Fréttir
  • Fundurinn var afar vel sóttur.

Umferðaröryggi í þéttbýli - Myndband

Vel heppnaður morgunverðarfundur Vegagerðarinnar

18.10.2019

Vegagerðin hélt morgunverðarfund 15. október síðastliðinn. Yfirskriftin var Umferðaröryggi í þéttbýli. Fundurinn var afar vel sóttur en um áttatíu manns lögðu leið sína á Grand hótel til að hlýða á fyrirlesarana. Þeir voru Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri, Margrét Silja Þorkelsdóttir deildarstjóri tæknideildar Vegagerðarinnar á Akureyri, Svanhildur Jónsdóttir sviðsstjóri samgangna hjá VSÓ Ráðgjöf og Kolbrún Guðný Þorsteinsdóttir sérfræðingur í öryggis- og fræðsludeild á Samgöngustofu.

Margrét Silja reið á vaðið með erindið: Hvernig virkar sambúð þjóðvega og þéttbýlis. Þar sagði hún frá samstarfi Vegagerðarinnar og sveitarfélaga, sýndi dæmi um þjóðvegi sem liggja gegnum þéttbýli, en þess má geta að þjóðvegir í þéttbýli, utan höfuðborgarsvæðisins eru aðeins 1,2 % af heildarvegalengd þjóðvegakerfisins (sem er 12.900 km) og þjóðvegir í þéttbýli á höfuðborgarsvæðinu eru 0,9 % af heildarvegalengd þjóðvegakerfisins, samtals 2,1%.

Hins vegar er hlutfall ekinna kílómetra á þjóðvegum í þéttbýli 42%.
Margrét Silja sagði frá helstu áskorunum Vegagerðarinnar þegar kemur að þjóðvegum í þéttbýli, en gæta þarf hagsmuna bæði akandi, gangandi og hjólandi vegfarenda. Að lokum greindi hún frá aðkomu Vegagerðarinnar að umferðaröryggisáætlunum sveitarfélaga og hverjar eru helstu umferðaröryggisaðgerðir sem hægt er að fara í á þjóðvegum í þéttbýli.

Svanhildur Jónsdóttir sviðsstjóri samgangna hjá VSÓ Ráðgjöf greindi frá rannsóknarverkefni þar sem hún skoðar hvaða ávinningur hefur orðið af gerð umferðaröryggisáætlana hjá nokkrum sveitarfélögum. Fyrstu niðurstöður benda til að allir séu sammála um að mikill ávinningur sé af gerð umferðaröryggisáætlana, þær nýtist vel embættismönnum við störf sín að þær séu gott tól til að nota við gerð fjárhagsáætlana.

Kolbrún Guðný Þorsteinsdóttir, sérfræðingur í öryggis- og fræðsludeild á Samgöngustofu, sagði frá umferðaröryggisáætlunum skóla, það er hvernig best sé að skipuleggja umhverfi skóla, gönguleiðir barna og hvernig megi fræða börn um öruggustu leiðina til og frá skóla. Einnig sagði Kolbrún stuttlega frá samstarfi Samgöngustofu og bæjarfélaga á síðustu tveimur árum.

Síðust í pontu var Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins. Hún sagði frá verkefnum umferðareftirlits lögreglunnar. Hún greindi frá heildarfjölda skráðra umferðarlagabrota á höfuðborgarsvæðinu árin 2009 til 2019, en þeim fer heldur fjölgandi ár frá ári. Þar kom líka fram að fjölda brota sem tengjast akstri undir áhrifum ávana- og fíkniefna hefur fjölgað mikið, en einnig brotum sem tengjast ölvunarakstri.
Sigríður sagði frá rafrænu umferðareftirliti lögreglunnar og hvernig samfélagsmiðlar eru áhrifaríkt tæki fyrir lögregluna til að hafa samskipti við fólkið í samfélaginu.

Myndband af morgunverðarfundinum má sjá hér að neðan.

https://www.youtube.com/embed/xZ6cQMkzOIM"