafnlaunavottun

Mikilvægt skref fyrir stofnunina

2.9.2020

Vegagerðin hefur hlotið jafnlaunavottun frá vottunarstofunni Vottun hf., sem er staðfesting þess að jafnlaunakerfi Vegagerðarinnar samræmist kröfum jafnlaunastaðalsins, ÍST85:2012. Tilgangur jafnlaunavottunar er að vinna gegn kynbundnum launamun og miða að auknu launajafnrétti kynjanna.

Vinna við jafnlaunavottun hófst hjá Vegagerðinni fyrir tveimur árum en úttekt Vottunar hf. fór fram 12. og 15. júní á þessu ári.

Starfsmenn Vegagerðarinnar eru 330 talsins. Stofnunin er á tuttugu stöðum á landinu og þjónustustöðvar eru 18. Flestir starfa í Reykjavík þar sem höfuðstöðvarnar eru. Konur eru 21% starfsmanna og karlar 79%.

Launagreining var gerð af utanaðkomandi aðila og kom þar í ljós að óútskýrður kynbundinn launamunur var 1% konum í vil. Markmið stofnunarinnar er að óútskýrður launamunur verði ekki meiri en 2,5% og því er markmiðinu náð.

Í umsögn Vottunar hf. kemur fram að innleiðing jafnlaunakerfisins beri með sér að hafa verið gerð af vandvirkni og metnaði. Þá hafi framsetning skjala verið til fyrirmyndar.

„Þetta var flókið en upplýsandi verkefni og ekki síst mikilvægt skref fyrir stofnunina,“ segir Sigurbjörg J. N. Helgadóttir mannauðsstjóri Vegagerðarinnar.

Vinnunni er þó ekki lokið þó vottun sé komin í hús. Árlega fer fram svokölluð viðhaldsvottun en þá fer vottunaraðili yfir gögn og staðfestir að allt sé í lagi. Þriðja hvert ár er farið í dýpri endurskoðun á vottuninni.