Fréttir
  • Unnið er þarft starf með þrifum á götum og umferðareyjum.
  • Alfreð sáttur að verki loknu.
  • Hálf dáleiðandi er að fylgjast með þegar vatnið skolar burt skítnum.
  • Gaman er að sjá umbreytinguna.
  • Götusópurinn þrífur óhreinindin sem fóru út á götuna.
  • Götusópurinn lýkur verkinu.

Vorverkin í höfuðborginni

Verktakar Vegagerðarinnar hreinsa götur og umferðareyjur á höfuðborgarsvæðinu

22.5.2019

Á nóttunni, meðan borgarbúar hvíla lúin bein, eru verktakar Vegagerðarinnar að störfum á stofngötum Höfuðborgarinnar. Þeir sópa og þrífa götur og smúla umferðareyjur til að fegra umhverfið, auðvelda gangandi og hjólandi að komast um og ekki síst til að minnka svifrykið sem fer svo illa í marga.

Alfreð Björnsson hjá Hreinsitækni er einn þeirra manna sem vaka meðan við hin sofum. „Það er engin leið að vinna þessi verk nema þegar umferðin er sem minnst. Yfirleitt hættum við um sex á morgnana enda er þá umferðin að þyngjast og erfitt fyrir okkur að athafna okkur. Svo held ég líka að margir ökumenn séu nánast enn sofandi svona snemma því oft hefur legið við slysi,“ segir Alfreð sem hefur starfað hjá Hreinsitækni í um tíu ár og því orðinn sjóaður í starfinu.

Alfreð var að smúla umferðareyju við gatnamót Miklubrautar og Grensásvegar þegar náðist í hann. Hann notar til þess háþrýstidælu sem tengd er við vatnsbíl. Byrjar á einum enda eyjunnar og smúlar drullu, steinum og ryki út fyrir hana. Nokkra tækni þarf til að beina drullunni í rétta átt en það gengur vel í þjálfuðum höndum. Verkið er tímafrekt en Alfreð telur að á góðum degi nái hann og félagar hans að klára tvö gatnamót. „Mér finnst skítugra núna en oft áður og það er gaman að sjá muninn á umferðareyjunum fyrir og eftir þrif.“

Þegar drullan hefur verið hreinsuð af umferðareyjunni fylgir bílsópur á eftir og sýgur upp alla steina og drullu meðfram henni.

Inntur eftir því hvort ekki sé lýjandi að vinna svona á nóttunni svarar Alfreð að hann reyni að vinna sem allra mest á sumrin og taki sér síðan gott frí, jafnvel allan veturinn. Oft dvelur hann í Brasilíu sem hann segir yndislegt land, enda heimaland konu hans.

Mikilvægt að þrífa götur til að minnka svifryk

Bjarni Stefánsson deildarstjóri umsjónardeildar á Suðursvæði Vegagerðarinnar segir vorverkin æði mörg hjá Vegagerðinni. Þjónustustöðin og verktakar á hennar vegum sjá um öll niðurföll , lýsingu, umferðarljós og umferðarmerki á stofnvegum á höfuðborgarsvæðinu. „Þá er slátturinn orðinn mjög stór liður,“ segir Bjarni en Vegagerðin býður sláttinn meðfram stofnvegum út líkt og önnur verkefni, og mun verktakinn taka til óspilltra málanna á næstunni og því líklegt að íbúar höfuðborgarsvæðisins geti andað að sér ferskri graslyktinni á næstunni.

Vegagerðin hefur einnig tekið virkan þátt í að halda svifryki í lágmarki á höfuðborgarsvæðinu. „Við vinnum að því með Reykjavíkurborg. Þar er starfandi teymi sem sér um að fylgjast með svifryksmælum og -spám. Það hefur síðan frumkvæði að því að kalla eftir svifryksbindingu að ósk heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur ,“ lýsir Bjarni. Verktakar Vegagerðarinnar fá þá rykbindiefni sem borgin hefur látið blanda og setja á tankbíla með spíssum að aftan sem dreifa upplausninni á göturnar.

Bjarni segir að slík rykbinding sé þó aðeins tímabundin lausn. Besta leiðin til að losna við svifrykið sé að þrífa göturnar vel og gera það oft. Stofnbrautir Vegagerðarinnar á höfuðborgarsvæðinu eru sópaðar fjórum sinnum á ári. „Því til viðbótar þrífum við allar umferðareyjur og hellulagnir, og þvoum undan vegriðum og köntum einu sinni á ári.“