Fréttir
  • Vegagerðin annast skipulag almenningssamgangna á landsbyggðinni.
  • Nýr Hefjólfur kemur til hafnar í Vestmannaeyjum sumarið 2019.

Almenningssamgöngum viðhaldið, en með skerðingum

Áfram hægt að ferðast með flugi, almenningsvögnum og ferjum

8.4.2020

Farþegum almenningssamgangna á landsbyggðinni hefur fækkað verulega síðustu vikur með tilkomu Covid-19. Vegagerðin heldur utan um hluta af almenningssamgöngum og mun sjá til þess að áfram verði hægt að ferðast með strætó, flugi og ferjum. Þó koma til einhverjar skerðingar á starfseminni, í  það minnsta meðan samkomubann ríkir.

Eitt af hlutverkum Vegagerðarinnar er að annast skipulag almenningssamgangna á landsbyggðinni. Það felur í sér skipulag á akstri almenningsvagna á milli þéttbýlisstaða, á rekstri ferja og að haldið sé úti flugi á ákveðna staði.

„Við munum áfram sjá til þess að halda uppi almenningssamgöngum á landsbyggðinni eins og kostur er. Hins vegar eru aðstæður afar óvenjulegar. Farþegum hefur fækkað verulega á flestum leiðum, og því ekki annað hægt en að bregðast við með ákveðnum skerðingum,“ segir Sólveig Jóhanna Guðmundsdóttir forstöðumaður almenningssamgöngudeildar Vegagerðarinnar.

Sem dæmi hefur farþegum í almenningssamgöngum á landi fækkað að meðaltali um 75% síðan samkomubann hófst í samanburði við sama tíma árið 2019.

Sólveig hvetur fólk sem hyggst nýta sér almenningssamgöngur á landsbyggðinni að fylgjast vel með fréttum og upplýsingum á vefsíðum viðkomandi rekstraraðila en lista yfir þá má finna hér að neðan.

Almenningsvagnar

Almenningssamgöngum á landi verður haldið áfram að mestu leyti. Ákveðnar leiðir verða ekki eknar þar sem farþegafjöldi hefur alveg eða nánast fallið niður. Á öðrum leiðum verður ferðum fækkað. Þá má reikna með einhverri skerðingu á akstri nú um páskahelgina.

Notendum almenningsvagna er bent á að kynna sér ítarlegri fréttir á vef Strætó  www.straeto.is og á facebooksíðu Strætó . Unnið er að því að uppfæra tímatöflur og verða þær að öllum líkindum birtar í næstu viku. 

Flugsamgöngur

Vegagerðin heldur utan um flug milli Reykjavíkur, Gjögurs, Bíldudals og Hafnar, milli Akureyrar, Vopnafjarðar og Þórshafnar og milli Akureyrar og Hríseyjar.

Á vefsíðu flugfélagsins Ernis www.ernir.is má fá upplýsingar um eftirfarandi flug:

  • Reykjavík – Gjögur
  • Reykjavík – Bíldudalur
  • Reykjavík – Höfn

 

Á vefsíðu Norlandair www.norlandair.is má fá upplýsingar um eftirfarandi flug:

  • Akureyri – Vopnafjörður – Þórshöfn
  • Akureyri - Grímsey

 

Ferjusamgöngur

Vegagerðin heldur utan um rekstur á fimm ferjum; Vestmannaeyjaferjunni Herjólfi, Hríseyjarferjunni Sævari, Grímseyjarferjunni Sæfara, Breiðafjarðarferjunni Baldri og Mjóafjarðarferjunni.

Breytingar verða á ferðaáætlun sumra ferjanna en upplýsingar um ferðaáætlanir er að finna á eftirtöldum heimasíðum:

Vestmannaeyjaferjan Herjólfur og facebooksíða Herjólfs

Hríseyjarferjan Sævar

Grímseyjarferjan Sæfari

Breiðafjarðarferjan Baldur

Mjóafjarðarferjan