Fréttir
  • Herjólfur í skipasmíðastöðinni
  • Nýr Herjólfur
  • Nýr Herjólfur
  • Nýr Herjólfur

Vegagerðin leitar allra leiða til samninga

Innköllun bankaábyrgðar ekki afturkölluð að sinni

6.5.2019

Vegagerðin hefur um nokkra hríð freistað þess að ná samkomulagi við pólsku skipasmíðastöðina Crist S.A. um lokagreiðslu vegna smíði nýs Herjólfs og afhendingu skipsins. Fram hefur komið að á síðustu metrum smíðinnar krafðist skipasmíðastöðin skyndilega viðbótargreiðslu sem nemur um þriðjungi af smíðaverðinu. Að mati Vegagerðarinnar er engin stoð í samningi aðila varðandi þessa kröfu.

Ítrekað hefur legið við að bankaábyrgðir sem skipasmíðastöðinni er skylt að viðhalda renni út. Bankaábyrgðin er trygging Vegagerðarinnar fyrir því að endurheimta að mestu það fé sem þegar hefur verið greitt, standi skipasmíðastöðin ekki við gerða samninga.

Nýlega kom upp sú staða að Vegagerðin átti ekki annan kost en að innkalla ábyrgðir hjá bankanum sem gefið hefur út ábyrgðir fyrir Crist S.A.  þar sem við lá að ábyrgðin félli úr gildi áður en viðeigandi skjöl til staðfestingar framlengingu ábyrgðanna bærust Vegagerðinni.

Til þess að tryggja hagsmuni sína hefur Vegagerðin að sinni ákveðið að afturkalla ekki innköllun bankaábyrgðarinnar og hefur upplýst bankann um stöðu málsins. Svo sem sjá má í frétt Vegagerðarinnar frá 26. mars, og miðað við viðbrögð samgönguráðherra, er á engan hátt hægt að verða við kröfu skipasmíðastöðvarinnar.  Þessar aðstæður breyta því ekki að Vegagerðin mun áfram leita allra leiða til samninga í þessu máli innan þess ramma sem verkinu er sniðinn og stuðla þannig að því að afhending ferjunnar geti farið fram.

Vegagerðin tekur fram að innköllun bankaábyrgðar felur ekki í sér riftun samnings og öll áform um að selja ferjuna öðrum aðila fælu í sér samningsrof með tilheyrandi tjóni fyrir alla aðila. Hér á sér eingöngu stað breyting á því hver heldur á kaupverði skipsins þegar gengið er til samninga.  Hér eftir sem hingað til er það ásetningur Vegagerðarinnar að samningar verði efndir og ferjan afhent rekstraraðila Herjólfs til reksturs.          

Hér að neðan má lesa yfirlit yfir smíðina á nýjum Herjólfi og samskiptin við skipasmíðastöðina:

  

 

Yfirlit yfir smíði Herjólfs og staða mála 1. maí 2019

Forhönnun og útboð
Snemma árs 2013 skipaði Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið starfshóp um hönnun og smíði nýrrar Vestmannaeyjaferju. Starfshópnum var ætlað að hafa umsjón með hönnun og gerð útboðslýsingar fyrir hönnun og smíði á nýrri Vestmannaeyjaferju. Hönnunina skyldi miða við heilsárssiglingar á milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar og byggja á fyrirliggjandi kröfulýsingu og taka tillit til sérstakra aðstæðna í og við Landeyjahöfn einkum hvað varðar skrokklag skipsins, stjórnhæfni og djúpristu. 

Ákveðið var snemma í hönnunarferlinu að nýta svokallaða tvinntækni þar sem skrúfurnar eru knúnar áfram af rafmótorum sem fá afl sitt frá rafölunum og rafgeymum eftir því sem hagkvæmast er hverju sinni.  Fyrirkomulagið sparar umtalsverða orku miðað við orkunotkun núverandi Herjólfs og býður upp á frekari olíusparnað í framtíðinni með því að stækka rafhlöður og að nýta  landrafmagn til hleðslu þeirra eftir því sem hagkvæmt kann að þykja í framtíðinni.  Skipið var því frá upphafi hannað með það fyrir augum að unnt yrði að stækka rafhlöðurnar með auðveldum hætti þegar verð rafgeyma lækkaði og tækni við rafvæðingu skipa yrði lengra komin.

Hönnun skipsins var boðin út í febrúar 2014 og að tillögu ráðgjafa starfshópsins, Jóhannesar Jóhannessonar skipatæknifræðings, voru teknar upp samningaviðræður við norska fyrirtækið Polarkonsult A/S sem átti lægsta gilda tilboðið í forhönnun ferjunnar.  Samningur við Polarkonsult um forhönnunina var undirritaður í lok júlí 2014.  Samningsupphæðin var rúmar 800 þúsund evrur.

Á grundvelli forhönnunar Polarkonsult A/S buðu Ríkiskaup út smíði skipsins fyrir hönd Vegagerðarinnar þann 15. júní 2016 og voru tilboð opnuð 15. september 2016. Í smíði ferjunnar bárust alls 12 tilboð en kostnaðaráætlun hljóðaði upp á 27,5 milljónir evra.  Eftir mat Ríkiskaupa og dómnefndar hennar á tilboðunum var tilboð Fiskerstrand Verft AS frá Noregi upp á 21.850.000 evrur metið hagkvæmast en eftir að þeir féllu frá tilboði sínu var tilboð frá pólsku skipasmíðastöðinni Crist S.A. upp á 26.250.000 evrur metið hagkvæmast.

Samningur um smíði
Að undangengnum ítarlegum viðræðum við Crist S.A. þar sem farið var rækilega yfir allar forsendur útboðsins var samið við skipasmíðastöðina í janúar 2017.  Samningsverð er 26,25 milljónir evra og afhending skipsins ákveðin 20. júní 2018.  Samið var um að Crist tæki að sér að hanna og smíða ferju sem byggð væri á forhönnun Polarkonsult A/S.  Samningurinn er mjög skýr um það að hönnun skipsins er alfarið á ábyrgð skipasmíðastöðvarinnar.  Þar sem ein af aðalforsendum smíðarinnar er léttbyggt og grunnrist skip, er mikil áhersla lögð á það í samningi og smíðalýsingu að notuð séu létt efni eins og kostur er, t.d. í innréttingum og að allt sé gert til að takmarka þunga skipsins.  Í samningnum eru sektarákvæði ef djúprista skipsins fer yfir ákveðin mörk (2,80 m), ef siglingahraði við skilgreindar aðstæður fer undir ákveðin mörk (15,0 sjómílur á klst.) og ef burðargeta skipsins fer undir ákveðin mörk, auk þess sem dagsektir leggjast á ef skipið er ekki afhent á réttum tíma. 

Eftirlit með smíðinni
Að undangengnu útboði á eftirliti skipsins var samið við fyrirtækið Schulte Marine Concept um að hafa eftirlit með smíði skipsins.  Þrír eftirlitsmenn frá þeim hafa séð um eftirlitið undir stjórn Jóhannesar Jóhannessonar verkefnisstjóra sem jafnframt hefur haft með höndum samþykktir teikninga og fyrirkomulags skipsins fyrir hönd Vegagerðarinnar.  Eftirlitið hefur frá upphafi verið mjög öflugt og samvinnan við skipasmíðastöðina hefur verið góð. Frá upphafi lagði eftirlitið ríka áherslu á að skipasmíðastöðin gætti vel að þunga skipsins við hönnun og öllu tækja- og efnisvali.  Þetta kemur skýrt fram í fjölda fundargerða frá verkfundum sem eftirlitið hefur átt með skipasmíðastöðinni.

Smíðin og breytingar á smíðatíma
Síðla árs 2017 sneri skipasmíðastöðin sér til Vegagerðarinnar og óskaði eftir því að fá að lengja skipið þar sem þeir töldu sig sjá fram á að skipið yrði u.þ.b. 50 tonnum þyngra en áætlanir þeirra gerðu ráð fyrir og þeir gætu ekki uppfyllt ákvæði samningsins án þess að auka særými þess, eiginþyngd ferjunnar er nú 1650 tonn.  Vegagerðin benti á aðrar færar leiðir til þess að leysa vandann en niðurstaðan var sú að fallist var á óskir skipasmíðastöðvarinnar um að lengja skipið um 1,8 m og jafnframt breyta stefni þess til að minnka mótstöðuna og vega þannig upp á móti aukinni mótstöðu við lenginguna.  Þessi lausn var eindregin ósk Crist S.A. þar sem á þessu stigi smíðarinnar var eingöngu um breytingu á stáli að ræða og þetta því ódýrasta lausn þeirra.

Viðaukasamningur  (Amendment NO 1) var gerður um þessar breytingar  7. desember 2017.  Þar eru ákvæðum samningsins sem lúta að stærð og djúpristu breytt og jafnframt var afhendingartími skipsins lengdur frá 20.6.2018 til 1.08.2018.  Öll önnur ákvæði samningsins eru óbreytt þ.á m. verð, enda var farið eftir ákvæðum samningsins um ábyrgð Crist S.A. á hönnun skipsins. 

Í smíðasamningi var gert ráð fyrir 700 kWh rafgeymum en gert ráð fyrir að skipið væri undirbúið fyrir stækkun á rafgeymum upp í allt að 3.500 kWh.  Þegar smíði skipsins var boðin út var ekki talið tímabært að semja um stærri rafgeymapakka en þetta. Tækniþróunin reyndist þó það ör að starfshópur um hönnun og smíði Vestmanneyjaferju lagði til að taka skref að fullri rafvæðingu skipsins þannig að unnt væri að sigla á rafmagni eingöngu á milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar með því að hlaða rafgeymana í inniveru í báðum höfnunum.  Í janúar 2018 ákváðu stjórnvöld að fara að tillögu starfshópsins og samið var við Crist S.A. um þessa breytingu 5.2.2018 með stækkun á rafgeymum í 3.000 kWh. Samið var um fast verð, rúmlega 3 milljónir evra eða tæp 12% af samningsverði og afhendingartími skipsins lengdur um fjórar vikur.

Aðrar breytingar og/eða frávik frá smíðasamningi eru minniháttar.  Samið hefur verið um rúmlega 50 aukaverk og gerður skriflegur samningur (VOR-Variation Order Form) um þau öll þar sem samið er um fast verð og viðbótar smíðatíma þar sem það á við í samræmi við smíðasamninginn.  Þar vegur þyngst ýmis nýr siglingabúnaður og stjórntæki í brú til að auðvelda siglingu skipsins í Landeyjahöfn.  Samtals nemur kostnaður við þessi aukaverk um 350.000 evrum eða innan við 1,5% af samningsverði skipsins en stöðinni var veittur 16 vikna afhendingarfrestur vegna þessa.

Undanfarnar vikur og mánuði hefur skipasmíðastöðin unnið að lokafrágangi skipsins og úrbótum sem flokkunarfélag þess DNV-GL, Samgöngustofa og eftirlitsmenn hafa krafist en í lok apríl 2019 var smíðinni að mestu lokið og skipið er nú tilbúið til afhendingar.

Krafa Crist S.A. um greiðslu á viðbótarkostnaði (additional cost)
Eftir miðjan febrúar 2019 mátu eftirlitsmenn Vegagerðarinnar  stöðuna svo að ef Crist S.A. héldi vel á málum gætu þeir lokið smíðinni og afhent skipið um miðjan mars.  Vegagerðin óskaði því eftir fundi með skipasmíðastöðinni með það að markmiði að undirbúa móttöku skipsins og ná samkomulagi um lokagreiðslu.   Ákveðið var að funda í Póllandi 28. febrúar.

Þann 25. febrúar, þremur dögum fyrir fundinn, barst Vegagerðinni bréf frá Crist S.A. þar sem þeir gera kröfu um viðbótargreiðslu upp á tæpar 8,9 milljónir evra.  Helstu ástæðuna fyrir kostnaðaraukningunni sagði skipasmíðastöðin vera „ferlið við endurhönnun“ skipsins ásamt kostnaði við samþykktarferlið og samræmingu aðal birgða.  Þetta ferli hefði haft bein áhrif á byggingarkostnaðinn og heildar starfsemi stöðvarinnar. 

Fram að þessu hafði skipasmíðastöðin aldrei viðrað þennan viðbótarkostnað við Vegagerðina og hvergi í samskiptum  milli Vegagerðarinnar og Crist S.A. á smíðatímanum er að finna nokkuð sem styður þessa kröfu stöðvarinnar.

Á fundinn sem haldinn var á skipasmíðastöðinni 28. febrúar mættu fyrir hönd Vegagerðarinnar Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar, Stefán Erlendsson forstöðumaður lögfræðideildar Vegagerðarinnar, Hjörtur Emilsson, skipatæknifræðingur og Jóhannes Jóhannesson skipatæknifræðingur.   

Fulltrúar Vegagerðarinnar lögðu fram útreikninga sína á lokagreiðslu  sem saman stóð af 15% lokagreiðslu, ógreiddum en umsömdum greiðslum vegna aukaverka að frádregnum dagsektum vegna seinkunnar á afhendingu skipsins, allt í samræmi við smíðasamning.  

Fulltrúar Crist á fundinum vísuðu til bréfs síns frá 25. febrúar og kröfðust þess að Vegagerðin greiddi þessa kröfu.  Vegagerðin hafnaði kröfu Crist S.A. um viðbótargreiðslur og bentu á að skipasmíðastöðin hefði tekið á sig fulla og ótakmarkaða ábyrgð á hönnun og smíði skipsins og þeir hefðu ekki getað sýnt fram á að aðrar breytingar hefðu verið gerðar á skipinu frá því að samið var um smíðina en þær breytingar sem samið hefði verið um skriflega eins og smíðasamningur kveður á um. 

Crist S.A. tilkynntu að skipið yrði tilbúið til afhendingar 7. mars 2019.  Vegagerðin lýsti efasemdum sínum þar sem fjölmörg verk væru óunnin um borð og hvorki DNV-GL eða Samgöngustofa hefðu lokið skoðunum sínum og gefið út nauðsynleg skoðunarvottorð og skírteini sem væri forsenda þess að unnt væri að afhenda skipið. Vegagerðin væri þó reiðubúin að taka við skipinu og greiða lokagreiðslu í samræmi við smíðasamning um leið og smíði þess lyki og öll skírteini lægju fyrir.

Fundinum lauk án samkomulags. Þar sem óvænt og órökstudd krafa Crist S.A., sem að mati Vegagerðarinnar á enga stoð í smíðasamningi, stóð í vegi fyrir samkomulagi var ákveðið að leita lögfræðilegrar ráðgjafar dönsku lögfræðistofunnar Gorrissen Federspiel.

Tveir fundir til viðbótar hafa verið haldnir með skipasmíðastöðinni í Póllandi, nú með þátttöku dönsku lögmannanna,  án þess að samkomulag hafi náðst. Auk þessa hafa fjölmargir fundir farið fram símleiðis.

Fram undan eru frekari samningaviðræður við Crist S.A og vonast Vegagerðin til þess að samkomulag náist um afhendingu skipsins innan skamms.