Fréttir
  • Ireneusz Ćwirko, annar aðaleigandi og stjórnarformaður Crist S.A. og Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðinnar
  • Ireneusz Ćwirko, annar aðaleigandi og stjórnarformaður Crist S.A., Aleksander Hasforth Holm lögfræðingur  og Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðinnar við undirskriftina
  • Herjólfur í Gdynia
  • Guðbjartur Ellert Jónsson framkvæmdastjóri Herjólfs ohf. og Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar
  • Íslenski fáninn hífður að húni í fyrsta sinn á nýju ferjunni
  • Bergþóra Þorkelsdóttir og Guðbjartur Ellert Jónsson

Herjólfur afhentur í Póllandi

Vegagerðin hefur fengið Herjólf afhentan í Gdynia

4.6.2019

Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar fékk fyrir hönd Vegagerðarinnar afhenta nýju Vestmannaeyjaferjuna Herjólf í Gdynia í Póllandi í dag 4. júní. Hún og Ireneusz Ćwirko, eigandi og stjórnarformaður skipasmíðastöðvarinnar Crist S.A. skrifuðu í dag undir tilheyrandi pappíra þess efnis. Á sama tíma var gengið frá lokagreiðslu og uppgjöri. Herjólfur ohf. sem sér um rekstur siglinga milli lands og Eyja tekur ferjuna á þurrleigu og mun fljótlega sigla skipinu heim.  

Guðbjartur Ellert Jónsson framkvæmdastjóri Herjólfs ohf. tók síðan við Herjólfi til leigu eftir að Vegagerðin hafi fengið skipið afhent, en Vegagerðin er eigandi ferjunnar. Áhöfn til að sigla Herjólfi heim er komin út til Póllands en nokkra daga mun taka að gera skipið klárt til heimsiglingar. reiknað er með að Herjólfur komi til Vestmannaeyja þann 15. júní en muni hefja siglingar milli lands og Eyja u.þ.b. hálfum mánuði síðar þegar áhöfnin í heild hefur reynt skipið og það gert klárt fyrir almennar siglingar með farþega. 

Afhending Herjólfs hefur tafist nokkuð og er það mikið fagnaðarefni að ferjan sé nú á heimleið og geti hafið siglingar í Landeyjahöfn fljótlega. Nýr Herjólfur ristir nokkuð grynnra en gamli Herjólfur og því þarf ekki að dýpka jafn mikið fyrir nýtt skip. Það mun auðvelda og flýta fyrir dýpkun og ætti að fækka þeim dögum sem ekki er unnt að sigla í Landeyjahöfn. 

Nýr Herjólfur er rafmagnsferja og mun sigla alfarið fyrir rafmagni milli Landeyjahafnar og Vestmannaeyja þegar frá líður. Settur verður upp búnaður á báðum stöðum til að hlaða ferjuna í landi og með rafmagni. Einnig eru um borð vélar sem alla jafna hlaða geyma skipsins sem síðan knýja skrúfurnar. Reikna má með að við siglingar til Þorlákshafnar þurfi að nota vélarnar til að framleiða rafmagnið. 

Á myndunum hífir Ívar Torfason skipstjóri Herjólfs íslenska fánann að húni í fyrsta sinn á nýju ferjunni. Á myndunum má einnig sjá Jóhannes Jóhannesson verkefnastjóra smíðinnar fyrir Vegagerðina og Guðbjart Ellert Jónsson framkvæmdastjóra Herjólfs ohf,