Fréttir
  • Skipslúðrar voru þeyttir þegar Herjólfur nýi kom til hafnar.
  • Herjólfur nýi leggst að bryggju í Friðarhöfn.
  • Katrín Jakobsdóttir mundar freyðivínsflöskuna.
  • Njáll Ragnarsson formaður bæjarráðs, Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri, Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar og Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra.
  • Boðið var til veislu að athöfn lokinni.
  • Bergþóra Þorkelsdóttir flytur ávarp sitt.
  • Séra Guðmundur Örn Jónsson blessaði skipið.
  • Herjólfur kemur til Eyja.

Nýjum Herjólfi fagnað í Vestmannaeyjum

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra nefnir skipið formlega

18.6.2019

Formleg móttaka nýju Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs var haldin í Friðarhöfn í Vestmannaeyjum laugardaginn 15. júní. Nokkur fjöldi fólks fylgdist með á útsýnisstöðum þegar Herjólfur III og Herjólfur IV sigldu saman til Vestmannaeyja. Skipstjórar skipanna skiptust á að þeyta skipslúðra sem var hátíðlegt að heyra.

Mikill mannfjöldi safnaðist saman við Friðarhöfnina til að taka á móti Herjólfi og ríkti mikil gleði meðal gesta með komu hinnar nýju ferju.

Athöfnin hófst á því að Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, hélt ávarp þar sem hún lýsti yfir einlægri gleði yfir því að Herjólfur væri loks kominn í heimahöfn.

„Það er krefjandi að sigla í Landeyjahöfn í íslenskri veðráttu og takast á við miskunnarlaust Atlantshafið. En Vestmannaeyingar vita að einmitt þær siglingar skipta öllu máli fyrir Eyjar, bæði íbúana og atvinnulífið. Það er von okkar og vissa að ný ferja muni verulega fjölga þeim dögum sem siglt verður í Landeyjahöfn og þannig bæta lífskjörin hér í Eyjum. Það er til mikils að vinna fyrir okkur öll,“ sagði Bergþóra í ræðu sinni.

Hún þakkaði þeim fjölmörgu sem að smíðinni komu. Smíðanefnd og samgönguráðuneyti sem studdu Vegagerðina í gegnum allt ferlið og Ríkiskaupum sem önnuðust útboðið. Hún þakkaði siglingasviði Vegagerðarinnar sem hélt þétt utan um verkefnið og Jóhannesi Jóhannessyni ráðgjafa. Einnig skipasmíðastöðinni Crist S.A., Hirti Emilssyni fyrir eftirlit og lögfræðingum á Íslandi og í Danmörku.

„Ég þakka Vestmannaeyingum fyrir skilning á aðstæðum og þá ekki síst bæjarstjórn Vestmannaeyja sem studdi okkur í erfiðum aðstæðum á lokasprettinum.“

Fulltrúi Herjólfs ohf., formaður bæjarráðs Vestmannaeyja og pólski sendiherrann héldu einnig ávörp. Séra Guðmundur Örn Jónsson prestur Landakirkju blessaði skipið.  Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, flutti ávarp þar sem hann færði Vestmannaeyingum hina nýju ferju.

Að lokum var komið að því að nefna skipið formlega en það féll í skaut Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra og barna hennar tveggja.

Að athöfn lokinni var gestum og gangandi boðið til veislu í reisulegu tjaldi við hafnarbakkann. Boðið var upp á bragðgóðar súkkulaðikökur og börnin fengu sælgæti og blöðrur. Bæjarbúar og aðrir gestir gátu síðan skoðað ferjuna og var góður rómur gerður að henni.

Hér að neðan má sjá tvö stutt myndbrot annars vegar af nýja Herjólfi sigla inn í höfnina við Vestmannaeyjar og hins vegar af Katrínu Jakobsdóttur nefna skipið.

 

https://youtu.be/3RXPojaFY4E

 

https://youtu.be/6Xw-yAqa_wc