Fréttir
  • Covid Umferðin á Hb vikuleg 23
  • Covid umferðin það sem af er ári 8.6.2020

Enn mælanleg áhrif af Covid-19 í umferðinni

Umferðin á höfuðborgarsvæðinu dregst saman um 5 prósent

8.6.2020

Umferðin á höfuðborgarsvæðinu í viku 23 reyndist fimm prósentum minni en í sömu viku fyrir ári. Umferðin minnkar því aftur en í viku 22 var hún nánast sú sama og fyrir ári. Áhrifin af Covid-19 og samdrætti í efnahagslífinu er þannig greinileg enn þá en Vegagerðin hefur bent á sambandið á milli hagvaxtar og umferðar, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu.

Aftur dregur í sundur með umferðinni á síðasta ári og árinu í ár, fyrir þrjú lykilmælisnið Vegagerðarinnar á höfuðborgarsvæðinu, en umferðin í viku 23 reyndist tæplega 5 prósentum minni en í sömu viku á síðasta ári.

Núna mældist samdráttur í öllum sniðum og hlutfallslega mest á Hafnarfjarðarvegi eða rúmlega 10 prósent en minnst á Vesturlandsvegi eða um tæplega 4 prósent. Það kemur Vegagerðinni ekki alveg á óvart að umferðin sé ennþá undir því sem hún var á síðasta ári þar sem efnahagslífið hefur ekki náð fyrri styrk, meiri umferð hefði hins vegar frekar komið á óvart.  Ekki er ólíklegt að svona verði þetta eitthvað áfram en hversu lengi fer sjálfsagt eftir því hvenær umsvif samfélagsins komast í fyrra horf, því eins og Vegagerðin hefur sýnt fram á, þá er mikil fylgni á milli umferðar og landsframleiðslu (hagvaxtar).

Hlutfallslegur mismunur eftir mælisniðum í viku 23:
Hafnarfjarðarvegur við Kópavogslæk     -10,3%
Reykjanesbraut við Dalveg í Kópavogi     -6,0%
Vesturlandsvegur, ofan Ártúnsbrekku      -3,9%