Fréttir
  • Dáleiðandi er að fylgjast með vegunum breytast eftir árstíma í vídeóverkinu Spukhafte Fernwirkung.
  • Kailum Graves er ástralskur listamaður sem dvaldi í listamiðstöðinni Nesi á Skagaströnd og vann að vídeólistaverki um íslenska vegi.
  • Vefmyndavélin Súðavíkurhlíð 2 er í uppáhaldi hjá Graves.

Listaverk um vegi Íslands

Listamaðurinn nýtti vefmyndavélar Vegagerðarinnar

29.4.2019

Ástralski listamaðurinn Kailum Graves vann vídeólistaverk með myndum úr vefmyndavélum Vegagerðarinnar. Í verkinu, sem heitir Spukhafte Fernwirkung, sýnir Graves íslenska vegi og hvernig þeir breyta um ásjónu á heilu ári.

Graves dvaldi á Íslandi í tvö skipti á síðustu tveimur árum, samtals í fjóra mánuði. Hann bjó í listamiðstöðinni Nesi á Skagaströnd en það er alþjóðleg miðstöð með gestavinnustofum fyrir starfandi listamenn á öllum sviðum lista.

„Mig langaði að skoða Ísland á annan hátt en allir þeir fjölmörgu ljósmyndarar og vídeógerðarmenn hafa gert hingað til. Í staðinn fyrir sýna landið í hefðbundnu ljósi vildi ég kanna skilin milli menningar, tækni og umhverfis. Hringvegurinn sem tengir allt landið, fólkið og ferðamannastaðina var því áhugavert umfjöllunarefni fyrir mig,“ segir Graves sem er mikill útivistarmaður og nýtur þess að vera fjarri mannabyggð í vondu veðri. „Nes listamiðstöðin var því tilvalinn vinnustaður fyrir mig enda eyddi ég meiri tíma útivið í öllum veðrum en í stúdíóinu.“

Ein fyrsta vefsíðan sem Graves skoðaði eftir að hann kom til landsins var vegagerdin.is. „Ég kom til Íslands í febrúar 2017 og þurfti að taka tvær rútur til að komast á Skagaströnd. Því skoðaði ég Vegagerðarsíðuna til að ganga úr skugga um að ég kæmist á leiðarenda. Þá uppgötvaði ég vefmyndavélarnar og fannst frábært að sjá handahófskenndar myndir af kindum, mögnuðum sólsetrum, ferðamönnum að stara á norðurljós, óveðri og trukkum. Ég fór að safna saman myndum úr vélunum á hverjum degi í heilt ár.“

Fyrstu tvo og síðustu tvo mánuðina dvaldi hann á Íslandi. Við tók heils árs vinna við að skeyta öllum myndunum saman í heildstætt vídeóverk. „Ég saknaði þess að ganga um í snjóbomsunum mínum í íslensku landslagi og með þessu verkefni hélt ég nálægðinni við landið og náttúruna með óbeinum hætti,“ segir Graves. Inntur eftir því hvort hann eigi sér uppáhalds vefmyndavél svarar hann að það sé Súðavíkurhlíð 2. „Línurnar í veginum minna mig á íslenska fánann.“

Nafnið Spukhafte Fernwirkung,sem lauslega þýtt gæti útlagst sem „dularfull fjarvirkni“, dregur Graves af orðasamband sem Einstein notaði til að lýsa fyrirbærinu quantum entanglement.

Það er undarlega dáleiðandi að horfa á myndbandið sem finna má hér.

Önnur verk Graves má finna hér.