Fréttir
  • Hugmynd að brú yfir Fossvog

Mat metið huglægt

úrskurður kærunefndar útboðsmála vegna samkeppni um hönnun brúar yfir Fossvog

6.8.2020

Kærunefnd útboðsmála hefur fellt úr gildi ákvörðun Vegagerðarinnar, Reykjavíkurborgar og Kópavogsbæjar frá 24. janúar um val á þátttakendum í forvali um „Brú yfir Fossvog – hönnunarsamkeppni“. Úrskurðarnefndin lýsir því hvernig þrír þættir sem skyldu gefa stig til að velja þátttakendur hafi verið skipt í undirflokka sem gáfu einnig stig til að meta þáttakendur. Metur nefndin það svo að forsendur þær sem ráða áttu þessari stigagjöf undirflokka hafi verið verulega almennar og matskenndar og að stuðst hafi verið við valforsendur sem ekki hafi verið upplýst um í forvalsgögnum. Ákvörðunin um valið er því felld úr gildi.

Forvalið var opið forval á EES-svæðinu og var auglýst í nóvember 2019. Alls sóttu 17 aðilar um þátttöku í forvalinu og voru 6 valdir í janúar 2020. Fimm aðilar kærðu þessa niðurstöðu í febrúar.

Með tölvupósti dags. 30. janúar 2020 óskuðu kærendur eftir rökstuðningi fyrir valinu.  Þann 7. febrúar 2020 sendi Vegagerðin bréf með skýringum og var kærendum boðið að koma til fundar og fara frekar yfir niðurstöðurnar, engin viðbrögð bárust við því og var niðurstaða forvalsins kærð til kærunefndar útboðsmála.

Í kærunni er því m.a. haldið fram að tengsl tveggja starfsmanna Vegagerðarinnar við verkfræðistofuna Eflu, sökum þess að þeir hafi áður unnið hjá Eflu, hafi leitt til þess að Efla hafi orðið fyrir valinu. Fram kemur í úrskurðinum að bent var á að viðurkennt sé í stjórnsýslurétti að fyrrverandi starfsmenn fyrirtækja séu ekki vanhæfir í málum sem varði þau fyrirtæki. Sá starfsmaður Vegagerðarinnar sem hafi átt sæti í matsnefnd hafi hætt hjá Eflu á árinu 2013 og hinn starfsmaðurinn fyrri hluta ársins 2019, en hann hafi auk þess ekki átt sæti í matsnefnd heldur kom hann að ákvörðun um að fylgja niðurstöðu matsnefndar ásamt fulltrúum Reykjavíkurborgar og Kópavogsbæjar.

Vegagerðin hefur staðið fyrir útboðum á flestum framkvæmdum sínum í um 40 ár og hefur mikla reynslu af útboðum. Forval er þó frábrugðið hefðbundnum útboðum enda liggja ekki fyrir nákvæm útlistum á verki til að vinna. Eigi að síður er einnig góð reynsla af forvalsgerð hjá Vegagerðinni. Aðdróttanir um að starfsmenn hjá Vegagerðinni hygli fyrrverandi vinnustöðum sínum eru fráleitar og algjörlega úr lausu lofti gripnar. Enda útlistar nefndin þetta einungis í yfirferð um málin en fellir ákvörðunina um valið úr gildi á þeim forsendum að um matskenndar stigagjöf sé að ræða, svo sem sjá má á úrskurðinum:

„Að mati kærunefndar útboðsmála voru þær forsendur sem skyldu ráða vali þátttakenda
og tilgreindar voru undir liðunum „Verktilhögun“, „Sýn á verkefnið“ og „Fyrri reynsla“ í grein 2.4 í forvalsgögnum verulega almennar og matskenndar. Að mati nefndarinnar er raunar vandséð hvernig gefa hafi átt stig fyrir það hversu vel umsóknir samsvöruðu kröfum forvalslýsingar, eins og grein 2.3 í forvalsgögnum gerði ráð fyrir, miðað við almenna lýsingu forvalsgagna um hvernig mat á umsóknum skyldi fara fram. Það er enda ljóst að þegar varnaraðilar lögðu mat á tillögur og gáfu þeim stig höfðu þeir greint þessa þrjá þætti nánar í tiltekna liði sem stig voru gefin fyrir, án þess þó að upplýst hefði verið um það í forvalsgögnum eða með öðrum hætti. Gögn málsins bera þannig með sér að til stiga hafi verið metnir þættir sem ekki var upplýst um eða mátti greina af forvalsgögnum, svo sem „reynsla hóps af samstarfi“ undir liðnum „Verktilhögun“ og „tungumál, staðbundin þekking“ undir liðnum „Sýn á verkefnið“. Ætla verður að þátttakendur hefðu hagað umsóknum sínum með öðrum hætti hefði verið upplýst um forsendur þessar í forvalsgögnum, en telja verður að varnaraðilum hefði verið það í lófa lagið. Þegar af þessari ástæðu verður að miða við að skilmálar hins kærða forvals hafi ekki samrýmst þeim lagaákvæðum og meginreglum laga um opinber innkaup sem áður hefur verið lýst. Verður því fallist á kröfu kærenda um að ákvörðun varnaraðila um val á þátttakendum í hinu kærða forvali verði felld úr gildi.“

Vegagerðin hefur alfarið hafnað því að skort hafi á gagnsæi við einkunnargjöf í forvalinu. Fyllsta jafnræðis var gætt og var lagt mat á hverja umsókn út frá málefnalegum sjónarmiðum og þeim hlutlægu viðmiðum sem fram komu í skilmálum forvalsins. Einkunnargjöfin var sett fram með hliðsjón af heildarmati á þeim umsóknum sem bárust og einkunn gefin í samræmi við skilmála forvalsins. Ef lýsing samsvaraði ekki kröfum forvalsgagna var einkunnin lakari en ella, sbr. skilmála forvalsins. Kærunefnd útboðsmála féllst ekki á málflutning verkkaupa í málinu og því varð niðurstaðan á þann veg að ákvörðun um val á þátttakendum skyldi felld úr gildi.

Þessar 17 umsóknir hönnunarteyma í forvalið bárust bæði frá innlendum og erlendum aðilum. Sum teymin voru alfarið með íslenskum verkfræðingum og arkitektum, flest voru með blöndu af íslenskum og erlendum sérfræðingum, einhver uppfylltu hæfniskröfur með erlendum aðilum en voru með stuðning íslenskra aðila.

Brú yfir Fossvog verður með stærri brúarmannvirkjum á Íslandi og fáir verkfræðingar eða arkitektar hér á landi sem hafa reynslu af sambærilegum mannvirkjum. Sérstök áhersla er lögð á að framkvæmdaáætlanir standist varðandi tíma og kostnað og því var þessi aðferð fyrir valinu að velja að loknu forvali hæfustu aðila til að leggja inn tillögur og fá greidda þóknun fyrir. Í stað opinnar hönnunarsamkeppni þar sem flestir þátttakendur fá ekkert greitt fyrir sína vinnu. Ekki er sjálfgefið að verkefni af þessum toga fari í hönnunarsamkeppni og ýmis önnur útboðsform möguleg.

Taka ber fram að hönnunarsamkeppnin er ekki farin af stað og að verkkaupi sem er Vegagerðin, Kópavogsbær og Reykjavíkurborg, er að fara yfir næstu skref í málinu í samráði við verkefnastofu Borgarlínu. Umsækjendum í forvalinu hefur verið tilkynnt um að ákvörðun um val á þátttakendum frá 24. janúar 2020 hefur verið dregin til baka en frekari ákvörðun um framhald innkaupaferlisins verður tekin innan skamms og þátttakendum tilkynnt þar um.