Fréttir
  • Uppsetning stálboga brúarinnar.
  • Uppsetning boga brúarinnar.
  • Hið nýja brúarstæði.
  • Nýja og gamla brúarstæðið.
  • Teikning af uppsetningu brúar yfir Eldvatn.

Góður gangur í brúarsmíði yfir Eldvatn

Stefnt á vígslu í lok sumars

16.4.2019

Brúin yfir Eldvatn hjá Ásum í Skaftártungu, Skaftárhreppi í Vestur-Skaftafellssýslu skemmdist í Skaftárhlaupi árið 2015. Rof varð á eystri bakka brúarinnar sem leiddi til þess að hún skekktist og hafði það áhrif á burðarþol hennar.

Vegagerðin stóð fyrir miklum athugunum á ástandi brúarinnar og að lokum var ákveðið að opna hana en með miklum takmörkunum þó. Heildarþungi ökutækis á brúnni var takmarkaður við 5 tonn og einungis ein bifreið var leyfð á brúnni samtímis.

Þar sem talið var að flóð myndu auka á rof á eystri árbakkanum var tekin ákvörðun um að byggja nýja brú en árið 2016 tilkynnti Vegagerðin um fyrirhugaða byggingu 78 metra langrar brú yfir Eldvatn, skammt neðan núverandi brúarstæðis.

Ný brú vígð í lok sumars

Vinna við hina nýju brú er nú í fullum gangi en steypuvinnu á staðnum lauk í október á síðasta ári.

„Brúin var smíðuð í Póllandi í vetur en síðustu einingarnar komu á verkstað þann 28. mars síðastliðinn,“ segir Einar Már Magnússon, deildarstjóri á mannvirkjasviði framkvæmdadeildar Vegagerðarinnar. Aðalverktaki verksins er Munck Íslandi ehf. en brúin var smíðuð af Vistal í Póllandi.

Brúin er stálbogabrú með frístandandi bogum og neti hengistanga sem ber uppi langbitana. Brúargólfið er steypt plata, samverkandi við þverbita, steypt ofan á forsteyptar einingar. Undirstöður eru steyptar, skorðaðar í klöpp með bergboltum.

„Núna er verið að setja saman einingarnar sem komu frá Póllandi en samsetningunni mun ljúka í byrjun maí,“ segir Einar og bendir á að all sérstök aðferð verði notuð til að koma brúnni fyrir. „Henni verður í raun ýtt yfir ána. Byggðar verða bráðabirgðaundirstöður sem síðar verða fjarlægðar.“

Í sumar verður unnið að frágangi við brúnna en samtímis verður farið í vegagerð sitt hvoru megin við hana. Gert er ráð fyrir að brúin verði vígð í lok sumars.

Á myndunum sem fylgja fréttinni má sjá þegar verið er að setja saman boga brúarinnar, en verið er að hífa toppstykkið í bogann ofan á gula stálturna sem síðan verða fjarlægðir.