Fréttir
  • Þegar göngum er lokað blikka tvö rauð ljós utan við enda ganganna og lokunarslá lokast.
  • Unnið að endurbótum á ljósleiðarakerfi. Rafal vinnur að því að draga blástursrör í göngin. Átta rúllur eru á vagninum. Samtals voru dregin 47 km af nýjum  blástursrörum í göngin.
  • Unnið að endurbótum á ljósleiðarakerfi. Starfsmenn Rafal  fylgjast með að blástursrörin renni rétt ofan í brunninn og inn í ídráttarrör.
  • Þegar göngum er lokað blikka tvö rauð ljós utan við enda ganganna og lokunarslá lokast.
  • Myndir á Breytilegu skilti. Vaktstöð kveikir á skiltinu og getur þá valið rétta mynd miðað við aðstæður.
  • Undir breytilegu lokunarskilti við enda ganganna eru gefnar upplýsingar um vefsíðu og upplýsingasíma Vegagerðarinnar.
  • Bílar frá Hreinsitækni að hefja þvott í Hvalfjarðargöngum.
  • Unnið að gerð setþróar í helli Guðlaugar. Hér er fleygað með lítilli gröfu.
  • Unnið að gerð setþróar í helli Guðlaugar. Hér er mokað með stórri gröfu.
  • Setþró í helli Guðlaugar, en Guðlaug er vatnsþró í botni Hvalfjarðarganga.
  • Kantljós í Norðfjarðargöngum. Til stendur að skipta stikum í Hvalfjarðargöngum út fyrir slík ljós.

Ýmsar endurbætur verið gerðar í Hvalfjarðargöngum

Vegstikum skipt út fyrir LED kantljós

4.5.2020

Vegagerðin tók við rekstri Hvalfjarðarganga 1. október 2018. Síðan hefur verið unnið að ýmsum endurbótum. Meðal þess sem stendur til að gera á næstunni er að skipta út stikum fyrir LED kantljós, og setja upp nýtt myndbandsvöktunarkerfi. Gísli Eiríksson forstöðumaður jarðgangadeildar Vegagerðarinnar fer yfir það helsta sem gert hefur verið síðasta eina og hálfa árið.

Frá því að Vegagerðin tók við göngunum 1. október 2018 hefur smám saman verið unnið að ýmsum endurbótum. Sumt sem farið var í strax leiddi beint af yfirtökunni en annað voru endurbætur sem þótti ástæða til að fara í eftir því sem Vegagerðarstarfsmenn kynntust göngunum betur.
Hvalfjarðargöng  voru opnuð 1998 og eru því komin yfir tvítugt, því er ekki óeðlilegt að komið hafi verið að endurnýjun á einhverjum búnaði. Vegagerðin hefur reynslu af mörgum öðrum göngum á landinu þó að umferðin þar sé aðeins um tíundi hluti umferðar í Hvalfjarðargöngum. Sú reynsla hefur nýst við endurbætur í Hvalfirði. Eftir því sem starfsmenn kynntust göngunum betur kom í ljós ýmislegt sem mátti breyta. Ákveðið var að skoða málin afar vel áður en hafist væri handa. Hér að neðan verður farið yfir það helsta sem hefur verið gert og stendur til að gera í göngunum.

Vegrið endurbætt

Gera þurfti breytingar á akstursfyrirkomulagi við gjaldskýli. Tvö lítil gjaldskýli sem höfðu lítið verið notuð voru tekin burt og sett upp vegrið framhjá aðalgjaldskýli og merkingum breytt.

Í ljós kom að vegrið við skálaenda stóðust ekki núgildandi kröfur. Því var pantað efni miðað við útfærslu sem Vegagerðin hefur notað frá 2010. Vegriðin voru sett upp í lok maí 2019. Þá var einnig vegriðið við skálaenda lagfært og lengt við sum horn vegskála.

Stjórnkerfi og vöktun

Í göngunum hefur frá upphafi verið stjórnkerfi sem byggt er upp af iðntölvum og nemum, mengunarnemum, trekkhraðanemum og fleiru. Auk þess nemur kerfið upplýsingar um bilanir á búnaði, rafmagnsleysi, og fleira.  Allt er þetta tengt saman á ljósleiðara. Iðntölvurnar stjórna loftræsingu og loka göngunum sjálfvirkt ef mengun verður hættulega mikil. Síðan er stjórntölva sem safnar upplýsingum, gefur möguleika á vöktun og að fylgjast með stöðu búnaðar. Þá er hægt að stjórna í ýmsu, eins og lokunum á göngunum. Vöktunin fór fram í gjaldskýlinu áður en Vegagerðin tók við göngunum en eftir það var vöktunin flutt til vaktstöðvar Vegagerðarinnar í Reykjavík, og hefur vöktunin þar gengið vel.

Farið hefur verið yfir stjórnkerfið. Virkni hefur aðeins verið breytt og kerfið endurnýjað. Meðal annars var bætt við mengunarnema og trekknema með hliðsjón af reynslu í nýrri göngum.

Stundum kemur fyrir að bílar verði stopp í göngunum. Áður gátu starfsmenn í vaktskýli á daginn farið niður í göngin og aðstoðað ökumenn slíkra bíla og mögulega dregið þá út. Þetta er nú leyst þannig að ef bíll stansar á akbraut lokar vaktstöð þeirri akrein og hringir strax á sérbúinn dráttarbíl frá Akranesi sem er  innan við 15 mínútur á staðinn.  Fyrirtækið Gísli Jónsson ehf. vinnulyftur, gröfur og tækjaleiga hefur annast þessa þjónustu og hefur þetta fyrirkomulag gengið vel.

Öllum búnaði til stjórnunar var leyft standa í gjaldskýlinu áfram til að hægt væri að manna það ef ástæða þætti til. Til þess hefur ekki komið.  Starfsmenn  Vegagerðarinnar fara hins vegar í eftirlitsferð í Hvalfjarðargöng alla daga.

Endurbætur á ljósleiðarakerfi

Göngin voru ekki tengd við umhverfið með ljósleiðara þó ljósleiðarastrengir lægju gegnum þau. Þetta kom aðeins á óvart, til  dæmis voru göng undir Breiðadals- og Botnsheiði tengd við stjórnstöð Vegagerðarinnar á Ísafirði árið 1996 um  ljósleiðara.

Hvalfjarðargöng voru tengd við Akranes á sérstöku örbylgjusambandi, raunar var hringtenging netkerfisins yfir fjörðinn líka á örbylgjusambandi, í þriðja lagi var örbylgjusamband við rekstraraðila netkerfisins í Reykjavík. Þetta var sjálfsagt ágætt kerfi á sínum tíma en slík kerfi  eru lítið notuð nú. Göngin voru strax tengd ljósleiðarakerfi á Hvalfjarðarströnd og örbylgjusamböndin lögð niður.

Vitað  var að líklega þyrfti að bæta við ljósleiðurum í göngin til að sinna nýjum þörfum. Kerfið var flókið og byggt upp í áföngum, sem oft er galli.  Ekki voru til góðar teikningar um kerfið. Smám saman hefur líka komið í ljós að ljósleiðarakerfið með tengingum var ekki í  fullkomnu standi. Einnig hafa komið bilanir á ljósleiðurum. Reynt hefur verið að þrífa skápa og tengingar og gæði sambanda mælt. Það eru mikil óhreinindi í veggöngum sem meðal annars veldur erfiðleikum við rekstur ljósleiðarakerfa.

Sérfræðingar frá EFLU verkfræðistofu lögðust yfir kerfið og teiknuðu það upp í sérstöku skráningar- eða teiknikerfi.  Skipt var um alla aðalleiðagreina og jafnframt voru hannaðar viðbætur við kerfið, það vantaði þræði fyrir spennistöðvar, nýtt  útvarpskerfi, stjórn TETRA kerfis og líklega fleira og alltaf virðast koma nýjar óskir. Endurbætur voru síðan boðnar út. Rafal vann verkið  sem er nú lokið en bætt var við verkið ákveðnum viðbótum til að tengja nýtt myndavélavöktunarkerfi og lýkur því í maí.

Ljósleiðarinn sem bætt var við er í ídráttarröri þar sem einnig er strengur frá Símanum sem þjónar GSM kerfi Símans  í göngunum. Var þetta gert í góðu samkomulagi við Símann.  Dregin voru 8 blástursrör í 75 mm ídráttarrör auk símastrengsins.  Eitt blástursrörið var notað fyrir nýja strenginn. Þá eru 7 tóm blástursrör fyrir hendi til síðari nota.  Samið var við Gagnaveitu Reykjavíkur um að fá eitt par í ljósleiðarastreng þeirra um göngin til að hringtengja netkerfi ganganna. Upplýsingatæknideild Vegagerðarinnar rekur netkerfið, enda er það hluti af netkerfi Vegagerðarinnar sem nær um allt land.

Merkingar og lokunarbúnaður

Þegar göngum er lokað blikka tvö rauð ljós utan við enda ganganna og lokunarslá lokast. Nokkur brögð voru að því að ekið væri á lokunarslána og því var ákveðið að setja ný og stærri blikkljós báðum megin við veginn eins og við Vaðlaheiðargöng. Einnig var ákveðið að  setja einnig breytilegt skilti undir blikkljósin til að reyna að gefa vegfarendum betri upplýsingar. Vaktstöð kveikir þá á skiltinu og getur þá valið myndina. Fyrsta myndin sýnir stutta lokun, ökumönnum bent á að bíða. Önnur mynd sýnir langa lokun og því sennilega ekki skynsamlegt að bíða, síðasta myndin er notuð þegar unnið er í göngunum, göngin eru ekki lokuð en ökumenn varaðir við.  

Undir merkinu eru síðan gefnar upplýsingar um upplýsingasíma og vefsíðu Vegagerðarinnar, þar sem vegfarendur eiga að geta fengið betri upplýsingar sérstaklega ef um langa lokun er að ræða.

Sett hafa verið upp merki um leyfilegan hraða 70 km á klst í miðjum göngum líkt og er í öðrum göngum. Skilti sem sýna hraða bíls eru nærri báðum endum.

RARIK tók við rekstri háspennukerfis

Í göngunum eru fjórar spennistöðvar og 11 kV strengur á milli þeirra. Þetta kerfi var í eigu Spalar sem þurfti að sjá um rekstur á því, en um rekstur háspennukerfis gilda strangar reglur. Þróunin hefur hins vegar verið sú að í öðrum íslenskum göngum eiga dreifiveitur spennana, þó viðkomandi göng hafi greitt fyrir þá í upphafi. Í Norðfjarðargöngum eru til dæmis sex spennistöðvar merktar RARIK sem Vegagerðin hefur ekki aðgang að. Talið var æskilegt að RARIK tæki spennistöðvar í Hvalfirði  til reksturs enda þótti ekki heppilegt fyrir Vegagerðina að standa í háspennurekstri. RARIK samþykkti að taka við rekstrinum en Vegagerðin kostaði ákveðna viðgerð á spennunum. Samið  var um yfirtöku RARIK 15. júní 2019.

Þvottur og ryk

Ryk í göngunum er stórt vandamál. Rykið er fyrst og fremst á veturna og orsakast af sliti á malbiki, til dæmis vegna nagladekkja. Talið er að 1 tonn af ryki  geti losnað úr malbiki á einni viku á naglatímanum.

Almenn grunnregla er að þvo og sópa ryki í göngum fremur en að blása því. Blásararnir í göngunum blása að vísu fínasta rykinu, sótmenguninni, en mikið síður stærri kornum sem bílar þyrla upp en detta svo fljótt niður. Ákveðið var að þvo meira en gert hafði verið og minnka heldur blástur. Göngin eru þvegin fjórum sinnum á ári, mismikið í hvert sinn, í stað tvisvar áður.

Aðgengi að vatni er mikilvægt enda yfir 100 rúmmetrar af vatni notaðir í hverjum þvotti. Vatn hefur undanfarin ár verið sótt niður á höfn á Akranesi sem er bæði tímafrekt og dýrt. Búið er að finna lausn og semja við Veitur sem hafa sett upp vatnstökustað við vigtunarplan Vegagerðarinnar við Blikdalsá 1,5 km frá gangaenda en rúmlega tíu km eru á Akranes. Þar er einnig gott plan fyrir þvottabílana til að snúa við og athafna sig.

Í vetur hefur verið farið með sérstakan götusóp með kraftmikilli ryksugu  í göngin vikulega. Sópnum er ekið fram og til baka og báðar akreinar sópaðar. Samkvæmt vigt bílsins nær hann upp meira en hálfu tonni í hvert sinn.

Ný setþró í helli Guðlaugar

Við hvern þvott fara mikil óhreinindi niður í vatnsþróna Guðlaugu í botni Hvalfjarðarganganna. Óþægilegt er að ná óhreinindunum upp auk þess sem gruggið veldur sliti á dælum. Hingað til hafa verið gerðar ákveðnar ráðstafanir við skipulag þvotta til að reyna að takmarka set í Guðlaugu en þær kosta þó nokkuð.

Nú hafa verið útfærðar hugmyndir um að gera sérstaka setþró í hellinum þar sem Guðlaug er, til þess að safna verulegum hluta af óhreinindunum í þvottavatninu. Við það verður auðveldara og ódýrara að ná grugginu upp úr setþrónni og ekki lengur ástæða til að reyna að forðast að grugg fari þangað. Þróin er um 8 x 4 m að stærð og aðgerðin þó nokkur. Fyrst var byrjað á svolitlum jarðgangagreftri um 50 m3. Síðan var slegið upp mótum, lögð járn og steypt. Eftir er að koma rörum og lokum endanlega fyrir, en þróin er nothæf til prófunar.

Kantljós í stað stika

Hefðbundnar vegstikur eru í Hvalfjarðargöngum. Þær verða fljótt skítugar og sjást ekki vel þegar ekið er með lágu ljósin. Ákveðið hefur verið að setja LED ljós með 25m fresti á kantana sem leiða umferðina vel. Slík ljós eru í Norðfjarðargöngum og hefur þeim verið mjög vel tekið. Ljósin gagnast einnig sem rýmingarlýsing ef reykur kemur í göngin. Búið er að opna tilboð í verkið og var Orkuvirki ehf. Reykjavík með lægsta tilboð í verkið. Áætlað er að hefja verkið í september eftir mesta umferðartímann og á því að ljúka í nóvember.

Nýtt myndbandsvöktunarkerfi

Í göngunum er myndbandsvöktunarkerfi sem sett upp 2010. Kerfið er með atvikavöktun og getur því til dæmis látið vaktmenn vita ef bíll stoppar í göngunum. Fljótlega eftir að vaktstöð Vegagerðarinnar fór að vakta göngin komu í ljós blettir sem kerfið sá ekki, til dæmis í beygjunum í göngunum en tiltölulega langt er milli véla. Fyrstu viðbrögð voru þau að panta vélar til að þétta bilið. Smám saman kom þó í ljós að fleira var að, sennilega að hluta netkerfið auk þess sem kerfið var orðið nokkuð gamalt en tíu ár er mikill aldur fyrir slíkt kerfi. Þegar betur var að gáð þótti ekki nægja að þétta vélarnar í beygjunum og því hafa nú verið boðin út kaup og uppsetning á nýju myndbandsatvikakerfi í göngin.

Sífelld skoðun

Fleira smálegt hefur verið gert til að bæta ástandið í göngunum, annað hvort til að auðvelda rekstur eða auka þjónustu.  Hæðarslár hafa verið endurnýjaðar, fleiri merki sett utan við göng og ýmislegt fleira. Stöðugt er verið að skoða atriði með það fyrir augum að betrumbæta búnað ganganna, létta eftirlit og rekstur, og bæta þjónustu við vegfarendur.