Fréttir
  • Vitinn er fallegur á að líta og verður vafalaust vinsæll meðal ferðamanna.
  • Guðmundur og Ástþór Ingi eru viðstörf í vitanum við Sæbraut.
  • Mismunandi litir í vitaljósinu veita sjófarendum mismunandi upplýsingar.

Ljósi komið í nýjan vita

Rafvirkjar frá Vegagerðinni setja upp ljósabúnað í vitann við Sæbraut

9.5.2019

Starfsmenn vitadeildar Vegagerðarinnar vinna nú að því að koma fyrir nýjum ljósabúnaði í nýjasta vita Íslands sem stendur við Sæbraut í Reykjavík. Vitinn er samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar og Faxaflóahafna og tekur við hlutverki vitans á toppi Sjómannaskólans sem leitt hefur sæfarendur rétta leið inn í Reykjavíkurhöfn síðustu áratugi.

Rafvirkjar vitadeildarinnar, þeir Guðmundur Jón Björgvinsson og Ástþór Ingi Ólafsson, verða að störfum í vitanum næstu daga en vonir standa til að hann verði tekinn í notkun um og eftir miðjan mánuðinn. Á sama tíma verður slökkt á vitanum í Sjómannaskólanum.

Faxaflóahafnir fengu sjómælinga- og siglingaöryggisdeild landhelgisgæslunnar til að sigla ljósið út og stilla inn, Landhelgisgæslan staðfestir og stillir inn ljósgeira samkvæmt siglingakorti. Þegar Samgöngustofa hefur gert úttekt á ljósinu gefur gæslan út siglingakort. Samgöngustofa sér um að tilkynna inn ljósið.  

Hinn nýi viti er fallegur og allt umhverfi hans mikil prýði. Hann er nú þegar orðinn mikið aðdráttarafl ferðamanna sem rölta meðfram sjónum og mun líklega veita Sólfarinu verðuga samkeppni. "Hér er nú þegar mikið af fólki að taka sjálfur með vitanum," segir Guðmundur.