Fréttir
  • Tóti og Vigdís við Dyrhólavita. Tóti hefur verið í vitaflokknum tíu sumur en Vigdís var að byrja í vor.
  • Systurnar Vigdís og Þorbirna byrjuðu í vitaflokknum í vor og kunna vel við starfið.
  • Mikil áhersla er lögð á öryggi í vitaflokknum og fara sumarstarfsmenn á sérstök námskeið til að læra öryggisatriði og rétt viðbrögð.
  • Ingvar Hreinsson kennir réttu handtökin.
  • Reynsluboltarnir Ingvar Hreinsson og Ingvar Engilbertsson sýna hvernig á að gera hlutina.
  • Öryggið er ávallt á oddinum í vitaflokknum.
  • Hressir sumarstarfsmenn. Vigdís, Róbert, Tóti og Kristján.
  • Hvað gerist ef vinnupallur hrinur? Þá er eins gott að öll öryggisatriði séu í lagi.

Hver einasti dagur er ævintýri

Tóti og Vigdís starfa með vitaflokki Vegagerðarinnar

13.7.2020

Rúmlega 80 sumarstarfsmenn starfa hjá Vegagerðinni á sumrin. Þeir sinna ólíkum störfum, allt frá vegavinnu til sérhæfðrar vinnu við hönnun, úrvinnslu eða rannsóknir. Í vitaflokki Vegagerðarinnar starfa níu sumarstarfsmenn. Þeirra á meðal eru Þórarinn Óðinsson sem hefur unnið með flokkum í tíu sumur og Vigdís Ingibjörg Ásgeirsdóttir sem er að stíga sín fyrstu skref með flokknum í sumar.

„Ég byrjaði 16 ára og er núna 26 ára,“ segir Þórarinn sem ávallt er kallaður Tóti. Hann er núna í háskóla í Bandaríkjunum á veturna í kvikmyndanámi. „Ég bíð alltaf spenntur eftir sumrinu og að skólinn klárist til að geta komist út náttúruna að leika mér í góða veðrinu. Ég lít nánast á það sem laun í sjálfu sér að fá að vinna útivið.“

Þetta er fyrsta sumar Vigdísar en hún og systir hennar Þorbirna byrjuðu saman í vitaflokknum í vor. „Ég hafði heyrt af þessum flokki og var spennt að prófa. Við sóttum um og fengum starf,“ segir Vigdís sem líst mjög vel á. „Þetta er dálítið öðruvísi. Ég hef unnið í iðnaðarvinnu en aldrei vinnu sem reynir jafn mikið á líkamann. Ég hef unnið mörg fjölbreytt störf, og oftast fengið leið á þeim eftir einhvern tíma. En þetta starf er svo fjölbreytt að maður fær ekki leið á því,“ segir hún og bætir við að hún hafi lært ótrúlega mikið á skömmum tíma.

Tóti er sammála því. „Maður fær gott verkvit og lærir að vinna með alls kyns verkfæri. Maður lærir að múra, mála og sparsla. Núna þegar ég er kominn með góða reynslu hef ég líka fengið það verkefni að kenna þeim sem eru nýir. Maður er alltaf að læra eitthvað nýtt og það má segja að hver einasti dagur sé nýtt ævintýri.“

Hópurinn vinnur við ýmsar aðstæður, oft í mikilli hæð. Þau eru bæði sammála um að öryggið sé ávallt haft í fyrirrúmi. „Við fórum á öryggisnámskeið sem var mjög gott. Ég var alltaf mjög lofthrædd en er það ekki núna. Ég upplifi að ég sé alveg örugg enda erum við alltaf í belti, með hjálm og kyrfilega fest,“ lýsir Vigdís.

Vitahópurinn gistir á fjölbreyttum stöðum. Meðan á verkefninu við Dyrhólaey stóð var gist í einbýlishúsi á Skógum, aðra tíma er gist í bæjum eða úti í sveit. Innt að því hvort þau sakni ekki félagslífsins úr bænum svara þau neitandi. „Þetta er ótrúlega góður hópur og alltaf eitthvað grín í gangi,“ segir Vigdís og brosir.

„Við reynum alltaf að gera eitthvað skemmtilegt á kvöldin, spila, fara í fótbolta, út í kubb eða í göngutúr í náttúrunni. Stundum gistum við í stærri bæjum og getum þá farið á veitingahús eða jafnvel í bíó. Hins vegar erum við aldrei lengi á sama stað, svo maður er alltaf að upplifa eitthvað nýtt,“ lýsir Tóti.