Fréttir
  • Veghönnunarreglur, kafli 8, yfirborðsmerkingar.

Nýr kafli í veghönnunarreglum um yfirborðsmerkingar

Til stendur að gefa út leiðbeiningar um yfirborðsmerkingar til verktaka

28.8.2019

Nýr kafli í Veghönnunarreglum Vegagerðarinnar (kafli 8; Yfirborðsmerkingar) hefur verið gefinn út á rafrænu formi og má finna á heimasíðu Vegagerðarinnar.

Með útgáfunni fellur handbók um yfirborðsmerkingar úr gildi en til stendur að gefa út leiðbeiningar um yfirborðsmerkingar til verktaka.

Eftirfarandi var haft að leiðarljósi við gerð veghönnunarreglna um yfirborðsmerkingar:

  • Umferðarlög (1987 nr. 50) og reglugerð um umferðarmerki og notkun þeirra nr. 289/1995, með síðari breytingum. Engu að síður voru gerðar breytingar á reglugerð í samráði við Samgönguráðuneyti, Samgöngustofu, Lögreglu og fleiri aðila.
  • Einfalda og samræma heiti. Hingað til hefur hver línugerð haft allt að þrjú heiti, eitt í reglugerð, eitt á hönnunarstigi og það þriðja við framkvæmd. Ákveðið var að nota heiti úr reglugerð og verða þau notuð áfram í leiðbeiningum til verktaka sem fyrirhugað er að vinna í framhaldi veghönnunarreglna.
  • Hagkvæmni. Leitast er við að sleppa yfirborðsmerkingum sem hingað til hafa verið notaðar en hafa ekki augljósa þýðingu hvað varðar öryggi og greiðfærni. Aðrar merkingar verða þá meira áberandi fyrir vikið.

Í stefnu um notkun veghönnunarreglna segir að þær skulu lagðar til grundvallar við hönnun þjóðvega svo langt sem þær ná og að ef víkja þurfi frá veghönnunarreglunum, þá skuli gera um það skriflega greinagerð og hún lögð fyrir forstjóra Vegagerðarinnar.