Fréttir
  • Allur gróður sem þarf að taka burt er geymdur á gamla veginum meðan hann er breikkaður.
  • Þingvallavegur er lokaður fram á haust.
  • Meðan Þingvallavegur er lokaður er umferð beint um Vallaveg.
  • Gróður er nýttur til að græða upp nýja vegfláa.
  • Nýi Þingvallavegurinn er tveimur metrum breiðari.
  • Síðasta sumar var Þingvallavegur endurnýjaður á þriggja kílómetra kafla. Í ár verður sex kílómetrum bætt við.
  • Fjögur ný bílastæði koma í stað 50 lítilla útskota.
  • Rúta sem fór að hluta til útaf þegar vegkantur á Þingvallavegi gaf sig í apríl 2017. Ljósmynd: Lögreglan.

Áhersla á gróðurvernd við endurbætur á Þingvallavegi

Allur gróður nýttur til að græða upp vegfláa

17.5.2019

Nýverið hófst seinni hluti framkvæmda við endurbætur á Þingvallavegi, frá Þjónustumiðstöðinni og að vegamótum við Vallaveg.  Þingvallavegur verður lokaður fyrir allri umferð fram á haust þegar áætlað er að framkvæmdum ljúki. Alls er leiðin níu kílómetra löng og í fyrra voru gerðar endurbætur á þriggja kílómetra kafla.

Framkvæmdirnar eru liður í nauðsynlegu viðhaldi vegarins og hafa það markmið að auka umferðaröryggi vegarins, en umferð á veginum hefur aukist verulega á undanförnum árum. Árið 2010 var umferð um 430 bílar á sólarhring en árið 2016 var umferðin 1.500 bílar á sólarhring sem er 250% aukning. Gert er ráð fyrir að eftir 25 ár verði umferðin allt að 4.000 bílar á sólarhring.

Þjótandi á Hellu sér um framkvæmdina en Einar Már Magnússon verkefnastjóri á framkvæmdadeild mannvirkjasviðs Vegagerðarinnar hefur umsjón með verkefninu.

„Ástand vegarins var orðið mjög lélegt og eiginlega ómögulegt að viðhalda slitlaginu eins og það var enda undirbyggingin orðin mjög léleg,“ segir Einar en tvær rútur fóru nærri á hliðina á þessum vegi þegar vegöxlin gaf sig undan þunga þeirra.

Mikil áhersla lögð á endurheimt gróðurs

Framkvæmdin er bundin ýmsum verndarákvæðum. Vegurinn liggur í Þjóðgarðinum á Þingvöllum, sem er á Heimsminjaskrá UNESCO. Þingvellir og Þingvallavatn eru á Náttúruminjaskrá og framkvæmdasvæðið er innan vatnasviðs Þingvallavatns sem er verndað með lögum. Þá liggur Þingvallavegur á eldhrauni og fer í gegnum birkiskóg.

Því er mikilvægt að vandað sé til verka og Einar segir mikla áherslu lagða á verndun alls gróðurs við framkvæmdina. „Það er ein ástæða þess að ákveðið var að loka veginum alveg enda þarf öll framkvæmdin að vinnast af gamla veginum til að röskunin verði sem minnst,“ lýsir Einar en vegurinn verður breikkaður að jafnaði um tvo metra. „Ákveðið var að breikka hann ávallt þeim megin sem auðveldara var að eiga við gróðurinn og lágmarka umhverfisáhrif. Þetta fer þannig fram að fyrst er gróðurinn tekinn upp og færður á gamla veginn. Þá er nýju efni bætt í veginn til að breikka hann. Síðan er gróðurinn tekinn og færður í nýjan vegfláa. Við náum þannig að nýta nær alla gróðurþekjuna.“

Einar segir aðgerðina og aðferðina hafa verið undirbúna mjög vel áður en farið var af stað. „Vegagerðin var í góðu samstarfi við Landbúnaðarháskólann við skipulagninguna. Þar var unnin gróðurfarsskýrsla fyrir gróðurinn á svæðinu og áfram var unnið með þá skýrslu hjá VSÓ ráðgjöf og síðar af gróðursérfræðingi hjá Mannviti.“

Fjarlægja 50 útskot og byggja fjögur stærri bílastæði

Á þessum vegarkafla var að finna 50 útskot sem fólk hafði notað sem bílastæði í gegnum tíðina. „Þessi útskot voru aldrei hugsuð sem bílastæði heldur voru þetta gömul snúningsstæði fyrir vörubíla þegar verið var að byggja veginn á sínum tíma. Öll þessi útskot verða fjarlægð og í staðinn byggð fjögur stærri bílastæði. Þrjú þeirra verða fyrir 8 til 10 bíla og eitt fyrir 25 til 30 bíla þar sem einnig er gert ráð fyrir hópferðabílum. Staðsetning þessara bílastæða er sameiginleg ákvörðun Vegagerðarinnar og Þjóðgarðsins.“

Þurftu að lagfæra Vallaveg

Meðan Þingvallavegur er lokaður er umferð beint um Vallaveg sem liggur meðfram Þingvallavatni. „Ástand Vallavegar er alls ekki gott og við þurftum að leggja töluvert fé í að lagfæra hann áður en byrjað var á framkvæmdum við Þingvallaveg. Þar sem vegurinn er mjór hentar hann illa fyrir stærstu bíla og því höfum við mælst til þess að ferðaþjónustufyrirtæki noti minni bíla eins og kostur er,“ segir Einar og telur að þetta hafi gengið nokkuð vel. „Ferðaþjónustan hefur sýnt þessu skilning.“